10.01.1945
Neðri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (5553)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég hefði talið viðeigandi, að atvmrh. hefði svarað þessu, að svo miklu leyti sem hægt er á þessu stigi. En þar sem hann er ekki við, vil ég segja nokkur orð.

Það er rétt, að ríkisstj. hefur talið sig hafa heimild í þessum l. til að gera það, sem gert hefur verið hingað til. Hafa þau l. áður verið notuð til mikilvægra ráðstafana, m.a. meðan hv. 2. þm. S.–M. átti sæti í stj. Þessi l. voru sett sem bráðabirgðal. haustið 1939, ef ég man rétt. Að öðru leyti er það að segja, að ég get ekki gefið ýtarleg svör við fyrirspurnum hv. þm. Það er ekki heldur tími, vegna annarra anna þdm. í dag, að ræða þetta mál almennt, enda fáir þm. viðstaddir, svo að slíkt næði ekki tilgangi sínum að því leyti, að ríkisstj. gæti hvorki komið skýrslu um áform sín rétta boðleið til nægilega margra, né heldur gæti komið fram sú gagnrýni, sem kynni að þykja réttmæt í þeim efnum.

Ég veit ekki, að hve miklu leyti muni þurfa að grípa til nýrrar löggjafar um þessi efni. Það kemur betur í ljós, þegar einhver reynsla fæst á þessar framkvæmdir. Ríkisstj. mun leita til Alþ. um nýjar heimildir, ef þurfa þykir. En í sjálfu sér er hér ekkert launungarmál á ferðinni, og eru réttmætar ástæður fyrir því að vilja vita, hvað fyrir ríkisstj. vakir.

Það er talsverður vandi á höndum um að koma nýrri skipun á, þegar allt í einu fellur niður það, sem gilt hefur undanfarin ár. Það er næstum broslegt, þegar allt Alþ., ríkisstj. og ég held Íslendingar almennt hafa borið eindregið þá ósk upp, að Bretar héldu samningum óbreyttum frá 1944, en samningar falla niður af því að Bretar neita að framlengja þá, þá skuli það virðast vera eitt hið mesta vandamál að deila réttlátlega þeim ágóða, sem af því hlýzt, að Bretar vilja ekki framlengja samningana. Þetta er dálítið mótsagnakennt, en þó ekki undarlegt, þegar skyggnzt er í rætur málsins, a.m.k. hvað varðar sölu á nýjum fiski. Eins og kunnugt er, óskuðu Bretar að kaupa nýjan fisk á skip sín með verði, sem samið var um, á þeim stöðum á landinu, sem bezt lágu við slíkum útflutningi. Þegar þeir svo hættu að kaupa og markaðsverð á fiski á Bretlandi var óbreytt, skapaðist þarna gróðavegur. Ég er ekki í neinum vafa um, að þeir, sem eiga flutningaskip, hefðu óskað að mega búa einir að þessum kaupum. Hins vegar er það öllum kunnugt, að smáútvegurinn hefur staðið höllum fæti. Þess vegna er það eðlileg viðleitni hjá stjórninni að reyna að tryggja það, að þetta nýja viðhorf gæti orðið smáútveginum til framdráttar, án þess þó að beita þvingunarráðstöfunum gegn þeim mönnum, sem eiga flutningaskipin. Í heildardráttunum hefur það vakað fyrir ríkisstj. að hafa í þessum efnum svo mikið frelsi sem auðið er, en jafnframt að miða ráðstafanir ríkisstj. við það að tryggja smáútveginn eftir því, sem kostur reynist á. Nú má deila um það, hverjar leiðir liggi að þessu marki. En okkur hefur sýnzt, að nokkuð rannsökuðu máli, að það, sem mestu varðaði, væri tvennt. Annars vegar að koma á stað frystihúsunum, sem þó er ótryggt enn þá. Hins vegar að gera ráðstafanir til að tryggja smáútveginum, eftir því sem auðið þykir, arð af útflutningi á nýjum fiski, án þess að ganga í þeim efnum svo langt, að hætta þætti á, að skipaeigendur falli af þeim ástæðum frá viðleitni til að flytja út fisk. Og í bili verður að hníga að því ráði, eins og kunnugt er, að hækka söluverð á fiski til flutningaskipanna um 15%. Síðan er það hlutverk ætlað fiskimálan. að aðstoða útveginn við að fá skip leigð. Jafnframt skal Landssamband íslenzkra útvegsmanna segja til um í hverju tilfelli, hvar hvert skip taki fisk. Er vænzt, að sá aðili standi vel að vígi að gera þetta réttlátlega sem umboðsmaður fyrir eigendur minni fiskibáta og flutningaskip. Og það eru þeir aðilar, sem koma til greina. Það hefur ekki verið rætt um að leggja skatt á neina aðra í þessu efni en þá, sem eiga hlut að máli, þann útveg, sem hefur framleitt, en hvorki heildsala á Íslandi né smásala, síldarverksmiðjur eða togaraveiði. En ríkisstj. hefur ekki getað gert sér fullkomlega grein fyrir, hvaða frekari ráðstafanir eigi að gera. En það er ég viss um, að þegar til framkvæmdanna kemur, rekum við okkur á marga örðugleika í því að hafa réttlæti gagnvart öllum, sem okkur eru ekki enn fyllilega ljósir. Og m.a. af þeim ástæðum þykir ekki vera tilefni til að bera fram ákveðið frv. fyrir framkvæmdaheimild, þar sem við teljum okkur standa á lagalegum grundvelli í því, sem við framkvæmum.

Ég held það stafi af misskilningi, að hv. fyrirspyrjandi spurði, hvort samið væri um flutning á fiski frá einstökum samlögum án þess að taka verðjöfnunarskatt. Við hugsum okkur verðjöfnunina í samlögunum sjálfum. Er svo álitamál, hvort eigi að nota eitthvað af verðjöfnunargjaldinu til annarra þarfa útvegsins en beinnar greiðslu fyrir nýjan fisk. En eins og sakir standa nú, tel ég ekki hægt að ræða þetta til hlítar. Okkur ber að gera okkur vonir um, að við fáum sem mest fyrir frysta fiskinn, og getum ekki gert ráð fyrir því, að mikil vanhöld verði, meðan ekki er búið að semja um hann. En það er játað af útvegsmönnum, að það sé þeirra hagsmunamál, að frystihúsin geti hafið starfsemi sína. Enda veit ég, að í mörgum verstöðvum, t.d. suður með sjó, hefur um helmingur af þeim fiski, sem í land kom, farið í frystihúsin. Mundi skapast mikið öngþveiti, ef ekki tekst því giftusamlegar um öflun skipakosts til að flytja fiskinn, — sem ég geri mér útaf fyrir sig ekki miklar vonir um, a.m.k. ekki fram yfir það, sem var í fyrra. Mundi þá horfa til mikilla vandræða, ef ekki yrði hægt að starfrækja frystihúsin. Hvernig frysti fiskurinn muni seljast, er ekki hægt á þessu stigi málsins að gera sér næga grein fyrir. Það er ekki heldur búið að gera sér fullkomlega grein fyrir innan ríkisstj., hvernig skipta skal í verðjöfnunarsvæði. Efast ég um, að heppilegt sé að hafa á því meiri hraða eri svo, að ekki sé einhver reynsla á fallin. Þó þolir það ekki mikla bið.

Hv. fyrirspyrjandi spurði, hvort frystihúsin mundu kaupa. Rétt er að svara, að það er ekki tryggt. Fulltrúar hraðfrystihúsanna munu koma saman 12. þ. m., og þá munu þau bera saman bækurnar. Það má segja, að enn sem komið er komi það ekki að sök, a.m.k. verulega, þó að þau hafi ekki hafið sína starfsemi, enda nokkuð undir því komið, hvernig tekst um sölu á hraðfrysta fiskinum, hvað rétt er að reka hart á eftir í þeim efnum. Það má segja, að eins og verð er á fiski í Englandi nú, muni vera hagkvæmara fyrir Íslendinga að flytja fiskinn nýjan, meðan skipakostur endist, heldur en að frysta hann, jafnvel þó að prýðilega tækist til um söluna. Auk þess er einnig ástæða til að gera ráð fyrir. að frystur fiskur kynni að vera óútfluttur um hávetur, þ.e.a.s. þegar fiskverðið er mest og aflabrögðin bezt, í marz og apríl, og væri einnig af þeim ástæðum illa ráðið að hafa notað upp rúmið í frystihúsunum, þegar litið berst að og kannske er ekki hægt að flytja allan aflann.

Ég hafði svarað því, að fiskimálan. væri ætlað að reyna að starfa að því, að við gætum fengið sem flest erlend skip og að hjálpa smáútveginum um framlenging á leigu eða að starfrækja þetta að einhverju leyti sjálfir. Frekari upplýsingar að öðru leyti get ég ekki gefið á þessu stigi málsins. En ég skal endurtaka, að ekki er meiningin, að hér sé nein launung á ferð. Og það er mjög eðlilegt, að fram komi fyrirspurnir um það, hvað ríkisstj. hefur í hyggju í þessum málum.