11.01.1945
Efri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (4634)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég skrifaði hjá mér nokkur atriði við fyrri hluta umr. úr þeim ræðum, sem höfðu sitthvað fundið til foráttu frv. og brtt. fjhn. Nokkru af því hefur þegar verið svarað af hv. 1. þm. Reykv., og hef ég þess vegna minna til málanna að leggja.

Mér skildist á hv. þm. Barð., að hann teldi, að fjhn. hefði mjög hvikað frá þeim grundvelli fyrir starfi sínu, sem lagður hefði verið með því samkomulagi, sem gert var við myndun núverandi ríkisstj., og fór hann um það hörðum orðum. Ég hygg, að þessi ummæli hv. þm. hafi verið byggð á misskilningi. Mér skildist hann halda því fram, að það, sem átt hefði verið við í því samkomulagi um stjórnarmyndun með því að ganga til móts við óskir BSRB, hefði verið að taka t.d. tillit til þess, sem kallað er í grg. fyrir frv. á þskj. 306, bls. 27, „Viðbót fulltrúa BSRB“. En þetta er misskilningur, sem hv. þm. hlýtur að vera ljóst, ef hann les „viðbótina“, sem þar er um að ræða. Hún er í tveimur liðum. Fyrst telja þeir vafasamt, að heimilt sé að lækka laun heilla starfsmannahópa. En um það er ekki að ræða, svo að nokkru nemi. En í öðru lagi, og því lagði hv. þm. meira upp úr, stendur í grg., eins og það er orðað hér, með leyfi hæstv. forseta: „Meðan unnið var að endurskoðun launakaflans, var eigi vitað, hverjar undirtektir ríkisstj. mundu verða um endurskoðun hins almenna kafla launal., sem vér lögðum áherzlu á, að lokið yrði jafnframt.“ Þetta eru orð fulltrúa BSRB. — Hv. þm. Barð. veit vel, að aldrei hefur komið til orða, að á þessu þingi yrði lokið við að setja þessi l., þannig að í þessu efni er ekki unnt að ganga til móts við óskir þessara manna, enda hafa þessir tveir menn, sem undir þetta hafa ritað, ekki ritað undir það í umboði BSRB. heldur sem nm. í n.. sem undirbjó málið. Það, sem við var átt með því að koma til móts við óskir bandalagsins, það voru ákveðin tilfelli, sem fjhn. Ed. var kunnugt um. áður en stjórnarsamkomulagið var gert. og vísað er til í nál. á þskj. 691 á 1. bls., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Með stærstu brtt., þar sem nokkrir starfshópar, svo sem póstafgreiðslumenn, talsímakonur, tollverðir og ríkislögregluþjónar, eru færðir í hærri launaflokk. er gengið til móts við óskir frá stjórn BSRB...“ Þetta eru þau atriði, sem vitað var um og rætt um einmitt í sambandi við stjórnarsamninginn. Og það voru þessi atriði, sem loforð voru um að ganga til móts við óskir stjórnar BSRB. Það er því á fullkomnum misskilningi byggt, að hér sé um nokkrar brigðir að ræða, — þvert á móti. ef ekki hefði verið gengið til móts við óskir stjórnar BSRB í þessum atriðum, sem hér greinir, þá hefðu það verið brigðir á loforðum, sem gefin voru. Ég skal játa það, að það hefði verið mjög æskilegt. að samtímis því, að l. um þetta hefðu verið sett, hefði einnig verið unnt að afgreiða löggjöf um réttindi og skyldur starfsmanna hins opinbera og jafnvel um embættisskipun og embættiskerfi landsins í heild sinni. En það liggur í augum uppi, að á þeim tíma; sem Alþ. hefur yfir að ráða að þessu sinni, er þess ekki kostur, því að það krefur lengri undirbúnings.

Þá er spurningin sú, hvort réttmætt sé að setja þessi lagaákvæði um launagreiðslur út af fyrir sig, án þess að hitt fylgi með. Fyrst er það að athuga í því sambandi, að því er lofað í stjórnarsamningnum, þannig að það yrðu brigðir á loforði, ef því væri riftað. En almennar ástæður, sem til þess liggja, að að þessu var hallazt, hygg ég, að séu svo veigamiklar, að þær séu fullnægjandi, sem sé, í hvílíku ófremdarástandi þessi mál eru nú. Yfirleitt er svo mikill glundroði og ósamræmi í þessum efnum, að ómögulegt er við að una og ómögulegt að ráða þar bót á, nema launagreiðslurnar í heild sinni séu teknar til endurskoðunar á sama tíma og þeim er breytt til samræmingar, því að annars kæmi fram nýtt ósamræmi við hverja breyt., sem gerð væri. Þess má líka minnast, að embættismenn hafa, eftir að kaupgjald fór svo hækkandi í landinu sem orðið hefur á seinni árum, jafnan orðið á eftir um kauphækkanir miðað við aðra, sem laun hafa tekið. Það er því eðlilegt, að óskir þeirra mótist nokkuð af því, að þeir telja sig hafa orðið nokkuð á eftir í þessu efni. Hversu hróplegt ástandið er orðið í þessum efnum, verður ljósast, þegar athugað er, hvernig þessum málum er hagað nú. Flestir þessara manna hafa fengið uppbætur á laun sín, 25 –30 % af launum sínum. En þessar uppbætur eru ekki fastar bundnar en það, að þær eru veittar flestar með heimild í fjárl. Nú er ekki heimild í fjárl. til þess að greiða þetta í ár (1945). Hún var í fjárl. fyrir árið 1944, en er ekki í þessa árs fjárl. Og t.d. hafa allir kennarar sérstaka launauppbót upp að 2000 kr. Sama gildir um sýslumenn og lækna. Um þessar uppbætur er sama óvissan. Ég hygg, að það þurfi að reikna laun sumra embættismanna út í 14 liðum til þess að fá rétta niðurstöðu. Ákvæði um suma þessa liði eru fallin úr gildi, t.d. ómagastyrkirnir, sem hafa verið greiddir að þessu, en falla niður, ef ekki verða sett sérstök ákvæði um þá.

Mér finnst þetta ástand svo óviðunandi, að það sé með öllu óverjandi að skjóta lengur á frest að setja um þetta l. Þetta er meginástæðan til þess, að ég hef frá fyrstu byrjun verið ráðinn í að fylgja þessu frv. og koma því í gegn í meginatriðum á þeim grundvelli, sem lagður er til með tili. mþn. Þó neita ég því engan veginn, að það eru ýmsir ágallar á frv., og að sjálfsögðu má alltaf deila um, hvað séu rétt laun hjá hverjum einstökum manni. Það er álitamál, hvernig á að meta þetta starf eða hitt til launagreiðslu, einum sýnist þetta og öðrum hitt, og það er því ekki von, að hægt sé að samræma það fullkomlega. Ég veit vel, að það má mjög deila um ýmsar þær till., sem n. hefur borið fram, eins og um ýmsar till., sem í sjálfu frv. felast, og verður þá að sjálfsögðu að láta atkvæðafjöldann skera úr um, hvað ofan á verður í því efni.

Mér komu mjög undarlega fyrir eyru ummæli hv. þm. Barð., vegna þess að mér skildist, að þrátt fyrir þann samning, sem hann játaði, að gerður hefði verið um þetta, þá hefði hann hálfgert í hótunum um að snúast gegn málinu og greiða atkv. á móti frv., ef sú brtt., sem hann flytti, næði ekki samþykki. Ég vil ekki trúa því, að þetta hafi verið rétt skilið hjá mér, og beiðist afsökunar með ánægju, ef þetta hefur verið misskilningur, en mér fannst mega skilja þetta af orðum hans og vildi gjarnan fá leiðréttingu, ef þetta hefur verið misskilningur hjá mér.

Hv. þm. sagði, að ekki yrði, þótt þetta frv. yrði samþ., komið í veg fyrir, að fastir starfsmenn gætu haft aukatekjur í sambandi við störf sín. En hafi hann lesið nál., þá mun hann taka eftir því, að þar er fram tekið á bls. 3: „Nefndin hefur enn til athugunar launakjör lækna og sýslumanna, einkum í sambandi við ákvæði um aukatekjur embættanna, og mun væntanlega leggja fram till. við 3. umr.“ (GJ: Þær till. eru ekki til.) En einmitt þessir menn, læknar og sýslumenn, eru þeir, sem sérstök ástæða er til að athuga í þessu sambandi og þá um leið 46. gr., sem um þetta fjallar, en hún er orðuð þannig, að ætla verður, að aukatekjur fyrir störf, sem tilheyra eða eru í sambandi við embættið sjálft, skuli ekki látnar starfsmönnum í té.

Hv. þm. Barð. talaði um hækkanirnar. Það er einnig að finna í nál., að svo miklu leyti sem þær hafa verið reiknaðar út af þeim mönnum. Ég hef því miður ekki unnið að þeim útreikningum sjálfur, en þar sé ég, að hækkanirnar eru heldur innan við hálfa millj. kr., ef miðað er við lágmarkslaun og vísitölu 270. Gleggri upplýsingar get ég ekki gefið upp.

Þá fann hv. þm. það einnig að frv., þótt hann annars teldi frv. það helzt til foráttu, hve allt miðaði að því að auka kostnað ríkissjóðs, að gert væri ráð fyrir að halda að nokkru því fyrirkomulagi, sem nú er, að láta sveitarfélögin greiða hluta af kostnaðinum. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að hann hafi orðað það svo, að þetta hafi í hans augum vegið svo þungt, að það hafi ráðið einna mestu um, að hann ætlaði ekki að fylgja frv., nema þá þessu yrði breytt. Þetta er misskilningur hjá hv. þm., að hér sé þyngt á sveitarfélögunum frá því, sem nú er. Ég sé hér í nál. á bls. 2, að framlag sveitarfélaganna til kennaralauna hefur verið tæpar 900 þús. kr., en samkv. till. n. er gert ráð fyrir, að það verði 620 þús. kr. eða lækki um þriðjung frá því, sem áður var. Það er því minni baggi lagður á sveitarfélögin í sambandi við greiðslur kennaralauna eftir till. n. en samkv. gildandi lögum.

Hv. þm. Barð. og einnig hv. þm. Dal. halda því fram, að yrði þetta frv. samþ. með till. n., mundi skapað stórkostlegt misræmi milli launakjara verkamanna og bænda annars vegar og meginþorra starfsmannaliðs hins opinbera. Ég skal já~ta, að það er dálítið örðugt að gera þennan samanburð, því að krónutalan ein upplýsir það ekki að fullu. Eitt atriði er rétt að benda á í þessu sambandi, að þeirri reglu hefur verið fylgt í frv., eins og verið hefur í launagreiðslum opinberra starfsmanna, að launa eins, hvar sem er á landinu, hvort sem það er í Reykjavík eða öðrum kaupstöðum eða uppi í sveit. Af því leiðir í raun og veru, að launakjörin hljóta að miðast við það, sem þarf til þess að geta lifað í Reykjavík, en það er vitað, að það er kostnaðarsamara á ýmsan hátt en á flestum öðrum stöðum á landinu. Nægir í því sambandi að nefna húsaleiguna eina saman. Af þessu leiðir, að gera má í raun og veru ráð fyrir, að af þeim ástæðum þyrfti launaupphæðin að vera heldur hærri hér en meðaltekjur manna úti um allt land.

Hv. þm. vék að því, að það væri stórgalli á frv. að fella burtu 36. gr., og bæði hann og hv. 6. þm. Reykv. og einnig hv. minni hl. n. eru sérstaklega andvígir þessari till. Ég skal játa, að þeir hafa ákaflega mikið til síns máls í því, sem þeir færa fram máli sínu til stuðnings. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að einn megintilgangur þessarar lagasetningar og undirbúnings hennar var einmitt sá að ná til sem flestra opinberra starfsmanna og koma á samræmi innbyrðis þar á milli til þess að forðast kapphlaup milli þessara stofnana og að hver beri sig saman við annan á eftir, og ég álít, að það skipti ekki neinu verulegu máli, þó að þessi till. n. verði felld. En ég vil bara benda á, að verði það gert, er sjálfsagt að athuga þessa gr. betur en gert hefur verið fyrir 3. umr. Hins vegar álít ég sjálfsagt, ef einhver þessara stofnana er felld undir l., að láta þær allar fylgjast að. Það stendur alveg eins á um þær allar, þær hafa sérstakan fjárhag, aðgreindan frá fjárhag ríkissjóðs, og útkoma þeirra, tap eða gróði, fjársöfnun eða fjárskortur, hefur engin bein áhrif á rekstrarreikning ríkissjóðs. Hins vegar lágu fyrir, eins og þegar hefur verið skýrt frá, mjög eindregin tilmæli frá mörgum þessara stofnana og starfsmönnum þeirra um að vera ekki settir inn í l., og n. lét undan þessu, og af þeim ástæðum er þessi till. flutt.

Þá er sú till. hv. þm. Barð., sem hann lagði mest upp úr og mér skildist, að hann vildi láta varða fylgi sitt við frv., hvort næði fram að ganga. Ég get ekki greitt þessari till. atkv., en þó að hv. 6. þm. Reykv. sé að því leyti á sömu skoðun og ég, þá er það ekki byggt á sömu forsendum og andmæli hans voru. Ég þori að sjálfsögðu ekki að fullyrða neitt um það, hvað fært sé að gera að l. í þessum efnum, hvort unnt sé eða rétt að breyta launaákvæðunum með þessum l. á þann hátt, að þau taki til þeirra manna, sem fengið hafa skipun í starf sitt með sérstökum launakjörum. þegar þeir tóku við starfinu. Mér finnst sjálfum, án þess að leggja nokkurn dóm á, ýmislegt benda til þess, að í rauninni mætti líta svo á, að launin væru samningur milli hins opinbera og þess embættismanns, sem hefur búið sig undir starfið og tekið við því með þeim kjörum. Það er naumast hægt að gera ráð fyrir, að með lagasetningu sé hægt að skylda menn til að una við lækkun á þessum launum. Þó vil ég ekkert um þetta fullyrða, því að til þess skortir mig lagaþekkingu, en mér finnst rétt, að þetta sjónarmið komi fram. (GJ: Þetta er meginatriðið.) Og ég minnist þess ekki, þegar launum hefur verið breytt, að minnsta kosti hjá einum einstaklingi eða fáum, að þá hafi það verið framkvæmt þannig, að menn hafi verið skyldaðir til að taka lægri laun. Ég man nokkur dæmi þess, að þótt breyt. hafi verið gerðar til lækkunar, þá hefur þeim embættismönnum, sem sátu í embættunum, verið gefinn kostur á að velja á milli, hvort þeir vildu búa við eldri kjörin eða sætta sig við þau nýju, en þrátt fyrir það lít ég svo á, að engu fremur sé ástæða til að samþ. till. hv. þm. Barð. en þær brtt. aðrar, sem miða til hækkunar og breyt. á l. Ég sé enga frekari ástæðu til þess nú en áður.

Hv. 1. þm. Eyf. eða minni hl. fjhn. flytur brtt., sem að efni til má segja, að miði mest að því að lækka launastigann almennt, og telur hann, að sparnaður sá, sem vinnist með þessu, muni nema um 2 millj. kr. Ég þori ekki að vefengja, að þetta sé rétt, þó að ég hafi ekki búizt við, að það væri svo há upphæð. Um þetta í sjálfu sér ætti að vera óþarft að fjölyrða, og það þegar af þeirri ástæðu, að samningar eru um, að meginatriði frv. nái fram að ganga með þeirri viðbót, sem ég hef áður á drepið. En yfirleitt verð ég að segja, að ég álít, að frv. mundi ekki batna, þó að þessi till. næði fram að ganga, vegna þess að launakjörin í heild sinni í frv. eru þau, að ekki er unnt að gera ráð fyrir, að ríkið eigi þess kost að fá góða starfsmenn við sitt hæfi með því að greiða lægri laun en þarna er gert ráð fyrir. Ég og hv. þm. Barð. höfum gert samanburð um launakjör verkamanna og bænda og annarra slíkra, en það þarf einnig að gera samanburð við laun annarra manna hjá einkafyrirtækjum, við skrifstofustörf og annað slíkt, því að það er mikið af þeim störfum, sem hér er um að ræða. Ég held, að launastiginn hér sé ekki hærri, — frekar á hinn bóginn, — en almennt tíðkast að greiða fyrir þessi störf. Ef kjörin hjá ríkissjóði eru lakari en hjá einkafyrirtækjum, þá hlýtur að leiða af sjálfu sér, að það yrði keppt duglega um að fá störf hjá öðrum og þá minna úr að velja fyrir ríkið, en allir geta verið sammála um, að slíkt væri slæmt.

Ein stétt manna er hækkuð alveg sérstaklega, og það eru barnakennararnir. Þeir eru hækkaðir langtum meira en nokkur önnur stétt eða starfshópur, ef miðað er við fyrri laun. Ég skal játa, að þessi hækkun er mjög mikil, og hún er meiri en ég hafði gert mér grein fyrir samkvæmt grg., sem fylgdi frv., þegar það var lagt fram. En á það er að líta, að þarna stendur alveg sérstaklega á. Í fyrsta lagi hefur barnakennarastéttin líklega verið lakast launuð af öllum opinberum starfsmönnum allt fram til þessa, en nú standa fyrir dyrum umfangsmiklar breyt. á skólakerfi landsins, og jafnframt því eru gerðar auknar kröfur til menntunar kennara. Ein meginástæðan til, að ég fylgi þessari hækkun, er sú, að ég treysti því, að þeir, þegar þar að kemur, verði fúsari .til að taka á sig það erfiði og skyldur, sem sú endurbót hefur í för með sér. Það er sennilega vonlaust verk að fá samkomulag um laun fyrir einstök störf, þar eð mat manna hlýtur ætíð að vera misjafnt, enda er það ekki aðalatriði, heldur hitt, að frv. nái fram að ganga í höfuðatriðum.