06.11.1945
Efri deild: 23. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

10. mál, jarðræktarlög

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki blanda mér almennt inn í umr. um þetta mál. Aðeins vildi ég segja nokkur orð um brtt. á þskj. 82. Ég hygg, að jafnglöggur maður og hv. 1. þm. N.-M. hefði séð það sjálfur, ef hann hefði lesið þetta mál og borið saman við sjálf l., að brtt. hans getur engan veginn fallið inn í l. eins og hún er borin fram á þessu þskj. Enn meira er ég undrandi yfir því, að lögfræðingi og það manni, sem hefur verið dómsmrh., skuli hafa sézt yfir þetta, því að þegar l. verða lesin, eftir að búið er að fella niður þessa 17. gr., þá er komin í staðinn fyrir þá gr. önnur 17. gr., sem gjarnan gæti hljóðað þannig: „En fylgifé það með hverri jörð, sem myndazt hefur vegna þeirrar lagagreinar, meðan hún var í gildi, skal verða eign jarðeiganda.“ Þetta sér hver maður, og þarf ekki lögfræðing til, að hér kemur þetta alveg eins og skollinn úr sauðarleggnum, og sé gr. samþ., hlýtur hún að koma inn í l. í staðinn fyrir 17. gr. Mér skilst, að sú breyt., sem þarf að gerast, sé fyrst og fremst sú, að þegar 17. gr. er fallin niður, þá breytist greinatala l. við þá breyt., en ekki að hér ætti að koma inn það, sem talað er um í þessari brtt. — Ég hef hér skriflega brtt., sem ég legg fram við aðaltill., og vænti þess, að hún verði borin upp.