04.01.1945
Sameinað þing: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (5545)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Hv. síðasta ræðumanni þykir einkennilegt það svar, sem ég sagði, að Landssamband útgerðarmanna mundi gefa við því tilboði, sem hér er um að ræða. Hann virðist hafa einkennilega hugmynd um þetta samband. Við höfum samtök, sem heitir Landssamband útgerðarmanna og nær um allt land, og hins vegar eru til samtök útgerðarmanna á ýmsum stöðum, eins og t.d. í Keflavík og víðar, sem ráða ekki yfir nema mjög litlu fiskmagni, og ég veit, að málið hefur verið til rækilegrar athugunar hjá landssambandinu og útgerðarmannafélögum.

Ég skil ekki annað en að það sé einhver misskilningur, að landssambandið sé að tryggja þeim, sem eiga fiskflutningaskipin, sem mestan ágóða. Það eru ekki nema örfáir menn, sem eiga þessi skip, og hvernig ætti sambandið að tryggja þeim hagsmuni á móti hagsmunum sinna eigin manna? En út af því, sem hv. síðasti ræðumaður og hv. þm. Str. voru að fullyrða, að þessi skip hafi haft mikinn gróða af fiskflutningunum, mætti spyrja: Hvers vegna koma þessi skip ekki inn á hin svæðin til að fá þar keyptan fisk til útflutnings, ef það gefur svo mikinn gróða? Þetta eru falsrök, sem hér eru færð fram. Sannleikurinn er sá, að útflutningslínubátar hafa á s.l. ári barizt í bökkum, og skýrasta sönnunin fyrir því er sú, að eigendurnir hafa farið úr þessum flutningum hver af öðrum og ráðið skipin í strandflutninga hjá Ríkisskip, hvenær sem tækifæri gafst. T.d. má nefna Rifsnesið, sem er 150 smálesta skip og ágætlega fallið til slíkra flutninga. Það er leigt Skipaútgerð ríkisins allt árið, vegna þess að það var ekki talið borga sig að taka fisk til útflutnings. Það er leiðinlegt, þegar menn eru að bera slíkar fjarstæður fram. Ég veit, að ég hef leigt ákveðnum útgerðarmanni fiskiskip, sem gat borið 150 tonn, og þó að það væri leigt með 60 þúsund króna tapi, þá þénuðu þeir samt ekki nema 20 þús. á sínum útflutningi. Ég vil aðeins upplýsa þetta, af því að ég þekki þessi mál nokkuð.