06.12.1944
Sameinað þing: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í D-deild Alþingistíðinda. (6174)

205. mál, ríkið kaupi húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Fyrir nokkrum árum var töluvert um það rætt á Alþ. að kaupa þetta hús, sérstaklega vegna væntanlegs ríkisstjóra- og forsetaheimilis. Skömmu áður hafði deild úr góðtemplarareglunni eignazt það með góðum kjörum og þó leigt það öðrum, að mestu leyti ríkinu. Aldrei hefur orðið samkomulag um það með templurum, hvort þeir gætu notað það fyrir sitt aðalheimili, og þess vegna hafa þeir ekki lagt í mikinn kostnað í því skyni, en þó gert nokkrar umbætur og nota það nokkuð nú um stund. Þeir eru jafnþurfandi fyrir aðalheimili eftir sem áður. Mælir nú margt með því, að ríkið eignist húsið, eins og rakið er í grg., sérstaklega það, að þá ætti ríkið eða gæti auðveldlega átt lóðirnar þaðan með Fríkirkjuvegi og Lækjargötu allt norður fyrir Arnarhól. Næst norðan við Fríkirkjuveg 11 og Kvennaskólann stendur gamalt íshús, sem verður ekki haft þar til eilífðar, og getur ríkið þá eflaust fengið ráð yfir þeirri lóð. En nú mun vera nokkuð fast sótt af erlendum aðila að kaupa Fríkirkjuveg 11, og ef úr því yrði, mundu þau eignarráð verða varanleg og mundi ekki þykja henta að taka eignina aftur með eignarnámi, eins og nú væri hægt. Ef húsið verður þannig selt, má búast við, að skrifstofur ríkisins verði að víkja þaðan, og er ekki að vita, hve mikill kostnaður af því hlytist. Þess vegna hygg ég, að ekki sé umtalsmál, að Alþ. eigi að samþ. þessa till. og vera ekki smásýnna en það var 1931, þegar það heimilaði að kaupa fyrir ½ milljón kr. lóðina milli Laugavegs og Amtmannsstígs. Þessi lóð, sem keypt var einungis til framtíðarnota og hefur ekki enn orðið ríkinu nema til skaða, þótti of mikilsverð til að sleppa henni. Ég legg til, að þessi eign verði einnig tryggð íslenzka ríkinu fyrir framtíðina.