15.06.1944
Neðri deild: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

76. mál, þjóðfáni Íslendinga

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. — Ég skal vera fáorður um þetta mál. Ég þarf ekki að víkja neitt að þeim breyt., sem hv. frsm. hefur gert grein fyrir af hálfu n. Ég er þeim samþykkur, og hann hefur gert svo glögga grein fyrir þeim, að ég þarf ekki frekar um það að ræða. En ég hef getið þess í nál., að ég hefði talið æskilegt, að gerð fánans, þegar hann yrði lögleiddur, væri gamli bláhvíti fáninn, sem er undanfari þjóðfánans, ef svo mætti segja. Þessi orð mín eru flutt af minni eigin hálfu. Ég ber algerlega sjálfur ábyrgð þeirrar skoðunar. Ég viðurkenni, að fyrst frv. um þetta efni er komið fram, þá sýnist mér ekki annað hlýða en það nái samþykki þingsins og verði afgreitt. Ef öðruvísi hefði staðið á, mundi ég hafa borið fram brtt. um gerð fánans, þá brtt., að horfið yrði að þeirri fyrri gerð, sem var á fánanum, áður en hinn var löggiltur.

Bláhvíti fáninn var á sinni tíð hjartfólginn þeirri æsku, sem þá var uppi. Hún hafði barizt fyrir honum og reynt að útbreiða þá skoðun meðal þjóðarinnar, að þjóðin ætti að hafa sérstakan fána og þá af þessari gerð. Hún gerði sér allt far um að afla honum fylgis, og það er áreiðanlegt, að sá félagsskapur átti rætur sínar í ástfóstri við bláhvíta fánann. Þær tilfinningar urðu ekki minni; þegar af erlendu valdi var gerð tilraun til að hnekkja þessari hreyfingu og koma í veg fyrir, að hún fengi notið sín, til þess að hreyfingin næði því marki, að við fengjum sérstakan fána. Ég get líka lýst yfir því fyrir mig, að mér þykir bláhvíti fáninn fallegri en þjóðfáninn, sem við höfum nú. En ég get fyllilega búizt við, að öðrum kunni að þykja hið gagnstæða. Mér finnst gerð bláhvíta fánans öll ákaflega fögur. Hún er einföld og litaskiptin fögur. Má vera, að það hafi einhver áhrif á mínar tilfinningar og skoðun um þetta efni, að ég sem ungur maður tók þátt í þeirri hreyfingu, sem hafin var um fánamálið á sinni tíð, og þá var það bláhvíti fáninn, sem barizt var fyrir. En nú mun vera svo ástatt, að vart verður ágreiningslaust, ef breyta ætti fánanum. Mér skilst, að sú breyting gæti ekki átt sér stað allt í einu, en þyrfti nokkurn aðdraganda til, til þess að hægt væri að nota fánann fyrst og fremst til siglinga. Ég ætla mér því ekki að flytja brtt. um gerð fánans. Eigi að síður get ég búizt við, að það málefni verði; vakið upp síðar. En seinni tíminn verður þá að , skera úr því, hvert fylgi það hefur meðal þjóðarinnar.