24.11.1944
Sameinað þing: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í D-deild Alþingistíðinda. (5992)

157. mál, öryggi umferðar yfir Ölfusárbrúna

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Þegar þessi till. kom fram, mun vegamálastjórnin hafa verið búin að skipa þrjá verkfræðinga, þá Benedikt Gröndal, Árna Pálsson og Árna Snævarr, til þess að rannsaka öryggi brúarinnar. Þegar málið var tekið fyrir í n., lá ekki enn fyrir álitsgerð frá verkfræðingunum, en síðan kom hún fram og er birt á þskj. 507. Eins og menn sjá, líta þeir svo á, að eins og brúin er nú, þoli hún ekki þyngri bíla, svo að öruggt sé, en kringum 6 tonn. Hins vegar líta þeir svo á, að með ekki mjög miklum kostnaði megi setja á hana svokallaða þverbita, sem muni auka burðarmagn hennar eitthvað; það kemur ekki fram í álitinu, hve mikið. Þó hefur einhver látið svo um mælt, að ef þessir þverbitar væru settir, þá mundi hún geta þolað 6½ tonn eða kringum það. En þá þyngd hefur allur fjöldinn af bílum, sem yfir hana fara að austan. Það eru 2 bílar skrásettir fyrir austan Ölfusá, sem eru þyngri. Þeir eru 8–9 tonn fullhlaðnir, en allflestir eru liðug 6 tonn fullhlaðnir. Þess vegna ætti allur fjöldinn af bílunum austan Ölfusár að geta komizt yfir hana fullhlaðnir, ef þessir þverbitar yrðu settir, en þeir munu kosta sennilega um 40 þúsund kr. Svo telja þeir nokkuð vafasamt, hvort hægt sé að gera hana það örugga, að hún þoli þyngri umferð a. m. k. telur n. sér ekki fært að ganga lengra en þeir. Þeir benda einnig á það, að ef nota á hana um lengri tíma fyrir þetta þunga umferð, þá þurfi hún viðbótarstyrkingu. Í þessu sambandi vil ég benda á, að setning eins nýs burðarstreng, sitt hvorum megin mun kosta aldrei minna en 75–80 eða allt upp í 100 þús. kr. Og það er erfitt að fá þá. Það mun vera sagt í nál., að það taki a. m. k. 2–3 mán. að fá burðarstrengina. En þeir hafa látið svo um mælt við mig, að eftir reynslu síðustu ára mætti telja það gengi vel, ef þeir næðust innan 6 mánaða. Nú mun vera ágreiningur í n. um það, hvort rétt sé að ráðast þegar í að panta þessa viðbótarburðarstrengi. Væri það gert, mundi brúin fá það öryggi að dómi verkfræðinganna að þola enn í eitt ár meiri umferð. Og þá væri hugsanlegt, að hægt væri að komast af án þess að byggja nýja brú. En minni hl. n. lítur svo á, að það sé ekki rétt; rétt sé að stefna beint að því að byggja nýja brú, enda mun það alveg ákveðið. En hitt lét n. liggja á milli hluta, hvort ráðizt skyldi þegar í að afla þessarar viðbótarstyrkingar, sem þessir nýju burðarstrengir koma til með að veita. Ef dráttur verður á því, að ný brú verði byggð, sem ekki ætti að þurfa að gera ráð fyrir, þá virðist óhjákvæmilegt, þótt það hafi kostnað í för með sér, að fá þessa strengi, því að þá er ákaflega líklegt, að brúin verði sett upp aftur einhvers staðar á stórá, þar sem umferð er minni, því að þar ætti hún að geta enzt í langan tíma, þó að hún geti það ekki við Ölfusá. Í þessu sambandi er minnzt á 3 stórár þarna nálægt. Ein þeirra er Hvítá hjá Iðu, þar sem hún þó er heldur stutt, önnur Hólmsá í Landeyjum, sem hægt væri að nota hana á með því þó að þrengja að ánni, og sú þriðja er Tungufljót, og þar mun hún nokkuð mátulega löng. En þá þyrfti nýja strengi. Svo að hvort það sé nokkuð of mikið í ráðizt, þótt strengirnir séu keyptir strax, það hefur n. ekki lagt dóm á. En hún leggur til, eftir að rannsóknin var gerð, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá, eins og það er orðið nú á þskj. 507. En þar er málið lagt á vald vegamálastjóra og ríkisstj., á hvern hátt öryggið verði aukið, hvort strax verði gerðar ráðstafanir til að fá aukaburðarstrengi eða það verði látið bíða þangað til sést, hvað vel gengur að fá efni í nýju brúna og hvenær má ætla, að hún verði fullgerð.

Ég held það sé ekki rétt af þinginu að gera bein ákvæði um þetta, heldur treysta vegamálastjóra og ríkisstj. að sjá um, að hún verði gerð eins örugg og hægt er með þverbitunun. Þá vona ég, að fjöldinn af bílum komist yfir hana með fullt hlass. Að vísu eru tveir bílar, sem þurfa að fara á milli, sem eru miklu þyngri. En þeir verða að hlaðast hérna megin brúarinnar. Hinir bílarnir, sem of þungir eru og ætlaðir eru á þessa leið og skráðir eru hér í Reykjavík, eru ætlaðir til flutninga úr Skaftafellssýslu og hingað. En þess ber að gæta, að það er ekki einungis Ölfusárbrú, sem ekki er gerð fyrir 8–9 tonna þunga, heldur er það líka Þjórsárbrú og margar smærri brýr og tréstokkar á leiðinni. Vegirnir eru í raun og veru ekki gerðir fyrir svona þunga bíla, jafnvel þótt Ölfusárbrú væri fær. Það verður ekki hjá því komizt, að þessir bílar verði fyrir óþægindum, einkum mjólkurbílar, sem verður að hlaða hérna megin árinnar. En ég held, að við því verði ekki gert. Og það er mála sannast, að þeim, sem eiga margar ár óbrúaðar í sínu kjördæmi, mun þykja ærið nóg að gera við Ölfusárbrú fyrir 30–40 þús. kr., sem búið er að kosta til hennar, að viðbættum þeim 40 þús., sem á að leggja í bitana, þó að ekki sé meira í ráðizt.