14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (5482)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég skal, eftir því sem tök eru á, verða við tilmælum hv. þm. Ísaf. og segja það, sem ég man um gang málsins, þó að ég hafi ekki þau gögn í hendi, sem geri mér kleift að gefa ýtarlegt svar.

Þegar í byrjun þessa stríðs fór að bera á skorti á hampi. Sá hampur, sem notaður er til veiðarfæragerðar, er þrenns konar: 1) ítalskur hampur, sem ekki hefur verið fáanlegur, síðan Ítalía fór í stríðið, 2) Manila-hampur, og 3) Sísalhampur. Strax og Filippseyjar voru herteknar, hvarf Manila-hampurinn af markaðnum. En hann er sterkari en Sísalhampur, sem er næstur þeim ítalska. Englendingar notuðu hann til að blanda með Sísal, svo hann yrði styrkari. Þegar komið var þannig, að Manilahampur var ófáanlegur, þá varð samkomulag milli Bandaríkjanna og Englands um, að Englendingar skyldu skaffa okkur vissan skammt til fiskveiða. Þetta magn, sem úthlutað var fyrir ári síðan, var 8–10 þús. tonn. Þetta gekk sæmilega árið sem leið, af því að nokkrar birgðir voru til í landinu, sérstaklega af köðlum. Nú hefur tvennt orðið til að gera ástandið ískyggilegt. Bretar þóttust neyddir til að minnka skammtinn í 6000 tonn, og birgðir hafa smágengið til þurrðar. Ráðuneytinu var ljóst, hver alvara var á ferðum. Það hefur gert það, sem unnt hefur verið, til að ráða bót á ástandinu. En allt, sem reynt hefur verið, hefur komið fyrir ekki. Engin aukning hefur fengizt á úthlutun á tilbúnum veiðarfærum né efni, og þegar það er enn minnkað, þá er séð, að hér stefnir til vandræða.

Þetta mál hefur því verið tekið upp stjórnmálaleiðina. Ríkisstjórnin hefur tekið það upp við stjórn Bandaríkjanna og Ísland farið fram á, að það fengi vöruna, en svar er ókomið. Það hefur verið ýtt á eftir, svo sem unnt er, af okkar hálfu, því að okkur er ljóst, að það horfir til vandræða, ef ekki er við gert.

Ég vil einnig geta þess, að þetta mál verður tekið upp af þeim, sem hér eru nú komnir til að semja um kaup og sölu íslenzkra afurða. Það segir sig sjálft, að það er óþarfi að semja um sölu á fiski, ef ekki er hægt að veiða hann.