04.03.1946
Efri deild: 76. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

28. mál, skólakerfi og fræðsluskylda

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason) :

Ég heyri, að hv. n. hefur ekki svarað þessu, hvort hún vill fallast á að fresta málinu einu sinni enn. Málinu hefur verið margsinnis frestað, þannig að mér virðist ekki ástæða til annars en málið geti gengið til 3. umr. Ef hv. þm. Barð. er með brtt., þá má taka þær til meðferðar við 3. umr. Eða er hv. þm. ekki sammála? (GJ: Jú). Það er kannske ekki ástæða til að ræða þær brtt., sem hv. þm. var að skýra frá, að hann ætlaði að bera fram, þar sem þær koma seinna.

Varðandi skólaskylduna í sveitum er það að segja, að skólaskyldan eins og frv. er nú er ekki lengri en til 14 ára aldurs, nema ef viðkomandi fræðsluráð ákveður það sjálft í samráði við fræðslumálastjórn. Ég hefði heldur óskað, að þetta ákvæði væri ekki í frv., en ég hef sætt mig við það. Hins vegar er það eitt aðalatriði þessa frv., að lengja skólaskyldualdurinn til 15 ára aldurs, og stendur það í sambandi við aðalkerfið, þar sem skólaskyldualdur barna nær ekki nema til 13 ára, en þá tekur við gagnfræðastig og er 2 ár sem skylda. Það hafa verið færð ítarleg rök hér á Alþ., og í grg. frá n. fyrir nauðsyn þessarar skólaskyldu. Það er ekki ástæða til að ræða nánar um það. En hvað snertir fjárhaginn, þá er því til að svara, að hér er aðeins um að ræða skyldu fyrir einn árgang til viðbótar, þar sem annar árgangurinn færist úr barnaskólastigi í gagnfræðastig. Og hvað snertir þá mótbáru, að ekki þýði að auka skólaskyldualdurinn meir en skilyrði leyfa, meir en skammtað er af ríkinu til að reisa skólahús, þá er það svo, að þegar skólaskyldan var fyrst lögleidd hér á Alþ., þá var fjarri því, að til væru nægir skólar til að fullnægja þeim lagaákvæðum. En þegar búið er að samþ. þetta, þá ber ríkinu skylda til að láta reisa þessa skóla eins fljótt og auðið er. L. kveða aðeins á um það, að hér sé um skyldu að ræða af hálfu ríkisins vegna nauðsynjar þjóðfélagsins. Ég held það sé misskilningur, að það skipti miklu máli, hvenær l. ganga í gildi, út frá því sjónarmiði, að áður þurfi að fá gerða grein fyrir því, hvaða skóla þurfi að byggja. Það hefur verið gerð nokkur áætlun af n. um, hvaða skólar væru nauðsynlegir á næstu árum. Og út af fyrir sig skiptir það í raun og veru engu máli, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki, því að nauðsynin fyrir byggingu skóla er eins rík og áður. Þessi áætlun er í grg. frá hv. n. í frv. um gagnfræðanám. Þar er gert ráð fyrir 21 gagnfræðahéraði, 9 í kaupstöðum og 12 í sýslum. Nú er það svo, að 4 kaupstaðir þurfa ekki aukið húsrúm í bráð, en hina 5 vantar hús, og það vantar, hvort sem þetta frv. nær samþykki eða ekki. Hvað héraðsskólana snertir, þá koma þeir til með að falla inn í kerfið, 6 eru fyrir og 2 eru ákveðnir með l., svo að við þurfa að bætast 4 skólar, sem reisa þarf í sýslunum. Sú áætlun, sem n. hefur gert um nemendafjölda, er þannig, að það vantar skólahús fyrir 3000 nemendur. Það svarar til um 100 skólastofna, sem þýðir, að það þurfi að verja til þessa um 15 millj. kr. og kæmi þá í hlut ríkissjóðs 9 millj. kr. Aðra áætlun er í augnablikinu ekki hægt að gera. Og það skiptir ekki miklu máli, hvenær l. taka gildi, því að hér er um þörf að ræða, sem er jafnbrýn, hvort sem l. taka gildi eða ekki. Hins vegar liggur fyrir áætlun um það, hvað þetta muni kosta ríkissjóð í auknum rekstrarkostnaði, en það hefur verið skýrt í framsöguræðu.