05.12.1945
Neðri deild: 49. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

60. mál, raforkulög

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég skal geta þess vegna brtt. hv. þm. Borgf. og þm. Mýr., að ég benti á það í iðnn., að með því að ákveða hámarkið 2/3, eins og brtt. n. gerir, þá væri farið niður fyrir það, sem venjulega væri ábyrgzt. En n. taldi þessa upphæð vera næga. Varð því ekki af því, að breytt væri frá því, sem hæstv. samgmrh. hafði lagt til.

Hv. þm. Borgf. hreyfði því í gær, að brtt. n. við 7. gr. væri ekki nógu greinileg, og hv. þm. hefur lagt fram brtt. til þess að skýra hana. Ég fyrir mitt leyti tel, að brtt. n. sé nægilega skýr. En hins vegar get ég fyrir mína hönd og væntanlega fyrir hönd n. fallizt á brtt. hv. þm.

Hv. 1. þm. Árn. flytur hér brtt. ásamt fleiri þm. um, að heildsöluverð raforkunnar skuli vera það sama um allt land. Hv. þm. ræddi ekki lengi um það mál, enda má telja, að útrætt hefði verið um það við fyrri umr. þessa máls. Hæstv. samgmrh. og ég höfum bent á, að það væri tæknilega illt og óframkvæmanlegt. Og ætla ég ekki nánar inn á það. En ég vil benda á eitt dæmi. Segjum, að till. yrði samþ. og verðið ákveðið það sama um allt land. Með samþykkt þessara l. gæti Reykjavík og Hafnarfjörður og rafveitur suður með sjó gengið inn í rafveitur ríkisins. Hugsum okkur svo, að virkjað yrði t. d. í Húnavatnssýslu, og þar sem þar er ekki heppilegt til virkjunar, yrði að selja orkuna þar dýrar. Þá væri ekki nema tvennt til, fyrst að hækka verðið hjá veitunum hér, í Hafnarfirði og suður með sjó eða hækka það strax og gera ráð fyrir, að það yrði selt með þeim ágóða, að hann myndaði sjóð, sem ætti svo að nota til að jafna verðið. Þetta yrði áreiðanlega óvinsælt.

Hv. þm. minntist á brtt. sína og annarra hv. þm. á þskj. 232, og í því sambandi minntist hann á brtt. hv. þm. A.-Húnv. og taldi ekki þorandi að samþ. hana, því hún væri of víðtæk heimild. Ég sagði í framsöguræðu minni, að sú till. veitti víðtækari heimild en till. hv. þm. En samt er það órannsakað, hvað langt þetta gæti gengið samkv. till. hv. þm. Og ég er ekki á móti því, að gengið sé til móts við þá, sem búa utan þeirra svæða, sem héraðaveiturnar ná til. En mér finnst ákvæði um það eigi ekki heima í þessum l., heldur í öðrum l. Það hefur verið bent á, að nýbyggingarráð hefði í undirbúningi l., sem gera ráð fyrir sjóði, sem hægt væri að lána úr til smárafveitna. Mér þótti galli á till. hv. þm., að þar vantaði ákvæði um tryggingu lánanna. En nú hefur verið bætt úr því með flutningi till., þar sem lagt er til, að þessi lán skuli tryggð. En það er enn órannsakað, hvert stefnt er í þessum málum, ef önnur þessara till. verður samþ.

Hv. þm. A.-Húnv. gerði lítið úr því, sem ég nefndi í gær, ef t. d. 100 bændur vildu virkja smástöðvar, þá mundi það kosta raforkusjóð 1½ millj. kr. Hv. þm. þótti þetta smáræði eitt. Það má gera ráð fyrir, að ég hafi farið of lágt með bæjatöluna. Á öllu landinu eru um 6000 býli, og það getur liðið langt, þangað til þau býli öll fái rafmagn frá veitum ríkisins. Við getum því breytt dæminu og sagt, að 100 bændur virki á ári. Hv. þm. sagði marga bæi fyrr eða síðar leggjast í eyði, ef þeir fengju ekki rafmagn. En ég vil benda hv. þm. á, að dæmi eru til, að baeir hafi lagzt í eyði, þótt þeir hefðu rafmagn. Hef ég þar í huga Látra í Eyjafirði. Eitt er það enn, sem mælir gegn þessari till., það er, að vindrafstöðvarnar eru fyrir utan allt eftirlit.

Hv. þm. A.-Húnv. og hv. 1. þm. Árn. töldu, að fyrsta till. af brtt, n. stefni málinu í verra horf, um of væri gengið á einkarétt ríkisins. Ég get tekið undir það, sem hæstv. samgmrh. sagði í gær um þetta, fyrir mitt leyti gæti ég gengið lengra í því að heimila ríkinu einkarétt. En það er bara viðbúið, að rafveitur ríkisins hafi svo mikil verkefni fyrir höndum, að þeim verði íþyngt um of, ef þær ættu þess utan að sjá kaupstöðunum, eins og t. d. Reykjavík, fyrir raforku.

Þá kem ég að því, sem hv. 1. þm. Árn. talaði um. Mér skildist á honum, að þessi fyrsta brtt. á þskj. 266 gæti falið meira í sér en ég vildi vera láta, taldi orðalagið ekki nógu einskorðað og allóákveðið. Við áttum orðastað um þessa till., og var þá um nokkurn misskilning að ræða milli okkar. Ég vil leyfa mér að leiðrétta þennan misskilning. Það er alveg greinilegt, sem í þessari till. stendur. Það er verið að leyfa aukningu á þeim orkuverum, sem til eru. Undir þessa breytingu koma ekki nýjar virkjanir og ógerðar. Hér er átt við aukningu á þeim raforkuverum, sem fyrir eru. Öll ræða hv. þm. var byggð á misskilningi. Auk þess er það tryggt með þessum 6 mánuðum, sem eru gefnir til að skila uppdráttum. Það tekur lengri tíma að undirbúa virkjun svo í lagi sé.

Ég man svo ekki eftir fleiru, sem ég þarf við petta að bæta. Ég vil taka undir með hv. þm. Borgf. og hæstv. samgmrh., að ég tel stórt spor stigið með samþykkt þessa frv. í þessu mikilvæga máli.