22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (4527)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. spurði mig, hvers vegna Framsfl. hefði ekki viljað leggja til menn til þess að framkvæma þessi lög. Hv. þm. veit það ákaflega vel, að í þeim stjórnarsamningi, sem leiddi til myndunar þessarar stjórnar, var Framsfl. ekki boðin nein þátttaka. (BBen: Það er rangt.) Það er rétt, það veit ég vel. Með þessu er ég ekki að segja, að Framsfl. hefði gengið að slíku, t.d. stjórnarsamningnum, sem fyrir liggur, en honum var ekki boðið upp á það. Ef hv. þm. á við það, að það fóru fram viðræður 4 flokka lengi, þá er það allt annað mál, því að þá lá ekki fyrir sá stjórnarsamningur, sem að lokum var gengið að. Auk þess veit hv. þm. Barð. það ákaflega vel, að Framsfl. samþ. það að mynda stjórn með Sjálfstfl. einum. Það getur vel verið, að eftir að blöð stjórnarinnar hafa logið daglega um þetta mál síðan í nóvember, að þessir menn séu farnir að trúa því, sem í þessum blöðum stendur. En það er jafnósatt fyrir því.

Ég ætla ekki að fara í neinn mannjöfnuð, en ég skal taka það fram út af því, sem hv. þm. Barð. vék að hæstv. landbrh., að það væri maður, sem nyti mikils trausts, þá get ég vel tekið undir það, að það er maður, sem nýtur hjá mörgum mikils trausts, og ég get játað, að ég að ýmsu leyti treysti honum. En það er nú bara einu sinni svo, að hver dregur dám af sínum sessunaut, og það hefur ekki mikið að segja í 6 manna ríkisstjórn um einn ráðh. Þess vegna sný ég ekki aftur með neitt af því, sem ég hef sagt. Það mun hafa verið búizt við því, án þess að búnaðarþingið sé á nokkurn hátt pólitísk samkoma, að framkvæmd þessa máls yrði ekki að mestu leyti í höndum Sósfl., þegar til kæmi, að búnaðarþingsmönnum hafi verið lofað einhverju í þessu efni. Málið lá þannig fyrir, að búizt var við öðru en því, sem ofan á varð, ekki aðeins innan Alþ., heldur af þjóðinni í heild. Og ég hygg, að búnaðarþingsmenn hafi tekið þessa ákvörðun alveg vitandi vits, því að það hefur venjulega verið svo, enn sem komið er, að bændur í landinu hafa ekki fyrir stundarhagsmuni eða jafnvel ímyndaðan stundarhagnað viljað leiða þjóð sína í glötun. Ef út í það öngþveiti hefði verið stefnt í haust, að kjötkílóið hefði farið upp í 18 eða 19 kr. og mjólkin í samræmi við það, þurfti sannarlega engin pólitísk áhrif á þessa menn til þess að vilja afstýra þessu, þó að þeir ættu fyllsta rétt á þessu verði fyrir sína vöru.