20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

81. mál, embættisbústaðir héraðsdómara

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og mælti hv. allshn. þeirrar d. með því eins og það liggur nú fyrir. Það er orðið alllangt síðan mál þetta kom til hv. allshn. Ed., enda hefur það verið tekið þar til umræðu oftar en einu sinni og athugað gaumgæfilega. Niðurstaðan er sú, að n. leggur til einróma, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég býst ekki við, að ég þurfi að kynna efni frv. fyrir hv þm., því að þeir hafa það fyrir framan sig. En ástæðuna fyrir þessari niðurstöðu n. er fyrst og fremst að sjá í grg. frv. N. lítur svo á, að það geti ekki verið ríkinu óviðkomandi né það látið afskiptalaust, að þau bóka- og skjalasöfn, sem héraðsdómaraembættum tilheyra, séu í ótryggri geymslu, t. d. eldhættu. En vitanlega er engin trygging fyrir því, að svo geti ekki farið, eins og nú er ástatt. Það hefur t. d. átt sér stað, að skjalasafn sýslu nokkurrar brann fyrir skemmstu. Enn fremur getur staðið svo á, þegar nýskipaðir sýslumenn koma, að þeir fái ekki samastað. Ríkinu ber að sjálfsögðu að skerast í leikinn, þegar það veitir embætti, að embættismennirnir geti rækt störf sín og átt heima í því héraði, þar sem þeir eru yfirvald. Því hefur allshn. fallizt á rök þau, sem eru í grg. frv., og skal ekki frekar fjölyrt um það.

Nú má segja um þetta mál eins og mörg önnur, að svo geti farið, að þetta verði eingöngu pappírslög, að ríkið muni ekki geta staðið undir þeim kvöðum, sem á það eru lagðar. Ég skal játa, að ég er ekki sérlega bjartsýnn á það, að ríkið muni geta staðið við allar þær skuldbindingar, sem það hefur tekið á sig á þessu þingi. En ég sé ekki, að það geti haft þau áhrif, að það beri að fella frv. Þetta frv. á tvímælalaust eins mikinn rétt á sér og mörg önnur, sem kosta fjárframlög og þ. samþykkir þó. Það verður þá að fara eins og verða vill um framkvæmd þess. Það fer eftir getu ríkisins á hverjum tíma, en það breytir ekki réttmæti málsins, þótt svo kunni að fara, að ekki verði hægt að framkvæma það.

Þar sem frv. þetta fjallar um byggingu húsa fyrir opinbera starfsmenn, langar mig til að nota tækifærið og spyrja hæstv. ríkisstjórn um framkvæmd á annarri lagaheimild, er snertir byggingar. En hér er eins og vant er, að enginn ráðh. er viðstaddur, og verð ég þá að sleppa því, enda skal ég játa, að það kemur þessu máli ekki beinlínis við. Samt er það dálítið einkennilegt að vera að veita ríkisstj. hverja heimildina á fætur annarri sama eðlis, þegar hún hefur ekki einu sinni notað fyrri heimildir. Hér á ég við l. frá 1942 um þingmannabústað, og samkv. þeim er ríkinu skylt að reisa þingmannabústað, en meðan það kæmist ekki í framkvæmd var heimilað að leigja húsnæði handa utanbæjarþingmönnum. Það var ákveðið, að bústaður þessi skyldi byggður eða jafnvel keyptur. Ég, hefði viljað spyrjast fyrir um, hvað liði framkvæmd þess máls, en hér er enginn hæstv. ráðh. viðstaddur og er það orðið mjög bagalegt fyrir hv. d., að hér skuli aldrei vera hægt að beina fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., því að ráðh. eru ekki mættir, ekki einu sinni þeir, sem eiga sæti í hv. d. En ekki skal ég orðlengja þetta meir. Það er sem sé einróma álit n., að samþykkja beri þetta frv. óbreytt. Það er a. m. k. viljayfirlýsing af hálfu Alþ., en um framkvæmdir á hverjum tíma fer eftir getu ríkisins.