14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (5098)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Með þáltill. þessari á þskj. 326 var fram á það farið, að Alþ. fæli ríkisstj. að gera skipulagsbreytingar á stjórn íslenzkrar landhelgisgæzlu. Jafnframt var þess beiðzt, að athugað yrði, á hvern hátt yrði samræmt bezt björgunarstarfsemi og eftirlitsstarf við strendur landsins. Fjvn. fékk þessa till. til meðferðar og hefur nú á þskj. 460 lagt fram álit í þessu máli, sem er allýtarlegt. Hún hafði ásamt þessari till. ýmis skjöl úr ráðuneytunum, og þá einkum ýmis bréf Skipaútgerðar ríkisins til ríkisstjórnarinnar, sem send hafa verið um nokkurra ára skeið, eins og segir í nál. Þessi bréf fjalla um landhelgisgæzlu og strandferðir, eyðingu tundurdufla o.s.frv. Enn fremur hefur n. fengið til hliðsjónar skýrslu þeirra aðila, sem samkv. þál. frá 1. apríl 1935 voru af þáverandi atvmrh. skipaðir til að athuga og koma fram með till. um landhelgisgæzlu, björgunarmál o.fl. Skýrslan er dags. 4. september 1935. Þá lágu enn fremur fyrir bréf Skipaútgerðar ríkisins 9. nóvember 1934 til sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn, um útbúnað vélbáta til strandgæzlu, ásamt ýmsum öðrum bréfum öll varðandi þetta mál. Það var, sem sagt, talsvert af skjölum, sem kom til álita og athugunar í sambandi við þetta mál. En þetta lét n. sér ekki nægja, en sneri sér til þeirra aðila, sem hér segir: Dómsmálaráðherra, Farmanna- og fiskimannasambandsins, stjórnar Fiskifélags Íslands og Skipaútgerðar ríkisins með fyrirspurnum um, hvað þessir aðilar segðu um þá till., sem hér er um að ræða. Svörin voru ekki á einn veg. Að því er snertir fyrra hluta till., útgerðarstjórn varðskipanna, þá eru dómsmrh., Fiskifélagið og Skipaútgerðin mótfallin því, að sú breyt. verði á þessu gerð, sem till. fer fram á. Farmanna- og fiskimannasambandið sendi hins vegar sem svar við málaleitan nefndarinnar samþykkt sjöunda sambandsþings F.F.S.Í., sem að vísu er ekki beint svar við fyrirspurn n., en í henni felast þó skoðanir þessarar stofnunar á þessu atriði, hver skuli hafa með höndum stjórn varðskipanna. Þar kemur fram sú skoðun, að stjórn þessara mála eigi að vera í höndum Slysavarnafélags Íslands, enda leggur sjöunda sambandsþing F.F.S.Í. mjög mikla áherzlu á það, að varðskipin geti framvegis samhliða strandgæzlunni sinnt björgunar- og eftirlitsstörfum betur en hingað til hefur átt sér stað.

Eftir að hafa athugað þessi skjöl og málavexti, að því er snertir rekstur varðskipanna eins og hann er nú, komst n. að þeirri niðurstöðu, að ekki væri tímabært að taka þessi skip undan Skipaútgerðinni og koma á fót sérstakri útgerðarstofnun, sem hefði með höndum stjórn allra eftirlits- og björgunarskipa ríkisins, burt séð frá því, hvað kostnaðinn sjálfan snertir. Hér kom til greina praktiskt atriði. Það er alkunna, að sökum skorts á strandferðaskipum hafa verið mikil brögð að því, að notuð hafa verið strandgæzluskip til fólksflutninga og jafnvel vöruflutninga við strendur landsins, og má segja, að sum þeirra sinni tæplega orðið öðru að öllum jafnaði. Meðan svo er ástatt, verður það fyrirkomulag hagkvæmast, að þessi skip séu rekin af Skipaútgerð ríkisins, sem hefur að öðru leyti farþega- og vöruflutninga á hendi, en varðskipin verði ekki sett undir nýja stjórn, óháða Skipaútgerðinni. Með þessu er þó engan veginn sagt, að n. líti svo á, að þetta eigi alltaf svona að vera. Ég get bætt því við frá mínu brjósti, að þegar tímar líða fram og nægar ástæður verða til að skerpa landhelgiseftirlitið, tel ég engan veginn fráleitt, að einhver breyting verði hér á gerð. En eins og stendur, taldi n. öll, að þessi breyting væri ekki hagkvæm og að ekki bæri að koma henni í kring meðan svona væri ástatt. Hins vegar vill n. fallast á þann lið, sem ræðir um björgunar- og eftirlitsstarfið við strendur landsins, og hefur tekið það, ásamt ályktun sinni viðvíkjandi athugunum á sjálfri landhelgisgæzlunni fyrir framtíðina, upp í brtt. þá, sem hún leyfir sér að flytja á þskj. 460. Þar leggur n. til, að tillgr. sé breytt þannig, að ríkisstjórninni sé falið að láta fara fram ýtarlega rannsókn á því, hvernig landhelgisgæzlunni verði bezt og haganlegast fyrir komið. Í því efni verði athugað sérstaklega, með hvaða gerð og stærð varðskipa náist beztur árangur af gæzlunni með kleifum kostnaði, og verði í því tilliti aflað vitneskju um nýja gerð skipa erlendis, er að haldi mætti koma, og útbúnað þeirra. Einnig verði það atriði gaumgæfilega rannsakað, að hve miklu leyti nota megi flugvélar til aðstoðar við gæzluna.

Komið hefur fram í n., að síðan stríðið hófst, hafa borið fyrir augu okkar landsmanna ýmsar gerðir skipa, sem hugsanlegt væri, að styðjast mætti við eða nota til strandgæzlu hér framvegis. Svo hljóta allir að sjá, hvað miklu t.d. ein eftirlitsflugvél gæti afkastað hvað sjálft eftirlitið snertir, sem starfaði t.d. með góðu strandgæzluskipi eða í sambandi við það.

Allt þetta álítur n. rétt, að verði nú tekið til athugunar, með það fyrir augum að snúa bökum saman í þessum efnum, þegar stríðinu linnir, og gæta betur fiskimiðanna en gert hefur verið. Bæði er, að í stríðinu sjálfu hefur ágangur erlendra fiskiskipa verið með minnsta móti, og eins hitt, að orðið hefur að grípa til skipa til annarra þarfa. En þetta breytist sennilega fljótt eftir ófriðinn. Þá rýmkast um skipakostinn hjá landsmönnum og þeir fá þá betri skip til strandferða. — Eins verður mikil breyting á fiskimiðunum. Þangað hrúgast útlend fiskiskip, eins og þau gerðu fyrir stríð, og þá er um að gera, að Íslendingar verði við því búnir að verja sína landhelgi eftir beztu getu. Þetta kom ljóst fram hjá nefndinni, og með það fyrir augum flytur hún sínar brtt.

Þótt n., eins og áður segir, geti ekki fallizt á að koma nýrri útgerðarstofnun á fót fyrir varðskipin, eins og nú horfir við, þykir henni rétt að taka undir með flm. till., að því er athugun á framtíðarfyrirkomulagi björgunar- og eftirlitsstarfsins snertir. Í því sambandi má benda á, að allmikill skoðanamunur mun vera ríkjandi um það, með hvers konar skipum framkvæma eigi landhelgisgæzluna. F.F.S.Í. telur gæzlu á hinum smærri varðbátum vera til álitshnekkis fyrir landið og að hún nái ekki tilgangi sínum. F.F.S.Í. leggur til, að smíðuð verði fjögur stór varðskip, og er þeim ætlað að sinna landhelgisgæzlunni ásamt björgunarstörfum o.s.frv. Hins vegar varð niðurstaða þeirra, sem gerðu till. um þessi mál 1935, sú, að fjórir til fimm vélbátar og eitt skip á stærð við Ægi gæti á hagkvæmastan hátt séð fyrir landhelgisgæzlunni, og gera þeir þá jafnframt ráð fyrir, að þessi skip eigi að starfa að björgunarmálum og hafa samvinnu við Slysavarnafélag Íslands. Sömu skoðun var haldið fram 1920, þegar gamli Þór var keyptur til Vestmannaeyja til þess að starfa þar að björgun, að eftirlit með landhelginni færi vel saman við það að aðstoða fiskibátana á miðunum. Þessi kenning stendur óhögguð enn, og henni hefur aukizt fylgi með hverju ári. Þess vegna verður að hafa í huga, þegar skipulögð er landhelgisgæzlan og það, sem henni óhjákvæmilega fylgir, björgunar- og eftirlitsstarfsemi á fiskimiðum eftir stríð, að þau geti, eins og unnt er, fullnægt þessum tveimur verkefnum. Það verður aldrei með tölum talið, a.m.k. ekki með vissu, hve mikið gagn þessi gömlu skip, gamli Þór, sá Þór, sem nú er, Ægir, Sæbjörg, Óðinn og þessi skip, sem landið hefur haft, hafa unnið þessari þjóð.

Ég hygg þá, að ég hafi lýst áliti fjvn. á þessu máli og því, hvernig málið horfir við frá hennar hendi. Vil ég svo láta þess getið að síðustu, að allir nm. leggja mjög mikla áherzlu á, að þessar brtt. verði samþ. og að hæstv. ríkisstj. geri sem skjótast ráðstafanir til að koma í framkvæmd þeim athugunum á þessu máli og skipulagningu þeirra í framtíðinni, sem felst í till. fjvn.