02.02.1945
Sameinað þing: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í D-deild Alþingistíðinda. (6182)

205. mál, ríkið kaupi húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg í Reykjavík

Frsm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Þetta mál lýtur að því, að haldið verði áfram þeirri stefnu, sem tekin var upp fyrir 14 árum, að ríkið keypti nokkrar lóðir við Lækjargötu og þar í grennd.

Nú stendur þannig á, að húsið Fríkirkjuvegur 11 fór nýlega úr einkaeign og komst þá í hendur templara, en hefur síðan verið leigt ríkinu. Þegar hið æðsta vald var flutt inn í landið, kom til mála að kaupa þetta hús fyrir ríkisstjórabústað, og hefði orðið, ef Bessastaðir hefðu ekki boðizt með þeim hætti sem kunnugt er.

Nú álít ég það samt sem áður æskilegt, að ríkið eigi þessa lóð. Ég tala um það fyrst og fremst sem lóð, þar eð þetta er timburhús, sem innan tíðar gengur úr sér. Ríkið á nú lóðir þarna í nágrenni, og væri æskilegt, að það gæti eignazt sem flestar. Nú er þessi lóð auðvitað allmiklu dýrari en hún var, þegar hún var síðast seld, en við því er ekkert að segja.

Fjvn. hefur ekki þótt rétt að orða till. eins ákveðið og gert var í upphafi. Það er lagt á vald ríkisstj. að gera þessi kaup, ef viðunandi samningar takist. En mér virðist, að þótt n. hafi nú kannske ekki fé aflögu til þessara kaupa, þá liggi ekkert á að gera þau, einungis ef það er ákveðið, að það skuli gert í framtíðinni.

Það getur verið freisting fyrir templara að selja einhverjum þetta nú þegar, og þegar þess er gætt, að nú vilja margir leggja fé í fasteignir, virðist nokkur hætta á, að þessi lóð lendi nú í einstaklings eign aftur og þar með missi ríkið húsnæði, sem það hefur haft fyrir skrifstofur.

En ég þekki af eigin reynslu, síðan ég var í bæjarstjórn, að bærinn á mjög erfitt með að fá lóðir. Til dæmis gekk illa að fá lóð undir hina fyrirhuguðu ráðhúsbyggingu, og nú mun bærinn vera að hugsa um að reisa skrifstofubyggingu á mjög leiðinlegum stað.

Enn fremur mun nú vera nokkur hætta á, að þessi eign verði seld útlendingum, ef ekkert er að gert. Svo mun þó háttað, að mörgum í reglunni er húsið ekki útfalt. Þeir hafa lagt mikið á sig til að eignast það, en samt mundu þeir helzt kjósa, að það færi til ríkis eða bæjar, ef það yrði selt, og þeir mundu þá ekki gera það að neinu skilyrði, að kaupin yrðu gerð strax, einungis ef það væri tryggt, að þau yrðu gerð af þessum aðilum.

Ég vænti, að þessu verði vel tekið af hæstv. ríkisstj., sem hefur miklar ráðagerðir að ýmsu leyti, en læt nú þessi orð nægja að sinni.