02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í D-deild Alþingistíðinda. (6381)

290. mál, lagasafn

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég mun að sjálfsögðu taka til athugunar bendingu hv. þm. S-Þ. um að geyma stílinn að lagasafninu, því að þótt að vísu verði miklar breyt. á l., þá má þó gera ráð fyrir, að mikið verði þar um uppprentun, þegar bókin verður gefin út aftur.

Út af aths. hv. 6. þm. Reykv. um að færa inn í lagasafnið þær breyt., sem gerðar hafa verið á löggjöfinni, síðan handritið var fullgert, skal ég að sjálfsögðu taka þá bendingu til athugunar, en ef það ætti að kosta frestun á prentun lagasafnsins enn um eitt ár, þá veit ég ekki, hvort hv. 6. þm. Reykv. mundi óska þess, því að að sjálfsögðu er talsvert verk að koma lagasafninu enn í nýtt form eftir þeim l., sem samþ. hafa verið nú á s. l. ári, og ef ekki væri hægt að ljúka því af á stuttum tíma, þá getur það orðið til að valda nýjum fresti á útgáfunni, og þá er síður von til, að hægt verði að ljúka prentuninni af yfir sumarið. Ef maður lítur út fyrir ríkisprentsmiðjuna, þá er aðeins veik von um að fá lagasafnið prentað í einni prentsmiðju í bænum, fleiri koma þar ekki til mála, eftir að hafa fengið þá neitun frá öðru fyrirtæki, sem við fengum fyrir nokkrum dögum. Ég veit, að hv. þm. eru þessar ástæður mjög ljósar, blöðin hafa stækkað mjög mikið og prentsmiðjurnar yfirleitt uppteknar við að prenta blöðin og aðrar við prentun bóka, sem þær sjálfar eiga meira og minna í og láta þær því ganga fyrir öllu öðru. Fyrir utan það, að verið er nú að athuga um eina prentsmiðju í bænum, þá er verið að athuga möguleika á að fá lagasafnið prentað utan bæjar, á Akureyri, en ég veit ekki enn, hvaða árangur verður af þeirri athugun, en ég skal fullvissa hv. þm. um, að dómsmrn. lætur einskis ófreistað að koma þessu þarfaverki í framkvæmd sem allra fyrst.