29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í D-deild Alþingistíðinda. (6307)

109. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég vil aðeins taka fram út af síðustu ræðu, að töf stafar ekki af því, að ráðuneytið hafi ekki viljað fallast á að ráða fleiri verkfróða menn til vegagerðar, heldur hefur verið sú ekla á byggingarverkfræðingum, að þeir hafa ekki fengizt til verksins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ráðuneytisins. Þá hefur ráðuneytið gert ráðstafanir til að ráða verkfræðinga, sem nýlokið hafa prófi í Skandinavíu. Einn slíkur hefur verið fastráðinn og kemur heim strax og hann kemst milli landanna. Tveir ágætir verkfróðir menn hafa kosið að hverfa úr þjónustu ríkisins til einkareksturs. En von er um, að skarðið fyllist og úr þessum vandkvæðum muni brátt rætast.

Ég get fullvissað þm. um, að málið sofnar ekki. Ráðuneytið hefur fullan hug á, að n., sem að málinu vinnur, ljúki störfum svo fljótt sem kostur er á.