23.10.1945
Neðri deild: 15. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Hinn 16. júní 1941 samþykkti Alþingi svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa milliþinganefnd skólafróðra manna til þess að rannsaka kennslu- og uppeldismál þjóðarinnar og gera tillögur um skipun þeirra, þar sem stefnt sé að því að gera skólana sem hagfelldasta, samræma skólakerfið, ákveða betur en nú er starfssvið hinna ýmsu skóla og sambandið þeirra á milli.“

Í erindisbréfi n. segir, að hún eigi „að rannsaka kennslu- og uppeldismál þjóðarinnar og gera tillögur um skipun þeirra, þar sem stefnt sé að því að gera skólana sem hagfelldasta, samræma skólakerfið, ákveða betur en nú er starfssvið hinna ýmsu skóla og sambandið þeirra á milli.“ Í n. voru skipaðir: Jakob Kristinsson fræðslumálastjóri, form., Aðalbjörg Sigurðardóttir frú, Ármann Halldórsson skólastjóri, Ásmundur Guðmundsson prófessor, Ingimar Jónsson skólastjóri, Kristinn Ármannsson yfirkennari og Sigfús Sigurhjartarson. Skömmu síðar varð Jakob Kristinsson að láta af störfum í n., og varð þá Ásmundur Guðmundsson formaður hennar, en Helgi Elíasson tók sæti í n. í stað Jakobs Kristinssonar.

N. hefur samið 7 frv., og eru 4 þeirra á dagskrá í dag á Alþingi. Menntmrh. skrifaði menntmn. 9. okt. 1945 og sendi henni 4 frv. milliþn. í skólamálum. Enn fremur biður ráðuneytið að heimila menntmn. að flytja þessi frv. á Alþ. Meiri hluti n. taldi rétt að flytja þessi frv. nú, en einstakir flm. hafa þó óbundnar hendur. Var þetta talið réttara vegna þingstarfa, svo að einstakir menn hefðu aðstæður til að taka endanlega afstöðu til þessa máls. Meiri hl. n. vildi þannig greiða fyrir þingstörfum, og er til þess ætlazt, að samstarf menntmn. beggja deilda verði um frv. þessi. Enn fremur er þess að vænta, að fram komi 3 frv. í viðbót:

1) frv. um kennaramenntun.

2) — — húsmæðrafræðslu.

3) — — tilrauna- og æfingaskóla.

Frv., sem hér eru á dagskrá nú, eru öll mjög skyld. — Mér þykir hlýða að gera grein fyrir því, hvernig skólakerfið er hugsað, sem mþn. í skólamálum leggur til, að verði í framtíðinni. Hún leggur til, að skólum landsins verði skipt í 4 stig. Sérhvert próf í skólum þessum gefi rétt til framhaldsnáms eða einhvers starfa annaðhvort í iðn eða bóklegum efnum. Jafnframt sé greið gata frá einum skóla til annars og frá einu stigi til annars. Það er sem sé samræming, sem um er að ræða. Samkv. frv. er ráðgert, að skólaskylda barna hefjist þegar þau eru 7 ára, eins og nú er. N. er þó ljóst, að yngri börn en 7 ára þurfa á fræðslu að halda. N. taldi þó ekki tímabært að lögleiða skólaskyldu yngri barna á þessu stigi málsins. En ef bæjar- og sveitarfélög æskja þess, að skólaskyldu verði komið á meðal yngri barna, er lagt til, að þeim verði veittur styrkur til að standast þann kostnað. Hér er um að ræða styrk, en ekki skyldu. N. er einnig ljóst, að í framtíðinni mun skólaskylda barna hefjast fyrr en nú er, enda er það svo í flestum öðrum menningarlöndum.

Skólaskylda barna hefst, er þau eru 7 ára, en lýkur, er þau verða 13 ára, eða einu ári fyrr en nú er. Er þetta því ekki stórfelld breyting. Gert er ráð fyrir, að 10 ára börn taki sérstakt próf, er verði samræmt um allt land. Verði þá rannsökuð ýtarlega kunnátta barna í lestri, skrift og reikningi, svo að þau, sem næga kunnáttu hafa, geti fylgzt að í öðrum bekkjum. Þetta er að vísu nýjung, þó að líkt fyrirkomulag hafi tíðkazt undanfarið. Einnig má geta þess í sambandi við þetta mál, að forskólafyrirkomulagið mun hverfa með öllu, og er það mark, sem að er stefnt og allir eru sammála um.

Allir skólar, sem starfa á barnafræðslustigi, eru raunverulega einn skóli. Í þessu felst, að nám í barnaskólum á að vera samræmt. Nám í einum barnaskóla á að jafngilda námi í öllum öðrum barnaskólum. Þegar barnafræðslustiginu lýkur, hefst gagnfræðaskólastigið. Er það 4 ára stig og er einkum ætlað unglingum 13–17 ára. Það er hverju íslenzku barni skylt að hefja nám í gagnfræðaskóla og stunda þar nám a. m. k. í 2 ár. Er þá skólaskylda bara frá 7–15 ára í stað 7–14 ára. Ekki þótti fært að lögbjóða lengri skólaskyldu, þótt um það heyrist háar raddir. Hitt þótti réttara, að heimila einstökum sveitarfélögum að lengja skólaskyldu til 16 ára, og hefur hún þá lengzt um 2 ár frá því, sem nú er. Hér er á sama hátt um rétt sveitarfélaga að ræða, en ekki skyldur. Þeim er gefið tækifæri til að lengja skólaskylduna, sem er hin æskilega og eðlilega þróun.

Þá kem ég að gagnfræðaskólastiginu. Er það líkt og um barnaskólana, að gagnfræðaskólarnir eru hugsaðir sem einn skóli, eins og barnaskólarnir eru ein heild. Gagnfræðaskólarnir geta verið mislangir, en hverju barni er þó skylt að vera þar við nám í 2 ár. Heitir hann þá unglingaskóli og er miðað við að fullnægja þeirri skólaskyldu, sem til er lögð í frv. Hver sá nemandi, er lokið hefur unglingaprófi í gagnfræðaskóla, öðlast rétt til að ganga inn í 3. bekk í hvaða skóla sem er. Næstu 3 ár gagnfræðaskólanna nefnast miðskólar. Hver sem lokið hefur miðskólaprófi, hefur rétt til að halda áfram námi í hverjum 4 og 5 ára gagnfræðaskóla.

Nú þykir mér rétt að gera nánari grein fyrir gagnfræðaskólunum. Svo er til ætlazt, að skólum gagnfræðaskólastigsins sé frá upphafi skipt í 2 deildir, bóknámsdeild og verknámsdeild. Bóknámsdeildin veitir svipaða fræðslu og nú er í gagnfræðaskólum, veitir undirbúning undir kennara- og æðri menntun. Verður hún því hliðstæð menntaskólunum, sem nú eru. Verknámsdeildin leggur hins vegar áherzlu á hagnýtt nám. Námstímanum er skipt til helminga milli bóklegra og verklegra greina. Höfuðgreinarnar verði íslenzka og íslenzk fræði, en þar næst hagnýt fræði, eins og náttúruvísindi, eðlisfræði og stærðfræði. Að öðru leyti verður í skólunum fjölbreytt námsefni sem mest hagnýtt og reynt að taka tillit til hæfileika einstaklinganna. Þessar deildir eru nýmæli, en við héraðsskólana, sem nú eru, má segja, að gerðar hafi verið tilraunir í þessa átt. Verknámsdeildin hefur aðallega verið sniðin eftir sænskri fyrirmynd: — Sérstök áherzla hefur verið lögð á að gera nemendum kleift að flytjast á milli deilda, úr bóknámsdeild í verknámsdeild. Það er ekki við því að búast, að 14 ára unglingar geti valið sér rétt námsefni, jafnvel þótt kennarinn leiðbeini þeim, og er því oftast eðlilegt, að nemendur óski að snúa við. Það er því skylda að hafa skólana þannig, að nemendum sé kleift að fara á milli deilda.

Hvaða réttindi veitir þá gagnfræðaskólastigið? 1) Unglingaskólaprófið veitir réttindi til framhaldsnáms. N. lítur svo á, að skólaskyldan verði lengd til 16 ára aldurs, og væntir þess, að sveitarfélögin noti þá heimild, sem veitt er í frv. þessu til þess að lengja skólaskylduna. 2) Miðskólaprófið, sem jafnframt er höfuðpróf barna á gagnfræðaskólastiginu, markar tímamót í námsferlinum. Gert er ráð fyrir, að próf þetta verði landspróf, samtímis alls staðar, sömu verkefni og sömu prófdómendur. — Hvert liggja leiðir manna úr bóknámsdeild? mun nú einhver spyrja. Þær liggja inn í menntaskóla, kennaraskóla og einnig ýmsa sérskóla, t. d. verzlunarskóla. Úr verknámsdeild munu menn fara í sjómannaskóla, búnaðarskóla og iðnaðarskóla. Sem sé, það fólk, sem ætlar sér að hverfa að framleiðslustörfum, lýkur þó námi sínu í sérskólum. 3) Leiðin liggur inn í 4. bekk gagnfræðaskólanna, sem er síðasti bekkur gagnfræðastigsins, og er ætlazt til, að í þeim bekk geti verið kennsla með frjálsara sniði, þar sem svo mætti taka tillit til óska og hæfileika nemenda, og að þar mætti búa þá undir hin ýmsu störf, sem þeir þá teldu líklegt, að þeir stunduðu. Með þeim réttindum, sem slíkt próf veitir, er á þessu stigi málsins ekki hægt að leggja neitt ákveðið til. En á það má benda, að okkur þykir vel til fallið, að krafizt verði ekki minni menntunar til ýmissa opinberra starfsmanna en gagnfræðaprófs. Ég nefni sem dæmi starfsmenn í opinberum skrifstofum, lögregluþjóna, bílstjóra á áætlunarbílum o. fl. o. fl., þannig að ætlazt er til, að þetta gagnfræðapróf búi þá undir hin ýmsu störf í þjóðfélaginu, sem krefjast góðrar almennrar menntunar, en ekki sérmenntunar. — öllu meira tel ég ekki þörf að taka fram um eðli gagnfræðaprófs.

Þá vík ég nokkrum orðum að framhaldinu. Framhaldið er menntaskólar og kennaraskólar, sem ég nefni fyrst. Samkv. till. mþn. er gert ráð fyrir, að þessir skólar verði fjögurra ára skólar og gert að inntökuskilyrði bóknámspróf við gagnfræðaskóla, þ. e. a. s., það er lagt til, að gagnfræðapróf hverfi frá þessum skólum, að gagnfræðadeild þeirra verði lögð niður, en að allir skólar gagnfræðastigsins bæði í sveitum og við sjávarsíðuna fái rétt til þess að láta menn þreyta inntökupróf í menntaskóla, hver heima hjá sér. Um menntaskólann skal ég ekki ræða meir né um kennaraskólann, en aðeins geta þess, að eitt af því, sem ætlazt er til, er að gera menntaskólann og kennaraskólann að enn hliðstæðari stofnunum en áður hefur verið. Það er lagt til, að kennarapróf gildi sem stúdentspróf, þ. e. a. s., að nemandi, sem lokið hefur prófi frá kennaraskólanum, þurfi til þess að öðlast fullt stúdentspróf ekki að taka próf nema í sumum námsgreinum við menntaskólann, t. d. í íslenzku og íslenzkum fræðum. Á sama hátt mundu stúdentar frá menntaskólanum fá réttindi sem kennarar með því að taka nokkurt viðbótarpróf í þeim sérstöku kennarafræðum. En eins og ég gat um áðan, er það eitt af hinum almennu verkum, sem menntmn. á ólokið, að endurskoða löggjöf sérskólanna. Með þessu frv. er eindregið lagt til, að allir sérskólar í landinu, búnaðarskólar, iðnskólar, verzlunarskólar, sjómannaskólar o. fl., geri miðskólapróf að inntökuskilyrði, þannig að þessir sérskólar geti meir en nú er snúið sér að sérgreinum sínum, en fáist minna við hinar almennu námsgreinar.

Húsmæðraskólarnir koma og á þetta stig, en verða eðlilega fyrst um sinn að fylgja núgildandi reglugerð um þá, að allir, sem lokið hafa lögboðnu barnaskólaprófi, geti tekið sæti í þeim skólum. Ég ætla, að það verði millibilsástand og brátt muni koma að því, að fræðsluskyldualdur verði kominn upp í 16 ár, og verða þá inntökuskilyrðin, að nemandi hafi lokið miðskólaprófi.

Þá kem ég að 4. og síðasta stigi skólakerfisins, sem er Háskóli Íslands. Um hann hefur n. ekki enn samið neinar ákveðnar till., og þarf ég því ekki að verða um hann margorður. Ég vil aðeins geta þess, að í frv. um kennararéttindi er gert ráð fyrir, að ein deild verði stofnuð við háskólann, sem hafi með höndum kennslu í uppeldis- og kennslufræðum og veiti kennarapróf eitt inngöngu í þá deild.

Ég ætla, að ekki sé ástæða til þess á þessu stigi málsins að lýsa því skólakerfi, sem hér er lagt til í frv. að lögfest verði, öllu nánar. Þó kemur mér í hug, að ég verði um það spurður, hvaða stöðu héraðsskólarnir fái í þessu skólakerfi. Það er ætlazt til, að þeir verði tveggja ára skólar, og nám í þeim jafngildir námi í tveimur efstu bekkjum gagnfræðaskóla. En mér þykir sennilegt, að í sveitum landsins hljóti þróunin að verða sú, að skyldunámi verði lokið í beinu sambandi við barnaskóla, þ. e. a. s., að unglingaskólarnir starfi víðast í sömu húsakynnum og njóti víða sömu kennslukrafta og barnaskólarnir. Þegar lokið er skyldunámi í þessum skólum, er ætlazt til þess, að leiðin liggi inn í núverandi héraðsskóla fyrir þá, sem vilja nota sveitaskólana, og þeir svari til 3. og 4. bekkjar gagnfræðastigsins og veiti bæði miðskóla- og fullkomið gagnfræðapróf.

Það hefur komið fram hjá mörgum skólamönnum, og má vera, að þeir hafi rétt fyrir sér, að naumast yrði hægt að ljúka slíku námi í héraðsskólum á tveimur árum nema með því að lengja árlega kennslutímann meir en hægt er. Og virðist þá ekkert til fyrirstöðu, að þar verði þessu námi lokið á þremur árum, og sú löggjöf, sem hér liggur fyrir, hindrar á engan hátt það fyrirkomulag. Aðalatriðið er, að þeir annist efsta stig miðskólanna og veiti gagnfræða- og miðskólapróf.

Ég vil taka það fram, að ég tel ekki, að með þessum frv., sem fyrir liggja, sé um neina stórfellda byltingu að ræða í skólamálum okkar. Það er miklu fremur að ræða um framhaldsþróun og staðfesting á þróun, sem orðin er, og enn fremur um það, að opnaðir séu möguleikar til framhaldandi þróunar. Ef litið er yfir skólamálasögu okkar, er ljóst, að þannig hefur framvindan í raun og veru alltaf orðið. Hin tvö merkustu spor, sem stigin hafa verið í skólamálum okkar til þessa, tel ég hafa verið setning fræðslul. frá 1907 og setning l. um Kennaraskóla Íslands sama ár. En það, sem þá var gert, var að miklu leyti staðfesting á þróun, sem þegar hafði átt sér stað og enn fremur hafði gefið tækifæri til framhaldandi þróunar á þessu sviði. Þar næst kemur svo á þessari sömu braut setning 1. um héraðsskóla 1929 og l. um gagnfræðaskóla í kaupstöðum 1930. Þessar till., sem gerðar eru með þessum frv., ættu að stuðla að því að auðvelda það starf og gefa möguleika fyrir því, að haldið verði áfram að bæta skólakerfið innan þess ramma, sem þar er lagt til.

Ég tel ekki ástæðu til þess, að lokinni þessari umr., að vísa málinu til n. Það er flutt af n. með þeirri yfirlýsingu, að hún muni taka það til mjög rækilegrar athugunar að þessari umr. lokinni, og að ætlazt sé til þess, að samstarf verði milli menntmn. beggja d. um það. Ég hef því síðasta aðeins þá ósk fram að bera, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. Og ég vil geta þess, að um leið og ég hef gert hér nokkra grein fyrir frv. til l. um skólakerfi og fræðsluskyldu, hef ég rætt um það á sama grundvelli og hin frv. hvíla á. Ég mun því ekki sjá ástæðu til fyrir hönd menntmn. að ræða þau sérstaklega, því að umr. frekar um þau hljóta að eiga heima við síðari stig málsins, 2. og 3. umr.