10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (4319)

67. mál, norræn samvinna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ekki get ég látið það ómótmælt standa, að við þurfum að bera fram þessa till. sem eins konar afsökun til Norðurlandaþjóðanna fyrir að vera að endurheimta sjálfstæði okkar sjálfir. Ég held, að ástæðan til þessarar yfirlýsingar sé sú, að einmitt nú um sama leyti og við öðlumst okkar frelsi, finnum við til þess, að aðrar Norðurlandaþjóðir skuli vera hnepptar í þá verstu kúgunarfjötra, sem í sögu þeirra þekkjast. Við óskum, að þær losni úr þeirri ánauð, vinni sigur í hinni fórnfreku baráttu gegn kúguninni. Við minnumst þess líka, að Norðurlandaþjóðir hafa ekki verið okkur fjandsamlegar, þótt þaðan kæmi sú yfirstétt, sem kúgaði bæði okkur og þær. Það er ekki nema rétt, að það komi fram, að beztu forvígismenn frelsis okkar bjuggu lengi og vel í Kaupmannahöfn. Sá eldur, sem með þeim brann, var glæddur við áhrif frelsisbaráttunnar í hinni dönsku höfuðborg. Þegar við minnumst 40 ára heimastjórnar, megum við muna, að hún var þeim sigri að þakka, sem lýðræðisöfl dönsku þjóðarinnar unnu þá fyrir sig og um leið fyrir okkur. Mér fannst hugsunarháttur hv. 7. þm. Reykv. bera vitni um ranga afstöðu, hugmyndir hans um baráttu þjóðar móti þjóð. Við höfum átt fyrr og síðar bandamenn meðal dönsku þjóðarinnar, og það er engin ástæða til að dylja það né gleyma því.

Fyrir nýár hafði ég lagt fram till. um yfirlýsingu Alþingis í svipaða átt og þessi fer, en ákveðnari. Ég lagði till. fyrir skilnaðarn., en því miður fann sú till. ekki náð fyrir augum meiri hl. Loks fyrir skömmu tók skilnaðarn. þessi mál til athugunar. Ég bar þá fram till. í n. með alleindregnu orðalagi, þó ekki meir en svo, að öllum Norðurlandaþjóðum var óskað frelsis, þ. á m. t. d. Svíum og Finnum, og Norðmönnum og Dönum óskað sigurs í frelsisbaráttu þeirra, — því að mér er ekki kunnugt um aðra frelsisbaráttu nú á Norðurlöndum. — Því miður var þessi till. felld í n., en þessi samin, sem fyrir liggur.

Ég sé ekki, hvernig nokkur maður ætlar að óska bæði Norðmönnum og Finnum sigurs í styrjöld, sem þeir heyja hvorir móti öðrum. Ég skil ekki, hvernig hægt er að tala um að gera ekki upp á milli t. d. norskra og finnskra sjónarmiða þessarar heimsstyrjaldar og óska báðum jafnt sigursins, nema bersýnileg hræsni sé á aðra hvora hlið og mjög tvíræð framkoma. En engri þjóð, sem í þessu stríði þjáist, óskum við ósigurs.

Mér virðist brtt. frá hv. þm. Siglf. (ÁkJ) og hv. 2. landsk. (ÞG) við till., eða öllu heldur hin skrifl. brtt. þeirra við brtt. á þskj. 197 og brtt. 197, þannig breytt, vera til bóta og mun haga mér eftir því við atkvgr.