05.12.1944
Sameinað þing: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

143. mál, fjárlög 1945

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti, góðir hlustendur. — Hv. 8. þm. Reykv. (SigfS) drap lítillega á deilurnar á Alþýðusambandsþinginu. Ég ætla ekki að draga þær inn í þessar umr., en vil segja, að á Alþýðusambandsþinginu var mjótt á milli. Þar sátu 104 fulltrúar, sem fylgdu stefnu verkalýðsflokkanna af einhug. Flokkur sá, sem hv. 8. þm. Reykv. fylgir, hefur nú tekizt þann vanda á hendur að stjórna Alþýðusambandi Íslands næsta kjörtímabil, næstu 2 ár, án samvinnu við þá, sem Alþfl. fylgja. Þetta er mikill vandi, og ég vona vegna samtakanna, að þessari stj. farist það vel úr hendi. En ég vil að gefnu tilefni vara við því, að þeir, sem fara nú einir flokka með stjórn Alþýðusambandsins, taki upp nokkurt það athæfi eða fremji nokkurt það verk, sem gæti veikt Alþýðusamband Íslands það tímabil, sem þeir einir fara með stjórn þess.

Það má segja, að þessar útvarpsumr. séu ójafn leikur, þar sem við eigast þrír flokkar á móti einum, en auk þess er ríkisstj. svo nýtekin við völdum, að ekki er unnt með nokkurri sanngirni að dæma hana af verkum hennar. Afstaða stjórnarandstæðinga verður því þegar — af þeim ástæðum ákaflega veik, eins og landsmenn hljóta að hafa gert sér ljóst, sem hlustuðu á umr. í gærkvöld.

Hv. þm. Str. (HermJ) , sem talaði fyrir Framsfl., fann mjög að því, að ríkisstj. hefði hækkað gjaldahlið fjárlfrv. án þess að ákveða tekjur á móti við þessa umr. Taldi hv. þm. þessa aðferð óvenjulega, en þó hefur hún verið viðhöfð áður. En þá stóðu flokksmenn þessa hv. þm. að henni, og þá taldi hann hana ekki aðfinnsluverða. Sýnir þetta, hve þessum hv. þm. er tamt að dæma um mál. eftir því, hver hlut á að þeim.

Þá lét sá hv. þm. svo um mælt, að tekna megin á fjárlfrv. vantaði um 40 millj. kr. til þess að vega upp á móti væntanlegum útgjöldum. Það hefur áður verið á það bent af öðrum ræðumönnum, að á fjárlfrv., eins og það kemur nú frá hv. fjvn., er enginn tekjuhalli. Hins vegar er það viðurkennt, að eftir er enn að áætla nokkra útgjaldaliði og tekjur á móti þeim. En stærstu útgjaldaliðirnir, sem enn eru ekki áætlaðir, eru gjöld vegna breyttra launal. og svo uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Síðari liðurinn er talinn nema um 18 millj. kr. Það er furðulegt, að hv. þm. Str. skuli vaxa þetta svo mjög í augum, því að uppbótadraugurinn er hans eigið afkvæmi. Enginn hefur staðið fastar á því en hann, að tekjuafgangi ríkissjóðs væri ár eftir ár — og oftast utan fjárlaga — varið í milljónauppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Þá er ekki verið að spyrja um tekjuhalla. Þessi sóun á fé í uppbætur hefur beinlinis orðið til þess, að ríkissjóður hefur ekki verið þess umkominn að greiða upp allar skuldir sínar og eignast stóra sjóði að auki. Uppbótargreiðslur á útfluttar landbúnaðarafurðir nema nú samtals kr. 29.314.911.00 og er þó eftir að greiða uppbót á ull og gærur fyrir árið 1944. Bændum voru greiddar kr. 4.660 þús. í verðuppbætur á framleiðslu ársins 1940 úr svo nefndum Bretasjóði, sem annars gat verið eign ríkisins. Ef ullar- og gæruuppbætur, sem eftir er að greiða, nema 5 millj. kr., verða útflutningsuppbætur af landbúnaðarafurðum samtals fram að áramótum um 39 millj. kr. Þá eru uppbætur á útflutning þessa árs áætlaðar um 18 millj. kr., og er hér því um að ræða 57 millj., sem fara til þessara ráðstafana. Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum innan lands nema samtals kr. 21.279.763.00, þannig að alls verður uppbótasúpan um 78 millj. kr. Nú skuldar ríkissjóður um 36 millj. kr. Af þessu sjá menn, að ef ekki hefði verið fylgt tillögum hv. þm. Str. og þeirra framsóknarmanna, sem fastast stóðu fyrir uppbótagreiðslum til bænda á útfluttar landbúnaðarafurðir, mundi ríkissjóður hafa greitt að fullu skuldir sínar og eignazt þar að auki digra sjóði. Og hvað hefur svo orðið af þessu fé? Enginn ber bændum á brýn óhófseyðslu, en óneitanlega hefði fé þessu verið betur varið til stórkostlegra framfara í þágu alþjóðar við sjó og í sveit en í einkaeign.

Rætt hefur verið um það, að í fjárlfrv. því, er hér liggur fyrir, væru margir útgjaldaliðir, sem hækkaðir hefðu verið frá því, sem fyrrv. stj. hefði lagt til. Það er engin ástæða til að deila á fyrrv. stj., þar eð hún er eigi hér til andsvara, en á það má benda, að væntanleg útgjaldaaukning vegna launal. nýju, — líklega um 5 millj. kr., er ekki annað en skuld, sem fyrrv. stj. hafði lofað að inna af hendi, en aldrei greitt.

Fyrrv. fjmrh., Björn Ólafsson, lét svo um mælt í ræðu, er hann flutti við 3. umr. fjárl. fyrir árið 1943 í sameinuðu Alþ. hinn 11. febr. það ár, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórnin mun hins vegar láta undirbúa launal. með það fyrir augum, að þau geti fengið afgreiðslu á næsta haustþingi, og mun hún, ef hún situr áfram, láta leggja frv, fyrir það þing, svo að losna megi úr því öngþveiti, sem þessi mál eru í.“

Fyrrv. ríkisstj. skipaði n. í málið. Hún skilaði áliti og till. Svo kom haustþingið 1943. Ríkisstj. flutti ekki frv. um launal. þrátt fyrir gefin loforð. Svo kom þingið 1944. Enn sat sama ríkisstj. og sýndi ekki launalfrv., svo að einstakir þm. tóku það til flutnings. Sýnir þetta, að jafnvel þeir, sem sízt eru gæddir leikni hins æfða stjórnmálamanns, geta gleymt gefnum loforðum.

Það er ætlun núv. stj. að efna þetta loforð fyrrv. stj. Launalfrv. er borið fram á þessu þingi af mönnum úr öllum flokkum, þar á meðal einum framsóknarþm. í efri deild.

En þrátt fyrir það, að framsóknarmaður sé meðfl. frv., mega menn ráða, hvílík alvara liggur á bak við flutning þess hjá framsóknarmönnum, af þeirri andstöðu, sem afgreiðsla launamálsins sætir nú af hálfu flokksins, bæði beint og óbeint.

Um ýmsar hækkanir til útgjalda í fjárlfrv. má segja svipað og um launal.: þar er verið að efna gömul loforð. Á hverju Alþ. eru afgreidd svo og svo mörg lög, sem kveða á um, að ríkissjóður skuli greiða vissan hluta af framkvæmdum, sem unnar eru í landinu, til móts við bæjarfélög, hrepps- og sýslufélög. Og það er í rauninni skilyrði þess, að unnt sé að lifa menningarlífi í landinu, að staðið sé við þessi loforð. Vegna ófriðarins hafa ýmsar framkvæmdir, einkum opinberar byggingar, dregizt á langinn, og það hlýtur að vera skylda Alþ. að reyna að bæta úr því.

Í nál. fjvn. er getið um nokkrar hækkunartill., samtals um 3 millj. kr., sem ég hef farið fram á, að bætt yrði inn í frv. Ég vil gera lítils háttar grein fyrir þessum hækkunum.

Ég hef lagt til, að framlag til landhelgisgæzlu yrði hækkað úr 2 millj. kr. í 2.8 millj. kr. Hækkun þessi stafar af því, að fjárhæðin var rangt áætluð í fjárlfrv. frá hendi fyrrv. stj., og nam sú skekkja 800 þús. kr.

Þá hef ég lagt til, að til smíði varðskips verði varið 500 þús. kr. Er það augljóst mál, að eigi er seinna vænna að hef jast handa um aukna og endurbætta landhelgisgæzlu, því að nú líður óðum að því, að almennar togaraveiðar hefjist hér við land á ný, og er auðsætt, að við eigum engan veginn nægan skipastól til að gæta landhelginnar, eins og sakir standa. — En um nauðsyn þess, að gæzlan sé sem fullkomnust, þarf ég ekki að fjölyrða. Það er beinlínis lífsskilyrði fyrir allan fjöldann af þeim mönnum, sem lifa á smábátaútgerðinni. Ríkið á nú hið ágæta skip Ægi, enn fremur vélskipið Óðin og Þór gamla, sem er mjög óhentugur og dýr til gæzlu. Á næstu árum verður ríkið að eignast 4–5 góð, hraðskreið vélskip til gæzlu og björgunarstarfsemi. Þessa starfsemi þarf að sameina, og auk þess verður að taka flugvélar til notkunar til þessara starfa, eftir því sem föng eru á.

Þá hef ég lagt til, að tekin verði í fjári. upphæð til endurbóta á hegningarhúsinu í Reykjavík og vinnuhælinu á Litla-Hrauni, samtals 265 þús. kr. En ástand þessara húsa er þannig, að bæði eru mjög heilsuspillandi, enda hafði fyrrv. ríkisstj. gert nokkrar ráðstafanir til aðgerða í þessu efni, þótt eigi væri séð fyrir fjárveitingu til þeirra.

Þá hef ég einnig lagt til, að veitt yrði fé til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana og gert ráð fyrir auknu framlagi til sjúkrahúsa og læknisbústaða, samtals 1,35 millj. kr., og hækkar sá liður þá upp í 3.1 millj. kr. Er mjög mikil þörf viðbyggingar við Landsspítalann og ákveðið að hefja byggingu hinnar nýju fæðingardeildar í síðasta lagi í marzmánuði n.k. Einnig þarf að byggja hjúkrunarkvennaskóla o.fl. byggingar við Landsspítalann. Þá er alkunna, að ástandið í geðveikismálunum er þannig, að Kleppur fullnægir hvergi nærri sjúkrahúsþörfinni. Stafa svo mikil vandræði af sjúkrahúsþörfinni fyrir þessa tegund sjúklinga, að óviðunandi er. Þann skamma tíma, er ég hef setið í ríkisstj., hafa mér borizt mjög margar kvartanir um geðveikt fólk, sem vantar hælisvist, en fær hana ekki vegna þrengsla. Fjöldi heimila er í miklum vandræðum vegna þessa. Vitanlega kostar mikið fé að bæta úr því, en í það má ekki horfa, heldur verður að hefjast handa svo fljótt sem unnt er.

Enn má geta þess, að ríkisstj. ber skylda til þess, samkv. gildandi l. að greiða 1/3 kostnaðar við byggingu sjúkraskýla, læknisbústaða og sjúkrahúsa, sem reist eru víðs vegar um land. Er mikill hugur í mönnum um framkvæmdir á þessum sviðum. Og þótt upphæð fjárl. í þessu skyni sé nú hækkuð um þá fjárhæð, sem ég hef skýrt frá, þá mun ríkissjóður ekki fá innt skyldur sínar af hendi í þessum efnum varðandi þær byggingar, sem þegar eru áformaðar, á skemmri. tíma en 4–5 árum. Eftir er þó að áætla fé fyrir því, sem síðar verður ákveðið að byggja.

Áformað er að reisa sjúkrahús í Keflavík, á Patreksfirði og víðar. Er mikil nauðsyn á því og áhugi og þá ekki síður fyrir að reisa nýtt sjúkrahús á Akureyri. Er ætlazt til, að sú fjárveiting, sem nú er farið fram á, nægi sem byrjunargreiðsla til þessara fyrirhuguðu bygginga ásamt því fé, sem þegar hefur verið veitt til þessa og til nokkurra annarra staða, sem formað hafa byggingu læknisbústaða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þær till. aðrar, er ég hef gert. Þó vil ég nefna, að ég hef lagt til, að framlagið til Slysavarnafélags Íslands verði hækkað úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. og framlag til Mæðrastyrksnefndar úr 25 þús. kr. í 50 þús. kr. Ætla ég, að þessar hækkanir muni ekki þurfa sérstakra skýringa við.

Starf Slysavarnafélagsins er löngu orðið viðurkennt sem þjóðnytjastarf, og fer vel á því, að Alþ. sýni á því aukinn skilning með hækkaðri fjárveitingu, og gæti það orðið til að örva einstaka menn til þess að gera slíkt hið sama.

Hæstv. fjmrh. hefur gert allýtarlega grein fyrir fjárlagatill., og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um þessi atriði. En um fjárlfrv. í heild vil ég segja það, að þegar búið er að afla tekna, svo sem ráð hefur verið fyrir gert í samningum flokkanna um stjórnarmyndunina, og á þann hátt, sem þar er fram tekið, þá verður fjárlfrv. að skoðast sem einn liður í tilraunum núv. ríkisstjórnar til þess að gera landsmönnum fært að lifa þægilegra lífi í landinu. Í frv. er hvergi gert ráð fyrir óhófseyðslu, en hins vegar aukin mjög framlög til margs konar menningar- og þjóðþrifamála.

Þeir, sem nú eru að álasa ríkisstj. fyrir ógætilega stefnu í fjármálum, svo sem gert er í blaði fyrrv. fjmrh., virðast alveg gleyma þessu. Þeir hafa sjónarmið maurapúkans, sem liggur á fjársjóð þeim, sem hann hefur nurlað saman, heldur en láta nokkurn skerf til almenningsheilla.

Um stefnu stj. að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að vera margorður. Mun hún öllum landsmönnum kunn orðin, m.a. af þeim umr., sem hér hafa farið fram. Enginn vafi getur leikið á því, að ef stefnuskráin kemst í framkvæmd, þá miðar hún að hinum stórfelldustu framförum í atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar.

Áður en þessi stj. var mynduð, var ástandið þannig, að lýðveldi hafði verið stofnað, en ríkisstj. eigi skipuð að hætti þingræðisþjóða. Vil ég sízt lasta þá mætu menn, sem sæti áttu í fyrrv. stj., en þeir gerðu sér lítið far um að hafa samband við Alþ., og stj. þeirra hefur sýnt og sannað, að ekki er unnt að stýra landinu, svo að vel sé, án slíks sambands. Það var því lífsnauðsyn fyrir þjóðina, að mynduð yrði þingræðisstjórn. Hvernig sem um fyrirætlanir núv. ríkisstj. fer, verður þessu ekki neitað.

Menn eru að sjálfsögðu mjög misjafnlega trúaðir á árangur núv. ríkisstj. Flokkar með ólíkar skoðanir og óskyldir um margt hafa tekið saman höndum, og margt getur orðið til hindrunar slíku samstarfi, bæði það, sem vitað var um áður, og eins ókunnar ástæður, svo sem skortur á skilningi einstakra stétta á nauðsyn samstarfsins eða öflug samtök skilningslausra fjárplógsmanna, sem setja einkahagsmuni ofar hagsmunum alþjóðar. Þó tel ég enga ástæðu til annars en vona hið bezta, ef allir gera skyldu sína. Hins vegar dylst það ekki, að mjög margt getur orðið fyrirætlunum stj. til tjóns og tafar. Vér Íslendingar lifum aðallega af útflutningi. Landið er því háð alþjóðaástandi í atvinnumálum og verzlunarmálum. Við höfum til,tölulega meiri útflutningsverzlun en flestar aðrar þjóðir. Viðskiptakreppur og markaðsvandræði geta þess vegna valdið okkur meira tjóni en flestum öðrum. Hins vegar er það ætlun núv. ríkisstj. að gerá allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að draga úr hinum skaðlegu áhrifum, sem hin utanaðkomandi öfl geta haft á líf og afkomu þjóðarinnar. Hinar breyttu aðstæður vegna ófriðarins hafa valdið því, að fjarlægðirnar í heiminum hafa að miklu leyti horfið. Þeir, sem áður voru langt burtu hvorir frá öðrum, eru nú nábúar. Það er því miklu örðugra nú en áður að einangra sig.

Stjórnmálastefnur þær, sem nú eru efst á baugi, miða mjög að því að útrýma atvinnuleysi og bæta lífskjör almennings. Þetta verður hvort tveggja að fara saman. Hátt kaup, svo sem var í Bandaríkjunum fyrir stríð, er tilgangslaust, ef ekki er jafnframt séð fyrir nægri vinnu. Ríkisstj. er þetta vel ljóst, og þess vegna leggur hún áherzlu á að halda þeim lífskjörum, sem skapazt hafa, og útvega jafnframt atvinnutæki til landsins, svo að unnt verði að koma í veg fyrir atvinnuskort. Þessi stefna er nú uppi víða um heim og kemur meðal annars í ljós í yfirlýsingu Alþjóðlega vinnumálasambandsins, er samþykkt var í Fíladelfíu 10. maí 1944. Þar voru saman komnir fulltrúar frá 44 þjóðum, — tveir fulltrúar frá hverri ríkisstj., einn fulltrúi frá verkamönnum og einn frá atvinnurekendum í hverju landi um sig. Þarna var samvinna ríkisvaldsins, atvinnurekenda og verkamanna. Og yfirlýsingin má skoðast sem vottur þess, hvaða stefnur nú eru efst á baugi meðal hinna frjálsu, sameinuðu þjóða og þeirra annarra, sem þeim eru hlynntar og hafa líkar skoðanir.

Í yfirlýsingunni segir meðal annars, að vinnan sé ekki verzlunarvara, sem eigi að fylgja lögmáli um framboð og eftirspurn, að frelsi til að láta í ljós skoðanir og samtakafrelsi sé óhjákvæmilegt skilyrði öruggra framfara, að fátækt á einhverjum stað geti skapað hættu fyrir velgengni á öllum stöðum, að stríðið gegn skorti verði að heyja með óþreytandi elju hjá sérhverri þjóð með stöðugum og sameiginlegum alþjóðlegum átökum, þar sem fulltrúar verkamanna og atvinnuveitenda — sem og fulltrúar ríkisstjórna, en þeir skulu allir njóta sömu réttarstöðu, — komi saman til frjálsra umræðna og lýðræðislegra ákvarðana í því skyni að stuðla að eflingu almannaheillar. Enn fremur segir í yfirlýsingunni, að varanlegur friður fáist því aðeins, að hann sé grundvallaður á félagslegu réttlæti, að allir menn, án tillits til kynflokka, trúarjátningar eða kynferðis, eigi rétt á því að leita bæði efnalegrar velferðar sinnar og andlegs þroska í frjálsum og sómasamlegum lífskjörum, fjárhagslegu öryggi og jafnrétti til að fá að njóta þeirra hæfileika, sem hver og einn hefur til að bera, að sköpun þeirra skilyrða, sem gera þetta mögulegt, skuli vera höfuðmarkmið innan lands- og alþjóðastjórnmála. Þá segir einnig í yfirlýsingunni, að vinnumálasambandið vilji stuðla að því meðal þjóða heimsins, að stefnt sé að því að skapa næga atvinnu og bætt lífskjör og að viðurkenndur sé í verkinu réttur manna til sameiginlegra samningsumleitana, samvinnu vinnustjórnenda og verkalýðs til áframhaldandi umbóta á framleiðsluafköstum og samvinnu verkamanna og vinnuveitenda í því að undirbúa og beita félagslegum og hagfræðilegum ráðstöfunum, enn fremur efling félagslegra öryggisráðstafana í því skyni að tryggja grundvallartekjur öllum, sem eru verndarþurfi í því efni, svo og allsherjar sjúkraumsjá, — fullnægjandi vernd á lífi og heilsu verkamanna í öllum atvinnugreinum, — barnavernd og mæðrahjálp, — trygging góðs viðurværis, húsnæðis og möguleika til hvíldar og menntunar, — og að tryggja mönnum jafnrétti til að njóta menntunar- og atvinnumöguleika.

Roosevelt forseti Bandaríkjanna ávarpaði fulltrúa Alþjóðlegu vinnumálastofnunarinnar í Hvíta hesinu hinn 17. maí s.l. og sagði m.a. um yfirlýsingu þá, er ég hef hér getið:

„Þér hafið haldið þing í Fíladelfíu, þar sem feður þessa lýðveldis staðfestu fyrir 168 árum, að augljós væru meðal annars þau sannindi, að öllum mönnum væri af skaparanum gefin ákveðin, ómissandi réttindi, svo sem líf, frelsi og leit að hamingjunni. Í þessum orðum felst markmið allra þjóða, sem gæddar eru hugsjónum frelsis og lýðræðis.

Yfirlýsing sú, sem þér hafið gefið í Fíladelfíu, á vafalaust eftir að verða álíka mikilvæg. Ég trúi því einlæglega, að óbornar aldir muni líta um öxl á þennan atburð og telja, að hann marki tímamót í sögu mannsandans.“

Alþ. samþ. sennilega næstu daga till. ríkisstj. um þátttöku í Alþjóðlega vinnumálasambandinu, sem verða mun sterkur þáttur í samstarfi þjóðanna, sem verið er að undirbúa fyrir stríðslokin. ,

Er þetta að líkum, því að fyrirætlanir ríkisstj. eru í fullu samræmi við þá yfirlýsingu Alþjóðlega vinnumálasambandsins, sem ég hef skýrt hér frá.

Við verðum að gera okkur það ljóst, að við erum ekki lengur einangraðir. Við erum í þjóðbraut, og frelsi og menning okkar getur verið undir því komin, að þær fyrirætlanir að standa jafnfætis öðrum bæði um lífskjör og félagslega menningu takist svo sem til er ætlazt.