20.02.1946
Efri deild: 68. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengi, það eru aðeins örfá orð. Ég vil taka undir það, að málinu verði frestað og að n. athugi það betur. Það er sýnilegt á nál., að n. hefur ekki athugað málið vel. Nú eru að koma fram allvíðtækar brtt. frá minni hl. n., en mjög er erfitt að átta sig á þeim við fljótan yfirlestur. Ég tel óþarft að vísa málinu formlega aftur til n., en ef því er frestað, þá liggur í hlutarins eðli, að n. ber að taka brtt. til athugunar. Ég álít þetta merkilegt mál, og ég fellst ekki á, að það sé eins byltingakennt og kommúnistiskt og hv. seinasti ræðumaður hélt fram. Mér virðist málið ganga í sömu átt og þróunin hefur verið undanfarið. Í margar aldir var það svo, að æðri menntun og alþýðumenntun voru aðskildar. Sérstakan undirbúning þurfti til að komast inn í latínuskólann. Árið 1904 eða 1905 var það ákveðið, að samband skyldi vera milli gagnfræðaskólans norðlenzka og menntaskólans hér og lægri bekkjunum væri breytt í gagnfræðaskóla. Þessi breyting gekk í sömu átt og þetta frv., að gera mönnum kleift að koma frá alþýðumenntun inn í menntaskóla.

Hv. seinasti ræðumaður minntist einkum á einn mann hér áðan, Hannes Hafstein. Ungur hefur hann byrjað á námi, þótt hann hafi ekki gengið í barnaskóla. 12 ára kom hann í latínuskólann og 18 ára varð hann stúdent, en ég held hann sé ekki dæmi um menn, sem eru eyðilagðir á námi á unga aldri.

Þótt ég telji þetta frv. merkilegt, raskar það í engu því, sem ég sagði áðan, að athugun þessa máls í nefnd hafi verið í minna lagi. — Mér finnst mikilsvert, að áður en ég greiði atkv. fái ég að sjá tillögur hv. þm. S.-Þ. Ég vil undirstrika það, að málið verði tekið af dagskrá.