13.09.1944
Neðri deild: 49. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (5021)

90. mál, vegarstæði að Ögra

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. — Um alllangt skeið var það þannig, eftir að almennt voru hafnar vegaframkvæmdir í flestum héruðum landsins, að engir vegir voru lagðir við Ísafjarðardjúp milli þeirra byggða, sem eru í þessu héraði, né um byggðina sjálfa. Ekki var heldur hafizt handa um að skapa akvegasamband við þennan landshluta í heild. Sjórinn var sú þjóðbraut, sem leiðir flestra lágu um. Nú, eftir að vegagerðir eru orðnar jafnvíðtækar og raun er á orðin, þjóðvegakerfið orðið jafnfullkomið og jafnmörg byggðarlög komin í akvegasamband við heildaravegakerfi landsins, getur ekki hjá því farið, að einnig þessi byggðarlög við Ísafjarðardjúp taki að æskja þess, að frekari samgöngubætur verði hafnar á landi innan þessa héraðs. Að vísu er það svo, að samgöngur á sjó hafa um alllangt skeið verið þar sæmilegar. Engu að síður eru þær samgöngur algerlega ófullnægjandi til lengdar fyrir héraðið. Þess vegna er nú vaknaður áhugi á því, að tekið verði að leggja akvegi um þessar byggðir, sem till. fer fram á, að vegarstæði verði rannsakað í, þ. e. um þrjá hreppa, Nauteyrarhrepp, Reykjarfjarðarhrepp og Ögurhrepp.

Þessi vegur, sem farið er fram á að ákveða að Ögri, mundi liggja um beztu landbúnaðarsveitir héraðsins. Nú er það þannig, að enda þótt Djúpbáturinn fari áætlunarferðir sínar um Djúpið og meðal annars til staða í þessum hreppum, geta ekki nærri því allir bæir hagnýtt sér ferðir hans til mjólkurflutninga vegna þess, hve strjálar þær eru. Enn fremur á Djúpbáturinn mjög erfitt um vik að þræða hina löngu firði og smala þannig í hverri ferð nokkrum mjólkurbrúsum frá hverjum bæ. Ef akvegur liggur um þessar byggðir, t. d. Mjóafjörð, sem er einn lengsti fjörðurinn, væri möguleiki að flytja afurðir bænda landleiðis á færri staði og taka þar með mjög stóra og dýra króka af flóabátnum. Ég hygg og, að auk þess almenna sjónarmiðs, að bæta beri samgöngur yfirleitt í héraðinu, komi hér til greina einnig nauðsyn fólksins í sjávarþorpunum fyrir mjólk og aðrar afurðir bænda.

Ég tel svo ekki þörf að fara fleiri orðum um þessa till. Leyfi mér að óska þess, að þessari einu umr. verði frestað og samgmn. gefinn kostur á að fjalla um till.