29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

22. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Í sambandi við það, sem hæstv. samgmrh. sagði hér áðan, get ég vel skilið það, að það er illa samræmanlegt, sérstaklega af hálfu fjármálavaldsins og ríkissjóðs, ef farið er inn á þá braut að auka greiðslur úr ríkissjóði til sýsluvega og taka síðan sýsluvegi upp í þjóðvegatölu. En þegar á allt er litið, þá held ég, að með samþykkt þessa frv. og með þeirri rýmkun, sem það felur í sér, muni það síður en svo stuðla að fjölgun þjóðvega. Sýslusjóðir sjá þá fremur úrræði til bóta og munu auka framlög sín, er þeir fá aukinn styrk hjá ríkinu. Þeir standa þá ekki eins ráðþrota og verið hefur, er fé á að fá til slíkra framkvæmda.

Ég held, að ekkert sé að óttast, þó að heimildin hækki upp í 10 af þúsundi, því að þetta verður ávallt notað af fyllstu varúð, því að þetta er fyrst og fremst skattur á sýslubúum, en verður hins vegar notað eins og þörf krefur, og sýslunefndirnar sjálfar ræða enn þá nánar, hvar skórinn kreppir harðast að. Vænti ég þess, að hæstv. ráðh. geri sér þetta alveg ljóst og taki þessu með fullum skilningi, um léíð og ég vona, að frv. þetta nái fram að ganga. — Hitt er svo annað mál, eins og hv. þm. Barð. vék að, hvort ekki væri rétt að hafa ekki breytilegt tölugjald af þúsundi, en í þess stað vísitöluna. Samgmn. Ed. hefur tekið þessa till. hv. þm. til athugunar, og leiddi sú athugun í ljós, að sitthvað mælti með henni, en þó sá n. ekki ástæðu til að breyta frv. eins og það liggur nú fyrir. Til grundvallar heimildinni liggur hreint og ákveðið tölukerfi, en ef nota ætti vísitöluna, yrði útreikningurinn miklu flóknari. Niðurstaðan mundi einnig verða svipuð. Útkoman verður því sú, að því minna sem fæst fyrir krónuna, því meiri þörf er að nota heimildina og gagnstætt, því að þegar meira fæst fyrir krónuna, hlífast menn við að nota heimildina til fulls.

Að lokum vil ég segja það, að samgmn. Ed. og fjhn. og samgmn. Nd., sem afgr. hafa málið, hafa gert sér algerlega ljóst, hvað þessi rýmkun þýðir fyrir ríkissjóð, en dæmi ekki, hvað komið hefur til athugunar frá þeim, sem flytja nú frv. um fleiri og fleiri þjóðvegi. Þar verður hver að svara fyrir sig um þá nauðsyn, sem krefst þess. Ég vildi aðeins taka þetta fram út af ummælum hv. þm. Barð., að frv. þetta hefur verið athugað af samgmn. beggj.a þingdeilda.

Vænti ég svo þess, að frv. þetta verði samþykkt.