12.02.1945
Sameinað þing: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (5690)

237. mál, rannsóknir á efni til bygginga og annarra verklegra framkvæmda

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Búið var að ákveða, að hv. form. fjvn. yrði frsm. í þessu máli, en hann varð að vera fjarverandi vegna jarðarfarar. Fékk ég orðsendingu frá honum um að segja nokkur orð fyrir hönd n. um þessa till. í hans stað.

Nál., sem öll n. stendur einróma að, er á þskj. 1083. Fjvn. hafði þessa þáltill. á þskj. 770 um alllangan tíma til meðferðar og taldi sjálfsagt að gera sem gagngerðasta athugun á því máli, sem hér ræðir um. Því að hér er sannarlega um mjög merkilegt mál að ræða, sem varðar alla landsmenn, þar sem farið er fram á, að fullnægjandi rannsóknir fari fram á efni, innlendu og erlendu, sem ætlað er til bygginga, vegagerða, hafnarmannvirkja og annarra slíkra verklegra framkvæmda. Því miður, — og þess sjást líka oft dæmi —, hefur það verið svo á undanförnum árum og áratugum, að lítil athugun hefur farið fram á eiginleikum þeirra byggingarefna, sem landsmenn hafa notað. Sumpart kann það að hafa verið af því, að ekki hafi aðstaða verið til þess að framkvæma rannsóknir á þessum hlutum. En sumpart hefur þetta líka verið vegna þess, að augu þjóðarinnar hafa ekki verið vel opin fyrir því, hve mikla þýðingu einmitt það atriði hefur, að efni, sem byggt er úr, hafi þá eiginleika til að bera, sem þarf til þess að gera húsin varanleg og vistleg í að búa. Þeir eiginleikar eru að vísu til á misjöfnu stigi hjá öllu byggingarefni. En vitaskuld ber að stefna að því að komast að niðurstöðum í þessum efnum, sem geri mönnum fært að fá það nothæfasta og bezta byggingarefni til að byggja úr. Er hér ekki hvað sízt nauðsyn á að athuga það innlenda efni, sem hægt er að byggja úr og nú er orðið talsvert fjölbreyttara en áður var, a. m. k. í orði kveðnu. En víst er, að mjög skortir á, að rannsóknir hafi farið fram á gildi byggingarefnis. En nauðsynlegt er, að þær rannsóknir gætu farið fram, svo að mönnum veittist hægra að greina á milli beztu byggingarefna, sem fáanleg eru, og þeirra byggingarefna, sem að vísu eru nýtileg, en ekki eins varanleg. — Fjvn. var því í heild mjög sammála þeirri hugmynd, sem fram kemur í þáltill. á þskj. 770 og er önnur í röðinni á þessu þingi, sem einn hv. þm., 6. þm. Reykv., hefur flutt um byggingamál.

Í viðtölum, sem fram fóru á milli n. og Trausta Ólafssonar efnafræðings, sem kom á fund n. sérstaklega til að ræða þetta mál, kom í ljós, sem raunar var nú vitað áður, að sá merki starfsmaður og vísindamaður hefur haft með höndum dálitlar athuganir nú þegar á þessu sviði, þ. e. a. s. athuganir á efni og eiginleikum þess, svo sem einangrunarhæfni ýmiss konar byggingarefnis, aem hér er við höndina og mest notað. En þó að hann hafi mikinn áhuga á þessum hlutum, er aðstaða hans til þessa í Atvinnudeild Háskólans mjög erfið. Því að rannsóknir í þessum efnum útheimta húsrými meira en þar er nú til þessara hluta. En vitaskuld verður að sjá fyrir nægilegu húsrými til þeirra rannsókna, sem hér eiga í þessum efnum fram að fara. Það var nú aðeins orðað í n., að kringum Háskólann væru einhverjar þær byggingar, sem reistar hafa verið til bráðabirgða, sem kannske mætti taka til rannsókna á steypuefni og slíku, þótt ekki væru nú reistar nýjar byggingar þegar í stað til þessara hluta. En hitt er jafnljóst, að þær úrlausnir, sem kynnu að fást á þessu sviði með því að nota þær, mundu ekki vera nema til bráðabirgða, og að við alhliða rannsókn á þeim efnum, sem till. fer fram á, að rannsökuð verði, kemur það mjög til greina, að byggt sé hentugt húsrými til þess að starfa að þessum rannsóknum í. Nú eru íslenzkir menn erlendis, sem eru að afla sér þekkingar, sem getur komið að haldi við þær rannsóknir, sem hér ræðir um. Komu þær upplýsingar fram í n., að einn slíkur maður er í Danmörku við nám og annar í Bandaríkjunum, sem væntanlegur er heim bráðlega.

Fjvn. vill því í heild sinni leggja til, að þessi þáltill. verði samþ. eins og hún er orðuð, en hefur það þó fyrir augum, að byggt verði á þeirri undirstöðu, sem Trausti Ólafsson hefur lagt í þessum efnum, og telur, að það muni verða betra og farsælla að efla og treysta það í þessu efni, sem búið er að forma af þeim efnafræðingi, heldur en að setja upp beinlínis nýja stofnun í þessu skyni. Það er því skoðun n., að auka beri starfskrafta og húsrými við Atvinnudeild Háskólans, til þess að fullnægja því verkefni, sem þáltill. fer fram á, að unnið verði að, en mælir að öðru leyti eindregið með því, að þáltill. verði samþ. án breyt.