28.02.1945
Sameinað þing: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (5905)

291. mál, nýbygging fiskiskipa

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Ég lít nú svo á, að þessi þáltill. sé alveg að nauðsynjalausu fram borin og þar geti varla önnur ástæða legið fyrir en sú, að hv. flm. till. hafi ekki vitað fyllilega, hvernig þessum málum væri í raun og veru komið, sem þáltill. fjallar um. En í stuttu máli er þessu máli þannig háttað, að þau l., sem hér er verið að deila um skilning á, voru um það, að Alþ. hafði veitt 5 millj. kr. til stuðnings fiskiskipabygginga. Þessar 5 millj. kr. voru fyrst og fremst veittar vegna kaupa á fiskibátunum frá Svíþjóð, sem þá stóðu yfir (EystJ: Þau voru ekki komin til greina). Það var ákveðið að verja af þessum 5 millj. kr., 4½ millj. kr. til þessara 40 báta, sem keyptir voru í Svíþjóð, og eftir eru þá 500 þús. kr, af þessari upphæð, sem hér er um að ræða. (EystJ: Það er líka hálf millj. kr. á fjárl. nú ætluð til þessara hluta). Það er ekki viðkomandi þessum l. á nokkurn hátt. Ef hv. þm. líta aðeins eftir því, geta þeir fyllilega gengið úr skugga um það; að sú fjárveiting, sem veitt hefur verið nú á fjárl., er algerlega aðgreind frá því, sem hér er um að ræða. (EystJ: Það stendur í l. sjálfum). Það er rangt, að það standi í l. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að veita lán til skipabygginga. Og hv. 2. þm. S.-M. hlýtur að segja þetta vísvitandi ranglega. — En svo er ástatt um þessar 500 þús. kr., sem ég nefndi og eftir eru af þessum 5 millj. kr., að búið er að veita af þeim rúmar 200 þús. kr. til báta, sem byggðir hafa verið hér innanlands, og fyrir liggja síðan beiðnir um upphæðir til samans nokkru hærri en það, sem eftir er í sjóðnum, til báta, sem eru svo til fullsmíðaðir. En um þær örfáu beiðnir, sem borizt hafa n. um að styrkja trillubátabyggingar, er það að segja, að það er augljóst mál, að af þessu fé, sem þarna var fyrir hendi, var ekki hægt að veita úr sjóðnum til þeirra bygginga. Hins vegar reyndi sú n., sem með framkvæmd þessa máls hafði að gera, að sínu leyti að greiða fyrir þeim mönnum, sem leituðu til hennar eftir stuðningi við trillubátabyggingar, með því að beina þeim til þess sjóðs, sem fær árlegar tekjur og getur veitt stuðning nákvæmlega á sama hátt og þessi sjóður, sem sagt til fiskveiðasjóðs. Og framkvæmdastjórn Fiskveiðasjóðs Íslands hafði tekið vel í málið, enda lánað áður í svipuðum tilfellum, þannig að góðar horfur voru á því, að þessir menn gætu fengið góða fyrirgreiðslu þar. Ég býst líka við því, að því er snertir hv. 2. þm. S.-M., sem er 1. flm. þessarar þáltill. og virðist sækja þetta af mestu kappi, að ef það hefði legið fyrir honum á svipaðan hátt og okkur, sem í þessari n. vorum, að gera upp við sig, hvort hann ætti heldur, þar sem svo takmarkað fé var fyrir hendi, að veita styrk út á tvo 30 smálesta báta, sem verið væri að smíða á Austurlandi, t. d. á Fáskrúðsfirði, eða tvo trillubáta á sama stað, þá hefði hann — og flestir menn, sem vildu vera ábyrgir í sínu starfi, — viljað veita þennan styrk á stærri bátana frekar en á þá minni. Og það var einmitt þetta, sem meiri hl. n. hafði kosið að gera. Ég er á þeirri skoðun, að það beri að nota það takmarkaða fé, sem veitt er til stuðnings fiskiskipasmíði, á þann hátt, að það komi að sem mestu gagni, og þá þannig, að smíði hinna stærri báta verði styrkt, þannig að 30 smál. bátar og þar yfir sitji að þessu leyti fyrir trillubátum. Aðeins á þeim stöðum á landinu, þar sem ekki er hægt að koma við nema opnum trillubátum, vegna hafnleysis, er réttlætanlegt að gera slíka báta út. Alls staðar annars staðar, þar sem hafnarskilyrði leyfa að gera út stærri báta, á að stefna að því, að bátarnir verði stærri og trillubátunum verði með öllu útrýmt. Og þeir menn einir, sem vilja, að útgerðin haldi áfram sem lengst í trillubátaformi, geta komið með till. eins og þessa. En aðalatriðið í málinu er það, að það hlutverk, sem n. er ætlað að inna af hendi eftir l., sem hér er um að ræða, er að mestu leyti búið að vinna, a. m. k. eins og mál standa nú. Það má hugsa sér, að n. þessari verði falið áframhaldandi verkefni, en það liggur ekki fyrir nú, svo að það er eins og að deila um keisarans skegg að tala um, að það beri að skilja þessi l. á einhvern sérstakan hátt, l., sem búið er að framkvæma eftir að fullu og öllu og eru í raun og veru komin út úr framkvæmd.

Ég álít því, að þessi þáltill. sé algerlega ófyrirsynju fram komin og hún, þótt samþ. yrði, aðstoðaði ekki neitt þá menn, sem standa í því að byggja sér trillubáta. Ef hana hefði átt að flytja, hefði henni átt að vera beint að allt öðrum l. og til allt annarra aðila en henni er nú beint að. Auk þess álít ég hættulegt að mikla það fyrir mönnum, og beinlínis að æsa menn upp í því, að koma sér upp bátum eins og opnir vélbátar eru til fiskveiða. Það er hreint neyðarúrræði, þar sem til slíks þarf að grípa að nota þá. Og því opinbera ber skylda til þess að fara eins varlega í það og hægt er að styrkja menn til þess að byggja slíkan skipastól. Og ef um það er að velja, hvort leggja á fé, sem verulega er takmarkað, í stærri báta eða svo litla, held ég, að engum manni, sem nokkuð þekkir til útgerðar, blandist hugur um, að það er sjálfsagður hlutur að láta það fé ganga til smíði stærri báta, en láta þessa litlu og ófullkomnu báta mæta afgangi.

Ég fyrir mitt leyti óska ekki eftir því, að þessi þáltill. verði látin fara til n., nema þá til þess að sofna þar. Ég sé ekki, að samþykkt hennar hafi nokkurt gildi.