12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

217. mál, skipun læknishéraða

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég vil ekki segja, að ég sé beinlínis mótfallinn þessari till., en vildi benda á það, að þetta frv. er fram borið vegna þess, að á fyrri hluta þessa þings voru samþ. breyt. á læknishéraðaskipuninni, sem heilbrigðisstjórnin gat ekki fallizt á og sýndi sig seinna, að ekki voru framkvæmanlegar. Ef þetta frv. nær ekki afgreiðslu á þessu þingi, sé ég ekki, að annað liggi fyrir en að auglýsa læknishéruð, sem sýnilegt er, að enginn læknir fæst nú til að gegna, og annað héraðið er þar að auki stofnað á móti meirihlutavilja þeirra manna, sem eiga að búa við þá breyt., sem gerð var á læknishéraðaskipuninni á fyrri hluta þessa þings. Niðurstaðan af þessu yrði svo sú, að það yrði að fá héraðslæknana, sem nú eru skyldugir til að gegna þessum héruðum, til þess að gegna þessum aukastörfum og greiða þeim hálf læknislaun ofan á sín laun.

Ég legg áherzlu á, að ekki verði þvælt þessu máli of á þingi, heldur fái það afgreiðslu, ef ekki er ætlun hæstv. Alþ. hreinlega að greiða að gamni sínu læknislaun í tveimur héruðum umfram það, sem þörf er á.

Ég held, að ég muni lýsa því yfir, að ef ég hef eitthvað með þessi mál að gera, þá muni ég taka till, hv. 3. þm. Reykv. til athugunar, jafnvel þó að hún næði ekki hér samþykki. Og þegar þar að auki einn af nm. í mþn., sem er að athuga þessi mál og mun skila áliti fyrir næsta Alþingi, hefur lýst yfir, að hann muni einnig taka þessa till. til athugunar, tel ég ekki, að það geti verið nein áhætta fyrir hv. 3. þm. Reykv., þó að till. hans næði ekki afgreiðslu á þessu þingi, — með þeim velviljuðu ummælum, sem hún hefur fengið bæði frá landlækni og mþn. ásamt heilbrigðismálaráðh. Hitt álít ég, að sé miklu meira um vert að koma þessu frv. í gegnum þingið, þannig að ekki sé verið að greiða laun læknis úr ríkissjóði að óþörfu til þess að sinna tveimur læknishéruðum, sem auðsjáanlega er ekki hægt að stofna.