26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (5883)

260. mál, kaup Þórustaða í Ölvusi

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki skrifað undir þetta nál., var ekki heldur á fundi allan tímann, en var þó boðið að skrifa undir.

Ég vil því nú gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls.

Mér virðist ekkert hafa komið fram, sem sýnir, að ríkið þarfnist þessarar jarðar, enda ekki góð reynsla fyrir um jarðakaup ríkisins.

Þau rök hafa verið færð fram þessu til stuðnings, að ríkið ætti þarna land í kring, en þar hefur ekkert verið gert og því ástæðulaust að bæta við það. Og varðandi þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið á jörðinni, þá er það, sem byggt hefur verið, bæði óheppilegt og dýrt og líkur til, að þær byggingar komi að litlum notum.

Að öðru leyti vil ég segja það, að ef ríkið ætlar að fara að hlaupa í kapp við bændur um kaup á jörðum, þá held ég, að því væri nær að hjálpa bændum til að kaupa þær, og teldi ég, að ríkið ætti miklu frekar að losa sig við þær jarðir, sem það á, og væri jafnvel nær að gefa bændum þær.

Ég legg því til, að till. þessi verði felld.