12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Frsm. (Sigurður Thoroddsen):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Frv. þetta er um stofnun prófessorsembættis í heilbrigðisfræði í læknadeild háskólans og er nátengt frv. um manneldisráð. Aðalkostur þessa frv. er sá, að með því eru vísindamanni sköpuð skilyrði til þess að helga sig vísindalegum rannsóknum. Honum hafa einnig borizt áhöld, og allir eru á einu máli um hæfileika hans.

Ég vænti þess, að frv. þetta nái fram að ganga, því að hér er um raunhæfa vísindastarfsemi að ræða, sem ávallt er landinu til gagns.