15.12.1944
Sameinað þing: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í D-deild Alþingistíðinda. (5248)

188. mál, brú á Jökulsá á Fjöllum

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Fjvn. hefur athugað till. þessa og sent hana til vegamálastjóra til umsagnar. N. hefur borizt umsögn vegamálastjóra, sem hún hefur látið prenta sem fskj. á þskj. 668. Eins og bréf vegamálastjóra ber með sér, þá telur hann mikla þörf fyrir, að brú á Jökulsá á Fjöllum hjá Grímsstöðum verði byggð hið fyrsta, en bendir á, að verða muni ýmsir erfiðleikar á því að koma verkinu í framkvæmd nú á næsta ári, þar sem örðugt muni verða að fá efni og vinnukraft.

En viðvíkjandi fjárhagshlið málsins er það að segja, að samkvæmt l. um brúasjóð er gert ráð fyrir, að þessi brú verði byggð fyrst allra brúa fyrir fé brúasjóðs, svo að af þeirri ástæðu þyrfti ekki að tefjast bygging þessarar brúar. Nú er fé brúasjóðs talið verða um næstu áramót kringum eina milljón króna, og er það svipuð upphæð og gert er ráð fyrir, að Jökulsárbrúin muni kosta.

Fjvn. vill mæla með þessari till. á svipaðan hátt og gert er í bréfi vegamálastjóra, að ríkisstj. sé falið að láta gera þessa brú á næsta ári, ef tök eru á að koma því verki í framkvæmd. N. leit hins vegar svo á, að rétt væri að gera smábreyt. á till. N. vill láta það koma fram í till., að því aðeins sé stj. falið að láta leysa þetta verk af hendi, að henni reynist kleift að fá viðunanlegt efni til þessa verks svo og annað, sem til þess þarf, svo sem æfða smiði og annan vinnukraft. Þá vill n. einnig, að það komi skýrt fram í till., að þessi brú skuli vera á Jökulsá hjá Grímsstöðum, en í till. kemur það ekki greinilega fram, þó að það muni hafa verið ætlun flm., að brúin yrði þar eins og brúarl. ákveða. Þetta kom einnig fram í bréfi vegamálastjóra, og þótti nefndinni rétt að taka einnig af öll tvímæli um þetta atriði.

Ég vil segja það, að að mínum dómi er alveg sérstaklega nauðsynlegt, að þessi brú verði byggð. Það hefur mjög mikið að segja fyrir samgöngumál Austurlands. Það er vitað mál, að ef brúin kæmi, mundi bílvegurinn milli Norður- og Austurlands styttast um 90 km., og má því segja, að bílasamgöngur við Austurland gerbreytist við komu þessarar brúar. Auk þess má benda á, að brúin á Jökulsá í Axarfirði er gömul hengibrú og talin mjög veik fyrir þá miklu umferð, sem um hana er. Einnig af þessum ástæðum er mikil nauðsyn, að hafizt sé handa sem fyrst um að gera þessa brú.

Ég fagna því, að fjvn. vill, að till.samþ., og ég hef orðið var við það hjá hæstv. samgmrh., að hann mun gera það, sem í hans valdi stendur, til að þessu verki verði hrundið í framkvæmd. Ég hef rætt um þetta mál við hann nokkru áður en þáltill. kom fram, og ég flutti hér við afgr. fjárl. á síðasta ári till. um að veita nokkurt fé til þessarar brúargerðar. Að vísu náði hún ekki fram að ganga þá, en ýmsir þeir, sem þá drógu úr, að lagt væri í smíði þessarar brúar að svo stöddu, skildu þó, að mikil nauðsyn var á, að þessi brú væri byggð svo fljótt sem nokkur kostur væri. Ég vil því eindregið mæla með, að till. verði samþ. í því formi, sem fjvn. leggur til.