21.02.1944
Sameinað þing: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í D-deild Alþingistíðinda. (6033)

35. mál, hátíðarhöld 17. júní 1944

Ólafur Thors:

Mér þykir rétt, að það komi fram í sambandi við ummæli hv. 2. þm. Reykv. varðandi flutning á till. um niðurfelling sambandslagasáttmálans og um flutning lýðveldisstjskr., að eftir því, sem ég man, þá var málsmeðferð sú, að ríkisstj. hafði haft í hyggju að bera fram brtt. við þau frv., sem mþn. hafði samið, og að í lýðveldisn. var um þetta rætt og ályktað, að bezta málsmeðferðin væri, að ríkisstj. vildi flytja frv. óbreytt. Og ég man ekki betur en form. lýðveldisn., hæstv. forseti sameinaðs þings, flytti okkur þau skilaboð, hvort við vildum sætta okkur við þessa málsmeðferð.

Að öðru leyti þarf ég ekki neinu við að bæta út af þessari hávaða- og glamursfengnu ræðu hv. 2. þm. Reykv. og tilefnislausu brigzlyrðum. Ég hygg, að það mundi margan undra, ef skýrt væri frá samningsumleitununum við Alþfl., hver afstaða Sósfl. varð að lokum samanborið við það, sem hún var í öndverðu. Og ef um það væri rætt, kvíði ég ekki fyrir þeim umr. En ég álít hins vegar, að í þessu máli eigi ekki að vera að gera meira en nauður rekur til úr ágreiningsefnunum. Og ég hef viljað gera sem minnst úr því, sem á milli hefur borið í þessu máli á hverjum tíma. En ég hef talið mig til neyddan að gera þessar aths. vegna fram kominna brigzlyrða.