08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

143. mál, fjárlög 1945

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Ég hef nú að eðlilegum hætti ekki haft mikil kynni af starfsemi hv. fjvn. á þessu þ., og verð ég að segja, að ég varð nokkuð undrandi, þegar ég sá þær brtt., sem hv. n. flutti við þessar umr. Þær ræður, sem fluttar hafa verið af hálfu nm. og sérstaklega nú í dag virðast mér að sumu leyti vera í nokkru ósamræmi við till. n. á ýmsan hátt, en út í það efni mun ég ekki fara. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. geri því skil.

Ég skal þá snúa mér að þeim atriðum, sem sérstaklega snerta þau mál. er varða þær fáu brtt., sem ég hef leyft mér að bera fram nú við þessa umr. Það hefur gengið svo á undanförnum þ. og gengið svo, jafnvel síðan ég kom á þ., að það eru nokkur atriði fjárl., sem sérstaklega snerta hin einstöku héruð. Eru það einkum hinar verklegu framkvæmdir, vegir, brýr, hafnir, lendingarbætur o.s.frv. Á undanförnum árum hefur það verið regla hjá hv. fjvn. að leita eftir óskum og till. þm. um það, sem snertir héruð þeirra. Frá þessari reglu hefur hv. n. að þessu sinni vikið eða a.m.k. hef ég ekki orðið annars var. Um verklegu framkvæmdirnar er sérstök ástæða til þess að tala nú, og skal ég snúa máli mínu að vegamálunum.

Samkv. till. fjvn. er nú áætlað að veita til lagningar nýrra þjóðvega 5.2 millj. kr. Þar að auki eru áætlaðar 500 þús. kr. til Krýsuvíkurvegar, að því er mér skildist af ræðu hv. frsm. í gær. Till. um það var samþ. á síðasta þ., þó með þeim fyrirvara., að skylt væri að taka þá upphæð inn á fjárlfrv. næst. Þetta hefur nú ekki verið gert, en samkv. því er vegafé eftir till. fjvn. 6.7 millj. kr., og er þá reiknað með 700 þús. kr. samkv. benzínskattsákvæðunum. Nú er áætlað á fjárlfrv. þar fyrir utan viðhaldsfé til vega 7 millj. kr. og til sýsluvega millj. kr. Það er út af fyrir sig gott og æskilegt, að hægt sé að vinna sem allra mest að samgöngubótum, því að þörfin virðist næstum ótæmandi, en ég verð að segja, að ég kvíði því nokkuð, þegar ég horfi á þessar háu tölur, að svo kunni að fara sem bólað hefur nokkuð á á yfirstandandi tímum, að útilokað verði fyrir bændur landsins að fá nokkurn vinnukraft til framleiðslustarfa, þegar ríkið tekur svona mikinn vinnukraft í sína þjónustu. Ég vænti þess, að hv. fjmrh., sem einnig er landbrh., taki þessa hlið málsins einnig til athugunar, þegar til framkvæmdanna kemur.

Þó þykir mér taka steininn úr, þegar ég lít yfir skiptingu þessa vegafjár milli einstakra héraða. Það hefur verið á það minnzt, bæði af hv. frsm. og hv. síðasta ræðumanni, sem er form. fjvn., að það hafi að vissu leyti verið nokkuð losaraleg afgreiðsla á fjárl. á síðustu tveim þingum, og er það alveg rétt. Þetta hefur orsakað það, að þeir menn og þau héruð, sem hafa verið frekust í fjárkröfum, hafa komizt ótrúlega langt í þeim efnum. Við hinir, sem höfum ekki tekið mikinn þátt í þeim leik, höfum eðlilega dregizt nokkuð aftur úr í þeim efnum, og nú eru till., sem hv. n. gerir, þannig, að við, sem stytzt höfum gengið á þessu sviði, eigum að gjalda þess, ekki einungis þannig, að það sé bundið við sömu upphæðir, heldur breytt þannig, að misræmið er stórlega aukið frá því, sem var í fyrra. Til marks um það, hvernig þessu er varið, skal ég geta þess, að af þessum 6.7 millj. kr. er 1.2% ætlað til nýlagningar vega í héraði mínu. Nú er það öllum kunnugt, að sýslurnar í landinu eru 21 talsins, og ég skal, ef því verður mótmælt, færa nokkurn veginn rök að því með skýrum tölum, hvert misræmið er milli einstakra kjördæma í þessum till. hv. fjvn. Ég skal ekki fara um þessa hlið málsins miklu fleiri orðum, en ég hef leyft mér að bera fram 2 brtt. vegna héraðs míns til hækkunar á vegaframlagi, þótt vitanlega sé þar ekki farið fram á neitt hliðstætt við þau héruð, sem mestu fé er mokað í, enda hef ég bundið mig við ákveðin og afmörkuð verk, sem nauðsyn er að vinna.

Fyrri till., sem ég ber fram og er á þskj. 626, er um það, að framlag til Skagastrandarvegar hækki úr 70 þús. kr. í 120 þús. kr. Þannig stendur á, að verið er að leggja alllangan vegarspotta fjarri þeim melagötum, sem farnar hafa verið á þessu svæði, en vegurinn liggur beinna. Þessu verki er komið svo langt, að eftir er aðeins að leggja rúmlega 2 km af vegi þessum, svo hann verði að gagni, en auk þess er eftir nokkur malarburður í þann hluta vegarins, sem lagður var á s.l. sumri. Vegamálastjóri áætlar, að til þess að ljúka þessu verki þurfi 120 þús. kr., og við það eru till. mínar einskorðaðar.

Þá legg ég til, að nokkurt fé verði veitt til Kálfshamarsvíkurvegar, sem er milli Skagastrandarkauptúns og Kálfshamarsvíkur. Er skammt síðan vegur þessi var tekinn í þjóðvegatölu, var sýsluvegur áður. Var þá búið að leggja talsvert langa brautarkafla, bæði frá Kálfshamarsvík og einnig á svæðinu milli Hofs á Skagaströnd og Fossár. Þar stendur þannig á, að eftir er að leggja um 1 km til þess að tengja saman þessa vegi og til þess að þessi vegarkafli komi að gagni, verður að leggja þennan eina km. Kostnaðurinn er áætlaður 45 þús. kr. Við þessa áætlun vegamálastjóra er brtt. mín miðuð, og ég fullyrði, að þótt báðar þessar brtt. yrðu samþ., þá mundi þó vera tiltölulega lágt framlag til vega í mitt hérað miðað við tillög til annarra héraða samkv. till. hv. fjvn.

Um þetta efni skal ég ekki fara fleiri orðum, en það eru tvær aðrar brtt., sem ég hef leyft mér að flytja. Önnur er á þessu sama skj., (626), og er með henni farið fram á, að framlag til Skagastrandar hækki úr 100 þús. kr. í 200 þús. kr. Þarna stendur svo á, að áformað er, að á næstu árum verði samkv. l., sem nú er verið að samþ. hér á þ., gerðar meiri framkvæmdir en samsvara þessum till., sem ég hef lagt hér fyrir. Skal ég ekki halda neina ræðu um nauðsyn þessa máls né hve brýna þörf beri til þess, að það nái fram að ganga.

Loks er svo sú till., sem ég ber fram um 2 þús. kr. framlag til sýslubókasafnsins á Blönduósi. Það er nú svo um þessi sýslubókasöfn, að það er dálítið öfugt, að því er mér finnst, að lagðar séu fram talsverðar upphæðir til einstakra lestrarfélaga, sem út af fyrir sig er gott og blessað, en sýslubókasöfnin séu afskipt að meira eða minna leyti. Það er ekki nema ákaflega óveruleg upphæð, sem til þeirra hefur verið veitt, en þó eru undantekningar þar frá, og með tilliti til þeirra legg ég til, að veittar verði 2 þús. kr. til sýsluhókasafnsins á Blönduósi. Ég læt þetta svo nægja til meðmæla þeim brtt., sem ég hef flutt, og mun ekki blanda mér að öðru leyti í þær umr., sem hér hafa farið fram um afgreiðslu fjárl., enda þótt sumar þeirra hafi verið þannig vaxnar, að þær gætu gefið tilefni til margvíslegra almennra athugasemda.