02.03.1945
Sameinað þing: 99. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í D-deild Alþingistíðinda. (5952)

288. mál, starfskerfi og rekstrargjöld ríkisins

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég þarf nú ekki að fara mörgum orðum um þessa till., sökum þess að henni fylgir grg., þar sem dregnar eru fram aðalástæðurnar fyrir því, að rétt þykir að láta slíka till. koma fram nú. Auk þess eru nokkur fskj. með þessari till., sem eru þess eðlis, að þau skýra málið verulega og fela í sér breyt., sem hafa orðið á útgjöldum ríkissjóðs, og þar sem einmitt sérstaklega eru dregin fram þau beinu rekstrarútgjöld ríkisins, sem þeirri athugun, sem gert er ráð fyrir í till., er sérstaklega beint að. Enn fremur felst í till. rökstuðningur eða ábending í sambandi við þá rannsókn og þá athugun, sem hér er lagt til, að gerð verði á starfskerfi og rekstrarútgjöldum ríkisins.

Ég get strax tekið fram, að fjvn. átti fyrr á þessu þingi umr. við hæstv. fjmrh. um, að full ástæða væri til þess að taka þetta mál sérstaklega til athugunar, og var hæstv. fjmrh. n. alveg sammála um, að nauðsyn bæri til þess, og ég er þess fullviss, að hæstv. fjmrh., sem nú er ekki viðstaddur þessa umr., sökum þess að hann er lasinn og er heima hjá sér, hefur hug á því að láta fara fram athugun á þessum málum, og þess er að vænta, að sú athugun eða rannsókn leiði af sér nokkra fyrirkomulagsbreyt. í þá átt, sem bent er á í þessari till.

Eins og fskj. bera með sér, sem prentuð eru aftan við grg. till., hafa gjöld ríkisins vaxið mjög hröðum skrefum, og þá ekki sízt einmitt þau gjöld, sem leiðir af beinum rekstri ríkisins og ríkisstofnana, og þar sem allar líkur benda til, að með nokkurri breyt. á fyrirkomulagi þessa reksturs megi draga verulega úr þessum útgjöldum, án þess að reksturinn líði nokkuð við það, er vitanlega hér um að ræða svo augljóst mál, að sjálfsagt er, að því sé fullur gaumur gefinn. Þær tölur, sem koma hér fram í þessum fskj., eru líka það háar, að það má gera ráð fyrir, að fullur nauður reki til, að málið sé tekið föstum tökum og reynt að koma því yfir á nokkuð annan grundvöll en það hvílir á nú í framkvæmdinni. Þær skilgreiningar, sem eru hér á útgjöldunum í þessum fskj., hafa verið gerðar eins nákvæmar og hægt var, þótt það geti auðvitað alltaf orkað nokkurs tvímælis, hvað eigi að færa á hvern lið fyrir sig. Hins vegar eru þær þannig, að það má fullkomlega taka þær sem mælikvarða á skiptingunni á þessum útgjöldum, eins og fram kemur í þessum fskj., þó að alltaf geti verið dálítið álitamál, hvað eigi að taka með í þennan útgjaldalið eða hinn. Að því er snertir bein rekstrarútgjöld ríkisins, ætla ég, að meginatriðin séu samandregin í þeim lið, sem telja má til þess flokks.

Ég skal geta þess hér í sambandi við fskj. 4, sem er kostnaður við ýmsar n. starfandi á árinu 1943, að fjvn. fór að grennslast eftir hjá stjórnarráðinu, hver hefði verið kostnaðurinn við þessar n. á því ári. Það hefur verið allmikið talað um mikinn fjölda n., sem væru og hefðu verið starfandi hér, og virtist fjvn. því full ástæða til að fá þetta samandregið í eina heild. Að ekki var fengið yfirlit yfir þetta árið sem leið, 1944, var af því, að það var ekki hægt þá eða hefði orðið allt of tafsamt að fá sams konar yfirlit yfir kostnað við n. 1944 eins og fram kemur hér í sambandi við kostnað við þessi störf á árinu 1943. Við höfum athugað það síðan, að því er snertir b-lið (það eru þær n., sem eru á fjárl.), að nokkurs ósamræmis mun gæta í einu eða tveimur atriðum hjá þeirri stjórnardeild, sem gaf upplýsingar um þetta. Vil ég í því sambandi sérstaklega benda á, að kostnaður við starfsemi yfirfasteignamatsn. er talinn um 120 þús. kr., en í þeirri upphæð munu einnig vera talin laun þeirra manna, sem unnið hafa á vegum n. að þeim störfum, sem þar um ræðir. Aftur á móti, ef tekin er sauðfjársjúkdóman., þá eru eingöngu taldar þar þær greiðslur, sem hafa farið til nefndarmanna sjálfra, en ekki skrifstofukostnaður þeirrar n. að öðru leyti. Ég vildi taka þetta fram hér til skýringar á mismunandi tölum, sem fram koma hjá þessum n. Þetta mun ef til vill stafa af mismunandi færslum á þessum gjöldum inn í fjárl. sjálf.

Mér þykir svo ekki ástæða til að öðru leyti að fjölyrða um þessa till. Það er vikið að því í nál., að kostnaður við n. muni hafa orðið nokkru hærri á árinu 1944 en á árinu 1943, og get ég í því sambandi aðeins bent á eitt dæmi, en sé ekki ástæðu til að fara frekar út í það. Það er skipulagsn. atvinnumála. Kostnaðurinn við hana varð á árinu 1943 rúmlega 40 þús. kr., en 1. sept. á árinu 1944 var þessi kostnaður kominn upp í rúmlega 140 þús. kr. Ég veit nú ekki, hvað störf þeirrar n. hafa verið út allt árið, en kostnaðurinn hefur náttúrlega aukizt nokkuð frá því, sem var í sept. Ég vil taka þetta sem dæmi, ekki vegna þess, að það sé einsdæmi, heldur sökum þess, að allar líkur benda til, að kostnaðurinn hafi verið nokkru meiri á árinu 1944 en 1943.

Nú síðan þessi skýrsla um n. varð til, er vitað um, að stofnaðar hafa verið nokkrar n., og get ég í því sambandi nefnt n., sem starfar að nýbyggingu fiskiskipa, og eru 5 menn í henni. Enn fremur nýbyggingarráð, sem skipað hefur verið á þessu þingi, og eru það 4 menn utan starfsfólks. Sömuleiðis sölunefnd setuliðseigna, en hana skipa 5 menn, ætla ég. Svo eru 3 menn í n. til að athuga byggingu yfir þjóðminjasafnið. Einnig hefur á þessu þingi verið stofnað 5 manna manneldisráð og svo nú alveg nýlega þjóðleikhússn., sem einnig er skipuð 5 mönnum. Á þessu þingi hafa auk þess orðið nokkrar breyt. að því er snertir embætti, sem lögfest hafa verið, að ég ætla 5 við háskólann, sem eiginlega voru stofnuð áður, og var þar því eingöngu um lögfestingu að ræða. Auk þess hafa verið stofnuð við háskólann 2 dósentsembætti í heimspeki og 1 prófessorsembætti í heilbrigðisfræði. Sá maður, sem tekur við því starfi, var að vísu starfandi áður bæði á vegum háskólans og á vegum heilbrigðisstjórnarinnar. Þá hefur verið stofnað 1 dósentsembætti í guðfræði, og 1 af prófessorum háskólans hefur fengið lausn frá störfum með fullum launum, en nú síðast hefur verið tekin ákvörðun um að fjölga dómurum um 2 í hæstarétti. Ég bendi aðeins á þetta sem viðbót við þær skýrslur, sem hér liggja fyrir, að því er snertir skýringar á því, hver eru hin raunverulegu beinu útgjöld ríkisins.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti þess, að hv. Alþ. þyki ástæða til, að þetta mál verði tekið til athugunar og þær bendingar, sem felast í þessari þáltill., séu teknar til greina, þar sem fskj. benda til þess, að ekki sé ástæða til að láta lengur síga úr hömlu að freista þess, að komið verði á nokkurri skipulagsbreyt. á starfskerfi ríkisins, þar sem leitazt sé við að draga verulega úr rekstrarútgjöldum þess og þeirra stofnana, sem eru nú á vegum ríkisins. Að því er stefnt með þessari till., og eftir undirtektum hæstv. fjmrh. undir þetta mál í þeim samtölum, sem fjvn. hefur átt við hann, vænti ég þess, að hann beiti sér fyrir því, að slík rannsókn fari fram, og síðar geti orðið um það samstarf milli hæstv. ríkisstj. og hv. Alþ., að í þessu efni verði nokkuð breytt til frá því, sem er, í því augnamiði, að hægt verði að draga verulega úr þessum kostnaði, eins og komizt er að orði í grg. fyrir þessari till. og í sjálfri till. felst.