25.10.1944
Sameinað þing: 62. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í D-deild Alþingistíðinda. (5964)

176. mál, vantraust á núverandi ríkisstjórn

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég mun ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram á milli þeirra hv. þm. S.-Þ. og hæstv. forsrh. Ég stóð aðeins upp til þess að lýsa yfir því fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna, sem nú skal greina:

Þegar núv. ríkisstj. tók við, kom greinilega fram, hverjir hv. þm. styðja ríkisstj. og hverjir eru í andstöðu við hana. Forsrh. lýsti því þá yfir, að 32 þm. úr þremur þingflokkum styddu ríkisstj. 5 þm. úr Sjálfstfl. gáfu yfirlýsingu um, að þeir styddu ekki stj. Af hálfu Framsfl. var því þá yfir lýst, að flokkurinn væri í fullri andstöðu við ríkisstj. Síðan ríkisstj. tók við völdum eru liðnir örfáir dagar, og ekkert hefur það gerzt, sem gefur minnsta tilefni til að telja, að afstaða alþm. til stj. hafi breytzt enn sem komið er. En ef gera mætti ráð fyrir því, mundi Framsfl. hafa beitt sér fyrir flutningi vantrauststillögu.

Framsfl. telur því till. þessa óþarfa og tilgangslausa, enda er hún flutt án vitundar flokksins eða samráðs við hann.

Afstaða Framsfl. til ríkisstj. er að öllu hin sama og yfirlýst var fyrir nokkrum dögum, þegar hún tók við völdum, en af framangreindum ástæðum mun flokkurinn láta afskiptalausa afgreiðslu þessarar till. og ekki taka þátt í atkvgr. um hana.