07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Bjarni Benediktsson:

Eins og hv. frsm. tók fram, gat ég ekki mætt á fundi heilbr.- og félmn., sem um þetta mál fjallaði. Eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, skilst mér, að hér sé ekki ætlazt til, að til nýs kostnaðar komi fyrir ríkissjóð frá því, sem ella mundi, úr því að þessu starfi er haldið við. Mér er einnig kunnugt um það, að sá maður, sem mun fá þetta starf, er ágætur maður, bæði veit ég það af viðkynningu við hann og eins hef ég haft spurnir af ágætri fræðimennsku hans. Ég tel því, úr því að hann er á ríkislaunum, að þá sé það hagur fyrir háskólann, að hann verði við skólann tengdur. Hins vegar sýnist mér það alveg ljóst, eins og hv. frsm. sagði, að fella beri þetta mal inn í þá breyt. á háskólal., sem hér liggur fyrir. Í því sambandi kemur svo aftur til athugunar, hvort ekki sé með þessu frv. stofnað til nokkuð geystrar útþenslu í háskólanum. Hins vegar virðist nauðsynlegt að samþ. meginatriði frv., og þess vegna er ég ekki að búa þessu máli neina gröf, þó að ég vilji láta sameina frv. En ég tel ekki einungis betur fara á því að færa þessi ákvæði saman, heldur væri það einnig gleggra til yfirlits um það, hversu geysilegan vöxt háskólans hér er um að ræða. Hv. þm. verða að gera sér grein fyrir því, hvort það er skynsamlegt á þessum óvenjulegu tímum að stofna til svo stórfelldrar stækkunar á háskólanum eins og frv. gerir ráð fyrir, en það mun ég áskilja mér rétt til að ræða nánar, þegar það frv. liggur fyrir, og mun ég flytja brtt. við það frv., um niðurfelling sumra þeirra embætta, sem þar er ráðgert að stofna.