11.02.1944
Sameinað þing: 15. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (4257)

29. mál, Suðurlandsbraut um Krýsuvík

Ingólfur Jónsson:

Hv. þm. V.-Sk. baðst afsökunar, ef hann hefði farið óeðlilega að í þessu máli, og þar sem ekki er annað vitað en hann hafi allt gott í huga varðandi þessa málsmeðferð, er sjálfsagt að fyrirgefa honum, ef málið bíður ekki meira tjón af því og fær góðan endi.

Hv. þm. talaði um, að það skipti ekki máli, hverjir væru flm. till., og bæri ekki að vera með þann hégómaskap að setja slíkt fyrir sig. En hann veit, að þegar um umdeild mál er að ræða, er leitazt við að hafa flm. úr sem flestum flokkum til að tryggja málunum framgang. Ef hv. þm. er viss um framgang málsins, þó að enginn sjálfstæðismaður sé meðflm., þá er allt gott og blessað. Fyrir mér er það aðalatriði, að málið skaðist ekki fyrir klaufaskap, en nái fram að ganga.

Hv. þm. talar um, að ég gefi flokksbræðrum mínum slæman vitnisburð. En ég veit, að þessi hv. þm. er einmitt með því markinu brenndur að taka meira tillit til þess, sem flokksbræður hans segja en andstæðingarnir. Ég skal ekki fullyrða meira um þetta, sérstaklega þar sem hv. þm. er nú genginn út til að tala í símann, en ég vil endurtaka það, að ég vil, að málið nái fram að ganga. Það er upplýst, að búið er að leggja 600–700 þús. kr. í Krýsuvíkurveginn, en það er ekki einungis vaxtalaust fé, heldur beinlínis tapað, ef ekki verður meira að gert.

Ég get svo látið máli mínu lokið.