04.12.1945
Neðri deild: 48. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

60. mál, raforkulög

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég á hér eina brtt. á þskj. 226. Hv. frsm. iðnn. hefur nú komið nokkuð að þessari brtt. í ræðu sinni, og er ég honum og n. þakklátur fyrir hennar undirtektir. En enda þótt hv. frsm. gerði nokkra grein fyrir þessari brtt., tel ég mér skylt að fara nokkuð nánari orðum um hana. Brtt. fjallar um það, að síðari málsgr. 28. gr. falli niður, en sú málsgr. hljóðar þannig:

„Þá skal og að öðru jöfnu sú veita ganga fyrir um framkvæmd, sem hæst framlag er veitt til úr héraði að tiltölu við framlag ríkissjóðs.“

Ég vil fyrst og fremst benda á það, að það er í rauninni nýmæli í íslenzkri löggjöf, það hefur ekki tíðkazt, að greiðslugeta almennings væri sett undir nokkurs konar uppboðsþing, þar sem hæstbjóðandi ætti kost á því að fá þau gæði, sem um væri deilt. Það má líka benda á það, að þó að greiðslugeta almennings sé með meira móti nú, þá hefur ekki svo verið áður. Það er ekki ýkja langt síðan ábyrgðir sveitarstjórna og óskir um lán, og jafnvel héraðsstjórna, fengu litlar undirtektir hjá bönkunum, og jafnvel að það yrði að leita til einstakra efnamanna, ef þeir voru til innan sveitarinnar, til þess að ganga í persónulegar ábyrgðir fyrir lánum, sem þurfti að taka. Ég segi, það er ekki langt síðan svona var ástatt, og þó að betur sé ástatt nú, veit enginn, hvernig slíkt kann að takast. En þegar svo er komið, að framlög héraða og sveita fara að velta á því, hvort þau hafa nokkra efnaða einstaklinga, sem bjóða ábyrgð sína, og annað þess háttar á að vera mælikvarði fyrir því, hvort ríkið sér sér fært að leggja í framkvæmdir í héruðum og sveitum, þykir mér það vera vafasamt réttlæti.

Ég vil benda á það, að svipaðar till. og þessar lágu fyrir Alþ. í fyrra í sambandi við flugvallagerð, og þar var einnig þetta ákvæði tekið fyrir, og þá fór á þá leið, að Alþ. var sammála um, að þetta væri ótækt, og þetta ákvæði var þá fellt. Ég vænti þess vegna, að þetta ákvæði verði einnig í þessu frv. fellt niður, ég álít það ósanngjarnan mælikvarða á þörf almennings í þeim sveitum eða héruðum, sem þarna væri um að ræða. Ég álít það engan mælikvarða á þörf eða nauðsyn héraða eða sveita fyrir að fá raforku, hvort þau geti skrapað saman nógu mikla fjárhæð eða hærri en nágrannasveitin, það er allt annað, sem þarna hlýtur að liggja til grundvallar. Ég vil beygja mig fyrir því mati, sem skýrslur liggja fyrir um og fræðimenn á því sviði telja rétt vera, en vil alls ekki beygja mig fyrir því, að þetta sé bundið við slíka upphæð sem hér er gert ráð fyrir. Ég er þess vegna þakklátur hv. iðnn. fyrir undirstrikun hennar í þessu máli.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða einstakar brtt. Sumum þeirra hefur ekki verið talað fyrir enn þá, og mun ég láta mér nægja að gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra við atkvgr.