30.11.1945
Neðri deild: 46. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hv. frsm. menntmn., hv. þm. Snæf. (GTh), hefur fjarvistarleyfi. Ég vil þess vegna svara með örfáum orðum vinsamlegum aths., sem fram komu frá hv. þm. V.-Húnv. (SkG) á þingfundi í gær. Hv. þm. lét þess getið, að sér virtist ekki ljóst af frv., hvaða rétt þeir menn öðluðust, sem lykju verknámsdeildarprófi. Hins vegar var það skýrt fram tekið í 4. gr. frv., að aðeins próf úr bóknámsdeild veiti rétt til inngöngu í menntaskóla og aðra framhaldsskóla. Ég skal taka það fram, að fyrir þeirri n:, sem samdi þetta frv., vakir, að verknámsdeildin veiti engu síður réttindi en bóknámsdeildin. Það vakir einnig fyrir þeirri n., að próf úr verknámsdeild verði inntökupróf betri í búnaðarskóla, iðnskóla og sjómannaskóla, í þá skóla, sem beina nemendunum á brautina til starfa úti í framleiðslunni, að atvinnuvegum þjóðarinnar. Það er vissulega okkar meining, að að því verði stefnt, að allir hafi þennan rétt og að sá heilbrigði skilningur haldist, að það sé ekki síður framabraut og vænlegt til frama, er leiðir menn til þátttöku í framleiðslustarfi við atvinnuvegi þjóðarinnar, heldur en að menn leiti hans eftir öðrum leiðum. Ég viðurkenni, að eins og gr. er orðuð, gæti þetta ákvæði valdið misskilningi, og vil ég lýsa yfir því, að ég mun leggja til í menntmn., að við 3. umr. verði flutt brtt. við 4. gr. um, að niður falli orðin: „Þó veitir aðeins próf úr bóknámsdeild rétt til inngöngu í menntaskóla og aðra sambærilega skóla.“ Þessi orð eiga ekki þarna heima, því að þau gætu bent til þess, að bóknámsdeildin væri sett skör hærra en verknámsdeildin. Þetta ákvæði á heima og er í frv. um menntaskóla. Alveg á sama hátt gæti í l. um iðnskóla átt við, að tekið væri fram, að verknámsdeildarpróf gætu veitt inngöngu í þá skóla. Sem sagt, ég lýsi yfir því, að ég mun leggja til í n., að þessi setning falli niður, og vænti ég, að það fullnægi þeirri meginathugasemd, sem fram kom frá hv. þm. V.-Húnv.