24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (5659)

258. mál, rafveitur í Árnes- og Rangárvallasýslum

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég tel ekki nauðsyn á að láta þessari þáltill. að þessu sinni fylgja mörg orð. Þetta mál er kunnugt hér. Því hefur oft verið hreyft og verið gerðar áætlanir yfir framkvæmd þessa verks. Þegar Sogið var virkjað, var gefið fyrirheit um það af hálfu þess, er þá framkvæmd lét gera, að kauptúnin austanfjalls í Árnesþingi skyldu fá rafmagn mjög fljótlega. Úr framkvæmdum á því hefur þó ekki orðið til þessa. En ég vil vona, að það þurfi ekki að dragast öllu lengur.

Það hefur verið borin hér fram vatill. við þessa þáltill. af hálfu hv. þm. Rang. Og það er fjarri mér, að ég vilji á nokkurn hátt leggja stein í götu þess máls, sem í vatill. er borið fram. Ég býst ekki heldur við, þótt sú vatill. yrði samþ., að það þyrfti á nokkurn hátt að tefja framkvæmd verksins.

Ég óska svo ekki eftir af minni hálfu að fjölyrða frekar um þáltill. að sinni. En ég vil fara fram á það við hæstv. forseta, að þessari umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv. fjvn.