10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (4413)

38. mál, fjárskipti í Suður-Þingeyjarsýslu

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Ég flyt eftir ósk bænda í Suður-Þingeyjarsýslu þáltill. á þskj. 46, þar sem farið er fram á heimild handa stj. til að stuðla að því, að fjárskipti gætu orðið á svæðinu milli Jökulsár og Skjálfandafljóts nú á næsta hausti, ef lögleg atkvgr. heimilar það á þessu svæði. Þetta mál kom einnig fram á síðasta þingi, í öðru formi þá, en stöðvaðist í Ed., af því að sauðfjársjúkdóman. vildi ekki mæla með þessari framkvæmd þá. Síðan óskuðu bændur á þessu svæði eftir smávægilegum breyt. á atkvgr. þessu viðvíkjandi. Var hún borin fram á þessu þingi og hefur nú hlotið staðfestingu. Og af því að það hefur nokkra þýðingu í málinu, þessi litli munur, þá ætla ég að koma að því atriði strax.

Í eldri löggjöf er gert ráð fyrir, að enginn maður á fjárskiptasvæði, sem á minna en 25 kindur, geti tekið þátt í atkvgr. um fjárskipti. En svo hraðfara hefur pestin verið þarna, að um 1/6 hluti bændanna hefur fallið úr því að vera atkvæðisbær um málið, — einn sjötti hlutinn á ekki 25 kindur. T. d. má geta þess, að í Aðaldalnum, þar sem bændur áttu áður 100 ær að meðaltali, þar er meðaltalið nú minna en 10 ær. Nú þótti sanngjarnt, þegar ákveða skyldi, hvort skipta skyldi um fé, að ekki væri um það spurt, hvort pestin væri búin að drepa svo mikið af sauðfé hvers bónda, að hann ætti ekki lengur 25 kindur, heldur hvort hann hefði átt 25 kindur, áður en pestin kom. Ég nefni þetta sem dæmi um, hvað pestin hefur gengið nærri þessu héraði, þar sem fólk lifir nærri því eingöngu á sauðfjárrækt. Þessi lagabreyting hefur nú gengið fram, og mun vera meiningin hjá Þingeyingum, ekki aðeins Suður-Þingeyingum, heldur einnig Keldhverfingum, að láta fara fram atkvgr. um það í vor, hvort þeir fyrir sitt leyti vilji leggja út í fjárskipti. En áður en ég kem að því, sem munar á minni till. og þeirri, sem meiri hl. fellst á að mæla með, vil ég skýra málið stuttlega.

Þegar gerð voru 1. um fjárskipti árið 1941, var sauðfjársjúkdóman. aðallega að glíma við garnaveikina í Skagafirði austanverðum. Var unnið að að gera fjárskipti til að hindra útbreiðslu hennar. Var því lógað fé hjá mörgum, án þess að veikin væri þar. Það var óhugsandi að gera þessar ráðstafanir öðruvísi en bændur fengju fullt gjald fyrir samkv. fyrirmælum stjórnarskrárinnar. L. frá 1941 gerðu ráð fyrir tiltölulega miklum bótum handa þeim, sem skiptu um fé, og er höfuðástæðan þessi.

Þegar Suður-Þingeyingar fóru fram á styrk í þessu efni í vetur fyrir jól, reiknaði n., hvað fjárskipti mundu kosta, ekki aðeins í Suður-Þingeyjarsýslu á þessu svæði, heldur líka allt vestur að Héraðsvötnum, og taldist henni svo til, að samkv. núgildandi verðlagi mundi kostnaðurinn verða um 10 millj. kr. Þetta hræddi auðvitað n. og þingið þannig, að á vetrarþinginu var ekki hægt að fá neina áheyrn um þetta mál, og verður það að teljast eðlilegt. En bændur héldu málinu áfram, og mér var falið að bera það fram nú, en þá var vitanlega ekki hægt að bera það fram á grundvelli gildandi 1., enda hafa bændur miðað afstöðu sína við það. Þegar málið kom til fjvn., talaði ég við forstöðumann sauðfjárveikivarnanna. Hann út af fyrir sig hafði ekkert vald til að gera neitt sérstakt í þessu, en nálega öll n. var mótfallin að samþ. till. á þskj. 46, af því að þetta var of dýrt og af því að ekki var heldur hægt að fullyrða neitt um endanlegt öryggi. Þegar sýnilegt var, að ómögulegt var að koma við fjárskiptum samkv. 1. frá 1941, af því að það hefði lagt þyngri byrðar á ríkissjóð en þm. vildu samþ., þá var það, að fjvn. vildi, þar sem þarna lá við hallæri, liðsinna þessu fólki þó eitthvað. Þá tók n. upp á sig að gera nýja tilraun um hugsanleg fjárskipti á þessu svæði með því að fara af grundvelli 1. frá 1941 og inn á annan, sem leggur miklu minni byrðar á herðar ríkissjóðs, ef til kemur. Till. fjvn. er á þskj. 143, og það, sem þar skiptir máli, er þetta: Stj. er heimilað að verja allt að 600 þús. kr. í þessu skyni, enda sé stj. og sauðfjársjúkdóman. sammála um málið og bændur, sem hlut eiga að máli, samþ. með ekki minna atkvæðamagni en tilskilið er í 2. kafla 1. frá 9. júlí 1941. Stj. er því ekki skyldug til að gera þetta, nema samþykki sauðfjársjúkdóman. komi til, og þar að auki getur svo farið, þó að n. vilji það, að bændur, sem gjarnan vilja skipta, telji sig hart leikna, þar sem hér á að nota allt annað kerfi en hefur verið notað áður, svo að ég hef enga bók upp á, að þetta verði gert, þótt þingið samþ. till. og stj. vilji gera það. En ástæðan til þess, að ég beiti mér fyrir þessu, er sú, að sú skoðun er mjög uppi á þessum stað og víðar um austurhluta landsins, að ekki sé um annað að gera en skipta. Ég álít, að upp úr þessu geti komið það, hvort sem það verður í Þingeyjarsýslu nú í ár eða ekki, að reynt verði með ódýrari hætti en áður að koma til hjálpar bændum, sem í hallæri eru staddir. Hér er gert ráð fyrir að leggja fram nokkra fjárhæð í eitt skipti fyrir öll til að hjálpa mönnum til að eignast heilbrigt sauðfé á þessu svæði. Á þessu stigi málsins er ekki talað um, hvaðan eigi að fá það fé. Öruggast mundi að fá það af Vesturlandi og hugsanlegt væri úr Norður-Þingeyjarsýslu, og mundi n. mestu um það ráða, ef til kæmi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hef reynt að skýra málið eins og það liggur fyrir. Þetta er tilraun til að koma þessum þætti sauðfjárveikivarnanna af leið, sem er óframkvæmanleg, því að við vitum, að það verður aldrei skipt á grundvelli 1. frá 1941, því að sú leið er of dýr. Hér er leitað að nýjum grundvelli, sem getur ef til vill bjargað bændum úr hallæri án þess að leggja á ríkissjóð of þungar byrðar.