04.10.1944
Sameinað þing: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

143. mál, fjárlög 1945

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég get verið stuttorður í svari, fyrst og fremst vegna þess, að umr. flokkanna hafa lítið snúizt um sjálft fjárlfrv. nema ræða hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem talaði af stillingu og hyggni um málið.

Hv. 3. landsk. (HG) sagði, að ríkisstj. hefði tekið að sér að vinna bug á dýrtíðinni, — en hvernig hefði það tekizt? — Hún hefði gefizt alveg upp. Já, það er svo. En hvað hefur hæstv. Alþ. gert sjálft? Sat það í helgum stein, meðan ríkisstj. háði sína baráttu? Hann sagði, að ríkisstj. hefði vísað vandanum til Alþ. Já, — hvílík goðgá að vísa vandanum til Alþ., það skyldi enga stjórn henda. En hitt er svo annað mál, hvort þjóðin lítur svo á, að Alþ. sé til þess að sneiða hjá því að leysa vandamálin.

Það virðist koma úr hörðustu átt, er sumir hv. þm. hlakka nú yfir því, að ríkisstj. hafi ekki tekizt að vinna bug á dýrtíðinni, eftir að hún hafði tekið við málunum, þegar dýrtíðinni hafði verið siglt í fullt óefni af fyrrv. ríkisstjórnum og eftir að Alþ. hafði staðið á móti allri viðleitni og tillögum stj. Alþ. eitt getur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, en samt koma hv. þm. og tala með miklum fjálgleik um það, að ríkisstj. hafi gefizt upp við dýrtíðina, þótt ríkisstj. verði að sækja allar heimildir til Alþ. og geti ekkert gert án þess samþykkis, sem allir vita, hvernig gengið hefur.

Ráðagerðir hv. 3. landsk. sjálfs um stöðvun dýrtíðarinnar virðist mér æði þokukenndar, og sýnist mér þær aðallega stefna að því að gera hærra boð en 2. þm. Reykv. (EOl) hefur nýlega gert um sæluríki hér á landi eftir stríðið. Hafði ég þó hugsað, að þessi hv. þm. væri of greindur og athugull til þess að halda sig fjarri staðreyndum og gefa sig á vald þeirri freistingu að sýna leikni hins æfða stjórnmálamanns frammi fyrir allri þjóðinni.

Hv. 2. landsk. (ÞG) talaði um, að ég hefði ekki gert grein fyrir framlagi til Viðreisnar- og hjálparstofnunarinnar, sem væri 181,2 millj. kr. Hvaðan hv. þm. hefur fengið þessa fjárhæð, skil ég ekki. Hún er þrefalt hærri en hin rétta tala. Annars er málflutningur þessa hv. þm. venjulega ekki talinn svara verður. Hann hefur ekki brugðið vana sínum að þessu sinni, og mun ég því halda þeirri reglu, sem skapazt hefur, og láta stóryrði hans liggja milli hluta.

Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) mun þykjast geta úr flokki talað sem fyrrv. fjmrh. Gagnrýni hans snerist aðallega um það, að frv. hefði ekki verið lagt. fram 2. sept., og kvað hann slíkt stórvítavert. Ég hef litlu við það að bæta, sem ég sagði um þetta atriði í framsöguræðu minni. En ég vil auk þess benda hv. þm. á, að þingið var sjálft búið að samþ., að það kæmi ekki saman fyrr en 15. sept. Það var stj., sem ákvað, að þingið kæmi saman 2. sept. til þess að ráða fram úr dýrtíðarmálunum fyrir 15. sept. Ef farið hefði verið eftir ákvörðun þingsins, hefði það ekki komið saman fyrr en 15. og þá ekki tekið fjárl. til athugunar fyrr en eftir þann tíma. — Annars skilst mér, að þingið hafi haft nóg að starfa undanfarinn mánuð og hafi enn.

Hv. þm. ræddi mjög hávært um fjármálaóstjórn. Þykist ég af því skilja, að hann álíti, að glerhús það, sem hann býr í sem fyrrv. fjmrh., sé æði óbrotgjarnt. Finnst mér ekki mannúðlegt að hrófla við þeirri sjálfsblekking hv. þm.

Eins og við var að búast, hafa flokkarnir notað þessar umr. til þess að kveðja stj. með viðeigandi vinsemd og sanngirni í hennar garð. Verður helzt ekki annað skilið en létt sé af þinginu miklu fargi, engu líkara en nú sé létt af hernámi, sem framfylgt hafi verið með kúgun og illindum, og nú skuli gerðir upp reikningarnir.

Stj. mun ekki taka sér nærri þau svigurmæli, sem til hennar hefur verið beint í þessum umr. Ef þær eru vissum aðilum einhver hugsvölun, þá skal sú svölun ekki eftir talin. En ég get ekki varizt að benda hv. ræðumönnum á það, að stj. hefur oft lýst yfir því, að hún mundi fara frá á þeirri stundu, sem þingið myndaði stjórn. Stj. hefur beðið í nálega tvö ár eftir að þingið myndaði ríkisstj. Nú hefur hún sagt af sér, að því er skilið verður, til mikillar gleði öllum flokkum þingsins, en enn bíður hún eftir, að þingið myndi stjórn. Hin sameiginlega; gleði yfir burtför stj. ætti að.geta samstillt hugina svo, að nú verði hægt að taka á málunum af drengskap og heilindum. Mér finnst erfitt að sætta mig við þá hugsun, að mestallt, sem hér hefur verið sagt af hendi flokkanna, sé ábyrgðarlaust hjal og Pílatusarþvottur frammi fyrir allri þjóðinni í helgustu stofnun hennar. Þeir tímar, sem nú standa yfir, virðast þó krefjast annars hugarfars, ef flokkarnir á Alþingi Íslendinga ætla sér ekki að stýra málefnum þjóðarinnar að algerðu hruni.