05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

96. mál, flugvellir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Ég vil leyfa mér að fara fyrst nokkrum orðum um það, sem hæstv. félmrh. sagði. Hann taldi hæpið samkv. frv., að önnur fyrirtæki en flugvellir nytu ríkisstyrks. Samgmn. leit svo á, að það kæmi skýlaust fram í frv., að dráttarbrautir og sjóflugvélaskýli nytu hans engu síður, því að þann veg er rætt í 2. gr. um þau fyrirtæki, og kunnugt var n., að til þess ætlaðist fyrrv. ríkisstj., sem bar fram frv. En ekki væri ég móti því að bæta inn í 6. gr. ákvæði til að gera þetta skýrt. N. mun athuga það fyrir 3. umr.

Varðandi hitt atriðið, sem hæstv. ráðh. minntist á, að æskilegt væri að ákveða í l., að ríkisstj. skuli setja reglugerð um afnot flugvalla, vil ég segja, að n. mun einnig íhuga það mál, og fyrir mitt leyti virðist mér ekki óeðlilegt að taka ákvæði um það upp í 7. gr. frv.

Þessu næst vil ég svara hv. 2. þm. Eyf. (GÞ). Hann harmaði, að n. skyldi ekki fallast á að hafa sjóflugvélaskýli í Ólafsfirði. N. hafði hug á því, þangað til hún hafði rætt við sérfróða menn um þessi efni. Þeir sögðu það óþarft og töldu það ekki skapa aukna möguleika til flugsamgangna við Ólafsfjörð. Á Akureyri á hins vegar að verða flugskýli fyrir sjóflugvélar. Það er ætlunin engu að síður, að Ólafsfjörður verði viðkomustaður flugvéla, eftir því sem föng verða á, en svo dýra framkvæmd, sem um er að ræða, virtist alls ekki þurfa að leggja í, til þess að svo megi verða. Sjóflugvélaskýlið á Akureyri á að nægja, enda á næstu grösum við Ólafsfjörð. Ég vil mælast til þess, að hv. 2. þm. Eyf. taki aftur brtt. sína a.m.k. til 3. umr., og eins vildi ég óska, að aðrir þm., sem flutt hafa brtt., gerðu, og mun n. athuga þær milli umræðnanna.

Um það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, vil ég ekki fella neinn dóm. N. komst að því með viðtali við þm. Rang., að þeir voru mjög ósammála um staðinn fyrir flugvöll í sýslunni, og til þess að gera ekki upp á milli þeirra skoðana að lítt rannsökuðu máli lagði n. til að láta þetta vera óbundið í frv., en láta sérfræðingana um valið.

Hv. 2. þm. N.--M. (PZ) hélt því fram, að þar sem ákveðið væri í frv., að ríkissjóður kostaði framkvæmdir, væri fyrir það girt, að flugvellir yrðu gerðir og aðrar framkvæmdir unnar, ef ríkissjóð brysti getu, þótt aðrir aðilar, hreppar, sýslufélög og jafnvel einstaklingar, hefðu hug á að leggja fram fé í því skyni. Ég held, að þetta sé á misskilningi byggt. Ef fé fæst til framkvæmda frá öðrum en ríkinu, er hægt að ráðast í þær og fá það fé síðar endurgreitt úr ríkissjóði, svo fremi að fylgt sé í framkvæmdunum réttum reglum við gerð mannvirkisins. Annars hafa hreppar og sýslufélög áreiðanlega nóg á sinni könnu, þó að þau séu ekki krafin um fé til flugvallagerða.