28.02.1945
Neðri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (4975)

257. mál, veltuskattur

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Ég hef nú hlustað á ræður þeirra þm., sem hér voru að tala, og mér finnst ræður þeirra lofa mjög góðu fyrir framtíðina, þegar þeir komast aftur til valda í þessu landi. (SigfS: Það verður aldrei.) Það væri afar mikil bót, ef þeir meina það, sem þeir segja, og ætla að hverfa nú frá villu síns vegar. Mikið hneykslar þá a.m.k. það tolla- og skattafargan, sem nú er að þeirra sögn að sliga þjóðina. En ég minnist þess, að fyrsta verk Framsfl. 1927, þegar hann komst til valda, var að hækka alla tolla í landinu. Ég ætla, að það hafi verið á þingi 1928. Og þá voru veltiár. Og með tilliti til þess, sem hv. 2. þm. S.-M. sagði um ástandið í landinu nú, vil ég segja það, að óhætt er um það, að ástand og horfur eru engan veginn sambærilegar nú við það, sem þá var. Framsfl. var þá við stjórn, og þrátt fyrir þessi veltiár var barizt svo fyrir hækkun tolla, sem hið marghrjáða íhald hafði unnið að að lækka, að ekki einungis var farið upp í það, sem þeir höfðu hæstir verið áður, heldur var farið upp fyrir það. Nú, og svo liðu tímar, og menn minnast þess, að ekki var látið sitja við tollana eina, heldur var tekið allföstum tökum á beinu sköttunum og þeir hækkaðir ár frá ári, svo lengi sem Framsfl. entist aldur til. Það er ekki undarlegt, þótt þessir menn finni, hver skaðræðisstefna hefur nú verið upp tekin af ríkisstj. og þeim flokkum, sem styðja hana. Ég hef hlustað á þessi ræðuhöld framsóknarmanna, en mér hafa sýnzt heldur þunnskipaðir bekkir hér í d. Það er eins og öðrum hafi þótt minna til um þessi fyrirheit heldur en ég hef lýst af minni hálfu, og má vera, að þeir hafi meira fyrir sér. Það er sennilega ekki mjög mikið upp úr þessum fyrirheitum að leggja, efndirnar kynnu að verða aðrar en ég hef viljað vera láta.

Nú hafa þessir hv. þm. keppzt um að telja frv., sem hér liggur fyrir, tollafrv. og segja, að verið sé að skattleggja lífsnauðsynjar og þar fram eftir götunum. Þeir eru óneitanlega í vanda staddir að finna frv. nokkuð til foráttu, þegar þeir grípa til þess að segja, að þetta sé skattur á lífsnauðsynjar fólksins. Það stendur einmitt í 7. gr. frv., að til veituskatts þessa megi á engan hátt taka tillit við verðákvörðun. Ganga þessir hv. þm. út frá því, að þetta ákvæði verði virt að vettugi og skatturinn komi fram í verðlagi vörunnar? Í sambandi við það vil ég minna hv. þm. á, að við 2. umr. málsins kom fram till. um að leggja skattinn á veltu ársins 1944, sem er liðið. Með því móti hefði verið fyrir það girt, að skatturinn kæmi fram í vöruverðinu. En allir þessir hv. þm. greiddu samt atkv. á móti þessari till. Það lítur því þannig út sem þeir hafi viljað láta skattinn koma niður á vöruverðinu. Nei, þessi skattur er ekki tollur. Það er misskilningur. Eins og ég greindi frá hér í framsöguræðu minni, ef svo mætti nefna þau fáu orð, sem ég flutti hér við 2. umr. málsins. þá er hér ekki um neinn tekjuskatt eða toll að ræða. Þetta er hreinn eignarskattur, sem fullkomlega er látinn í ljós. Og hann er lagður á þá stétt manna, sem talið er, að haft hafi einna bezta aðstöðu til að græða fé á ófriðarárunum. Það er mikils um vert, eins og vitað er, að þegar skattur er lagður á heilar stéttir, komi hann sem jafnast niður. En ég veit ekki, hvernig á að ná því marki, að slíkt hljóti ekki að koma fyrir, að saklaus líði fyrir sekan. Og það er augljóst, að það, sem framsóknarmenn bera fyrir brjósti er, að skatturinn hlýtur að lenda á samvinnuverzlunarfél. En þegar það er athugað, að þeir, sem hafa rekið samvinnuverzlanir í landinu, hafa nákvæmlega sömu aðstöðu og aðrir, sem við viðskipti fást, til að græða fé, þá er ekkert réttlæti í því, að þeir menn sleppi undan skattinum. Þetta sýnir aðeins, að viðleitni er höfð til þess að láta skattinn ganga jafnt yfir alla. sem aðstöðu hafa haft til gróðamöguleika á þessu sviði.

Ég skal svo ekki þreyta menn á því að fara fleiri orðum um þetta efni. En viðkomandi brtt., sem komið hafa fram, vil ég lýsa yfir því, að þar sem þær till. eru mjög svipaðs efnis og till., sem fram komu innan fjhn., en meiri hl. n. lagði á móti, liggur í hlutarins eðli, að meiri hl. n. leggi á móti þeim till.