14.02.1944
Neðri deild: 12. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (5495)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Út af því, sem hv. 2. þm. S.–M. sagði um miðlun á þessari vöru, vil ég taka það fram, að ekki hefur borið á skorti á henni fyrr en nú fyrir skömmu. Þá fyrst var ljóst, að það mundi leiða til öngþveitis. Hygg ég, að ekki sé miklu að miðla hvað snertir veiðarfæri, sem liggja í verzlunum. Ég hygg, að mestar birgðirnar séu hjá útgerðinni sjálfri. Veiðarfæragerðin á engar birgðir, hún vinnur úr því efni, sem hún fær, eftir hendinni og lætur vörurnar frá sér jafnóðum.

Það ætti að vera ljóst samkvæmt því, sem hv. þm. Borgf. sagði um veiðarfæratöp bátanna undanfarna daga, að slíkt getur breytt afstöðunni mikið. Eftir slík óhöpp getur orðið um skort að ræða, þótt ekki væri hann áður.

Það hefur komið fram í umr., að ýmsir útgerðarmenn hafi máske reynt að birgja sig að veiðarfærum til vertíðarinnar, og má vera, að sumir hafi gert það.

Út af ummælum hv. þm. Ísaf. um samningamenn þá, sem hingað eru komnir, vil ég taka það fram, að þeir eru búnir að vera hér aðeins nokkra daga. Er því ekki að vænta úrlausnar um samninga eftir svo stuttan tíma. Þó vil ég geta þess, að fyrsta daginn, sem þeir voru hér, var þetta mál tekið upp við þá. Vænti ég þess, að ekki líði margir dagar, þar til ljóst er, hvaða tillögur þeir hafa í huga að gera fyrir hönd stjórnar sinnar.