29.11.1945
Neðri deild: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Frsm. (Gunnar Thoroddsen) :

Hv. þm. A.-Sk. flutti í menntmn. fyrst till. um það, að skólaskyldualdur yrði óbreyttur frá því, sem nú er, 7–14 ár, en þó yrði, eins og í frv., gert ráð fyrir heimild fyrir sveitarfélög, með samþykki fræðslumálastjóra, til að ákveða skólaskyldualdur til 15–16 ára. Meiri hl. menntmn. gat ekki fallizt á þetta, og flutti þá hv. þm. A.-Sk. till. þá, sem fyrir liggur, um að ákveða að vísu fræðsluskyldu til 15 ára, en heimila þó fræðsluráði að ákveða, að fræðsluskylda nái aðeins til 14 ára aldurs, ef hlutaðeigandi skólanefnd óskar þess. Meiri hl. n. hefur ekki getað fallizt á þessa röksemd, og vildi ég með nokkrum orðum skýra, hvernig á því stendur. Ég held, að það hafi verið einróma álit mþn. og meiri hl. menntmn. þessarar d., að stefna bæri að því að styðja betur unglingafræðsluna en nú er gert og tryggja það þar með, að hver og einn unglingur í landinu fengi betri menntun en verið hefur að undanförnu, og af þeim ástæðum var farið út á þessa braut, að hækka fræðsluskyldualdurinn um eitt ár. Ef hins vegar farið yrði út á þá braut að gera þetta aðeins að heimild, þá er allsendis óvíst, hvernig það yrði í framkvæmd í ýmsum héruðum. Að vísu vil ég taka það fram, eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, að þróunin virðist benda í þá átt, að allur meginþorri unglinga njóti framhaldsnáms án þess að lagaboð komi til, en við teljum, að hitt sé þó öruggara, að til þess að geta veitt almenningi meiri og öruggari menntun sé þetta gert að skyldu. Hv. þm. vildi benda á, að það væri rétt að byggja þetta á þeim vilja, sem fyrir hendi væri á hverjum stað, og láta því yfirstjórn skólamála á hverjum stað ráða þessu. Þetta er einmitt það, sem löggjafinn hefur ekki viljað fallast á áður. Löggjafinn hefur einmitt ákveðið skólaskylduna um allt land án tillits til þess, hvort ein einstök skólanefnd teldi þörf á skólaskyldu í miklu smærri mæli en nú er, og það er auðvitað vegna þess, að löggjafinn hefur litið svo á, að menntun þjóðarinnar væri svo stórkostlegt mál, að það yrði að lögbjóða sérstakt lágmark, sem hver maður ætti að hljóta að menntun, það gæti ekki farið eftir vilja einstakra skólanefnda eða fræðsluráða. Nú er í frv., eins og er í gildandi l., undanþáguheimild fyrir sveitirnar til að ákveða, að skólaskyldan hefjist ekki fyrr en um 10 ára aldur, það er í frv. um fræðslu barna. En til þess að veita þá undanþágu er skilyrðislaust nauðsynlegt að fræðslumálastjórnin samþ. það, þ. e. 3. gr. frv. um fræðslu barna, en alls ekki ætlazt til þess, að skólan. hafi það á sínu valdi að samþ. það. Ef ætti að ganga inn á þá hugsun, sem vakir fyrir hv. þm. A.-Sk., væri nær að veita undanþáguheimild um unglinga á síðasta aldursári með samþykki fræðslumálastjórnar. Hitt er ógerlegt, að láta það í hendur skólan. og fræðsluráðs á hverjum stað. Ég vil benda á það, að mþn. í skólamálum leitaði sér upplýsinga og álits hjá kennurum, skólastjórum og skólanefndum um land allt bæði um það, á hvaða aldursári þeir teldu, að skólaskyldualdurinn ætti að byrja, og einnig hvar ætti að enda. Þetta álit liggur nú fyrir í grg. fyrir þessu frv., sem hér er til umr., og þar kemur það fram, að meginþorrinn af öllum þessum skólastjórum og skólan. hefur lagt til, að fræðsluskyldan yrði ekki lægri en til 15–16 ára. Það eru aðeins örfáir, sem vildu binda skólaskyldualdurinn til 14–15 ára, og enginn við 14 ára aldur. Sumir lögðu til, að miðað væri við 15 ára aldur, aðrir 15–16 og 16 ára. Þeir, sem lögðu eitthvað af þessu til, eru 112 af 126 kennurum, en að því er skólan. snertir, 632/3 af 74. Hér virðist farið eftir vilja fólksins. Þar hefur yfirgnæfandi meiri hl. þessara manna óskað eftir því, að skólaskylda yrði ekki miðuð við lægri aldur en 15 ára.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta öllu frekar, en vildi aðeins láta fram koma þær ástæður, sem legið hafa til grundvallar því, að ekki var hægt að ganga inn á till. hv. þm. A.-Sk. í nefndinni.