26.02.1946
Efri deild: 72. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Magnús Jónsson:

Þeir hv. þm., sem hér hafa nú talað, eiga hálferfitt með að færa ástæðu fyrir því, sem þeir eru að fara fram á. Málið liggur hér fyrir — og eins og hv. síðasti ræðumaður sagði — er búið að liggja lengi fyrir. N. hefur skilað áliti, og þá geta hv. þm. starfað að málinu, haldið ræður og borið fram brtt. eins og þeir vilja, en að n. þurfi aftur að halda fundi um málið, er algerlega ástæðulaust. Annars mætti fara þannig með hvert einasta mál, að heimtað yrði, að n. héldi áfram að starfa að því, ef brtt. er borin fram við það. Ég veit, að hv. 6. þm. Reykv. sér, að þannig vinnubrögð á Alþ. yrðu til þess, að hægt yrði alveg að stöðva mál. Hins vegar vil ég þakka fyrir það traust, sem n. hefur verið sýnt, að svo virðist, sem hv. þm. S.-Þ. geti ekki tekið afstöðu til sinna eigin brtt. og álíti, að ekki sé hægt að taka málið fyrir fyrr en n. hefur fjallað um það, og ef ég má ráðleggja hv. þm., þá vil ég ráðleggja honum að vera á móti brtt. sínum, því að þær eru til þess að eyðileggja málið algerlega.

Hitt er svo annað mál, sem hv. 6. þm. Reykv., var að tala um, að hann hefði ekki getað fengið svar við því, hvaða þýðingu samþykkt þessa frv. hefði. Ef frv. verður samþ., verða skólarnir að falla undir þetta kerfi, þar á meðal skólar hv. þm. S.-Þ., héraðsskólarnir. Frv. er í hæsta máta raunverulegt. Annars var þetta nú um málið, þó að við eigum hér að vera að ræða um þingsköp. Hér er m. a. haft á móti, að n. eigi að segja hv. þm. fyrir um málin, en ég er ekki í nokkrum vafa um, að hv. 6. þm. Reykv. veit alveg, um hvað málið er. Þetta er, eins og ég hef kallað það, skipulagsuppdráttur. Ég álít, að nauðsynlegt sé að afgreiða það nú, um leið og frv. um gagnfræðanámið og frv. um barnafræðsluna. En ef einhverjum hv. þm. finnst frv. þýðingarlaust, þá geta þeir þó gert það fyrir hina, sem telja það einhvers virði, að samþ. það. Ef aðrar till. koma svo fram, þá er auðvitað ekki nema sjálfsagt, að n. athugi þær.