02.10.1944
Sameinað þing: 49. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (5163)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Ég verð að segja það, að það er gott, að þessi þáltill. er komin fram, ef hún gæti orðið til þess, að máli því, sem hún fjallar um, yrði komið inn á fastari braut og vikizt yrði með meiri hraða að framkvæmdum í málinu heldur en hefur átt sér stað að undanförnu.

Það vill nú svo til, að ein sú fyrsta till., sem ég sem ráðh. bar fram til fjvn. á þessu þingi, var fjárhæð til viðbótar við geðveikrahælið á Kleppi. Mér var mjög kunnugt um það, að þess var brýn þörf. En ég verð að segja það, að hv. fjvn. skellti við því skolleyrunum. Það mál var dautt á þeirri stundu. Ég sá mér ekki fært að fara aftur á flot við fjvn. um þetta sama fyrir núgildandi fjárl., af því að þar komu önnur atvik til, sem orkuðu á mig þannig, að það væri ekki vert að knýja þar á bæ, og það var ástæða sú, að einmitt á árinu 1943 hafði það komið á daginn um geðveikrahælið á Kleppi, að það var ekki hægt að reka það til fullnustu eins og það var, vegna fólksleysis. Því þótti ekki ástæða til að knýja þar á aftur um að gera viðbót við hælið, heldur að reyna að leita á annan skjá, ef unnt væri. Hins vegar var heilbrigðisstjórninni það mjög vel ljóst, að hér væri brýn nauðsyn bráðra aðgerða. Og það er ekkert mál, sem hefur haft annað eins erfiði í för með sér fyrir ráðherra, fyrir geðveikralækninn á Kleppi og fyrir landlækni heldur en þessi mál. Við höfum verið næstum vaktir upp á nóttunni út af vandræðum, sem orðið hafa í þessum efnum.

Það, sem þá var valið til úrbóta, var, að á sumrinu 1943 tókst landlækni að liðka svo til við spítalann í Stykkishólmi, sem er katólskur spítali, að sá spítali tæki við 10 rólegum geðveikisjúklingum. Og það var beint skilyrði, að þessir sjúklingar væru rólegir og þeir væru búnir að ganga í gegnum veruna á Kleppi og geðveikralæknirinn gæti gefið meiri eða minni ábyrgð fyrir því, að þessir sjúklingar, sem þarna kæmu, gerðu sem minnstan usla eða ama. Þetta var á árinu 1943. En um sumarið 1943 varð það að ráði, eftir að þinginu hafði verið slitið, að ráðast í það, ef unnt væri, að búa til bráðabirgðaskýli á þremur stöðum fyrir um það bil 40 sjúklinga á hverjum stað; þessir staðir voru Vífilsstaðir, Kleppur og Landsspítalinn. Eftir að þessi ráð voru ráðin, kom það á daginn, að miklir erfiðleikar voru á því að koma þessu í framkvæmd. Og enn kom það fyrir, að kunnáttumenn í þessum fræðum töldu það ekki eins heillavænlegt og skyldi að ætla sér að reisa aðeins bráðabirgðaskýli í þessum tilgangi. Frá því var þess vegna horfið. Svo kemur málið fyrir hv. fjvn. undir meðferð hennar á fjárl. Og þá ræður hv. fjvn. það af að gefa þessa víðtæku heimild, sem hv. flm. hefur drepið á og gerð er grein fyrir í fyrstu línum grg. þessarar till.

Enn var það svo, að ekki varð bætt úr brýnni nauðsyn með því að bæta við geðveikrahælið á Kleppi. Þess vegna þótti það ekki ráðlegt, af því að það væri of seint í vöfum. Þá kom hitt til álita að búa til bráðabirgðaskýli eða leigja til bráðabirgða. Það var ekki heldur nógu fljótt, svo að enn var leitað á sömu slóðir og áður, til Stykkishólms, og þá fengust 10 rúm þar fyrir sams konar sjúklinga, þannig að með þessu mátti létta á Kleppi. En ekki vil ég segja, að í stað þessara sjúklinga hafi mátt taka 20 órólega sjúklinga þangað, því að þeir þurfa meira rúm heldur en rólegir sjúklingar.

En stjórnin ætlaði nú ekki að láta sér þetta nægja, og miklar ráðagerðir og bollaleggingar fóru á milli bæði mín og landlæknis og geðveikralæknis á Kleppi um það, hvað gera skyldi til bráðabirgða. Þá er orðið það áliðið, að það var seint í ágúst, er geðveikralæknirinn kemur til mín og lýsir fyrir mér hugmynd, — og ég var dálítið hrifinn af því, að hann skyldi koma og hreyfa því við mig, að hér væri brýn þörf bráðra aðgerða. Og hugmyndin var nokkuð ný; hún var í þá átt, að það væru ekki búin til bráðabirgðahæli, hvorki á Kleppi né við annan spítala, heldur, eins og hv. flm. gat um, að það væru tekin á leigu eða tekið við sjúkrahúsum eða sjúkrahúsi, sem herinn hefði yfirgefið. Hugsunin var sú að ná í sjúkrahús hér, helzt inni í bænum, — síður utan við bæinn —, af þeim einum ástæðum, að það mundi þá verða gerlegt að ná í starfsfólk. En það er, þótt aumt sé frá að segja, einn höfuðvandræðaliðurinn í þessu máli, að starfsfólk hefur verið ófáanlegt. Ungar konur nútímans vilja ekki gefa sig í annað eins erfiði og það að stunda geðveikt fólk og brjálað. Fólk getur veifað léttari hala og fengið munn sinn og maga fullan nú fyrir léttari störf. — En þess vegna hafði geðveikralæknirinn hugsað sér, ef hægt væri að hafa slíkt hæli inni í bænum, að þá mundi mega fá hjúkrunarkonur, sem væru giftar hér í bænum og ekki stunduðu fast starf, til þess að hjúkra á þessu hæli. Þær mundu geta séð af einhverjum tíma utan heimilisanna sinna og tekið að sér þetta starf. Læknirinn gerði sér hugmynd um það, að það ættu að vera fjórskiptar vaktir, þannig að hver kona eða hver maður, — því að hér var líka að tala um karlmenn —, gæti starfað 6 tíma á sólarhring.

Ég lét það nú uppi við lækninn strax, að ég teldi hann nú vera vongóðan, ef hann héldi, að það væri hægt að fá konur til slíks starfs 6 tíma á dag utan heimilis síns, og ég teldi líklegra, að maður yrði að reikna með fjórum tímum, þannig að það yrðu sexskiptar vaktir á sólarhring.

Ég bað lækninn að setja þetta niður skriflega og beina því til landlæknis og mín, og það gerði hann. Hef ég að vísu afrit af bréfi þessu hér í höndum. Ég skal ekki lesa það upp, en tek aðeins fram niðurstöðutölu þá, að hér er gert ráð fyrir, að með þessu móti verði rekstrarkostnaður fyrir hvern sjúkling um 100 kr. á dag. — Í sambandi við þetta vil ég leiðrétta það, sem segir í grg. till., að geðveikralæknirinn hafi fyrir alllöngu gert till. til ríkisstj. Því að þetta „fyrir alllöngu“ var 31. ágúst. Þetta mál áttum við síðan tal um landlæknir og ég, og við höfðum ekki trú á því fullkomlega, að þetta væri svo auðvelt í framkvæmd eins og áætlað er hér í bréfi geðveikralæknisins, enda þótt ekkert tillit væri tekið til rekstrarkostnaðarins. En rekstrarkostnaðurinn er sá, að geðveikralæknirinn hugsar sér 16 manna deildir og hver kosti 516 þús. kr. á ári. Ef ætti að fullnægja að hálfu leyti eða rúmlega það þeirri eftirspurn, sem búast má við, yrði þetta rúmar 2 millj. kr. á ári í rekstrarkostnað.

Af því að þessar till. komu mér ekki fyrir sjónir fyrr en þetta seint, taldi ég, að ekki væri unnt að gera beina ályktun um, hvað gera ætti, þar sem þ. var þá í þann veginn að koma saman, en þó var það, að þegar eftir að geðveikralæknirinn hafði nefnt þetta við mig, átti ég tal við landlækni, og hann lét í ljós þá hugmynd, að í herbúðahverfi við Hafravatn væru tiltölulega góðar byggingar, þannig að álitamál væri, hvort ekki ætti að reyna að dubba upp á þær og skapa þar varanleg skilyrði fyrir rekstur af þessu tagi, líka handa fávitum. Það er mikið vandræðamál, að við búum að fávitum verr en skyldi.

Við fórum með húsameistara upp að Hafravatni og báðum hann að gera áætlun um gagngerðar viðgerðir á húsunum, en því miður verð ég að játa, að við höfum ekki enn fengið þá áætlun, nema hvað landlæknir kann ef til vill að hafa fengið hana.

Ég vil taka undir það með flm., að mál þetta þolir enga bið, og úr því að það er komið hér fram, teldi ég réttast, að því væri vísað til heilbr.- og félmn. og hún athugaði það í samvinnu við fjvn. Ég tel það sjálfgefið mál, að heilbr.- og félmn. kveðji landlækni og geðveikralækninn til ráða um það, hvernig úr málinu ætti helzt að leysa.

Ég mun ekki tala frekar um þetta mál, en vil leggja áherzlu á það, að ef till. yrði til þess að hrinda málinu á öruggan grundvöll, þá er hún rétt.