20.03.1946
Efri deild: 88. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

128. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Bjarni Benediktsson:

Ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur, sem hér hafa farið fram. En ég taldi rangt að láta þetta mál ganga fram án þess að nokkur efi kæmi fram um það, að hér væri stigið spor í rétta átt. Þetta frv. mun hið fyrsta í lagabálki, sem á að fjalla um að byggja hafnir víðs vegar um landið, þar sem fólk býr nú ekki. Ég hefði talið eðlilegra að verja fé til þess að ljúka hafnarmannvirkjum á þeim stöðum, sem frá fornu fari hafa reynzt lífvænlegastir. Svo að ákveðin dæmi séu til nefnd í þessu sambandi, þá tel ég, að skynsamlegra hefði verið af ríkinu að styðja Reykjavík og Hafnarfjörð til að ljúka bátahöfnum, sem þar eru ófullgerðar. Þetta er gert fyrir miklu minna fé, en kemur þó miklu fleiri mönnum til góðs en orðið getur samkv. því frv., sem hér liggur fyrir. Reyndin hefur orðið sú, að til Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akraness hefur fólkið þyrpzt, því að hér hefur aðstaðan verið bezt til þess að skapa lífvænleg kjör. Og það er a. m. k. vitað um Reykjavík og ætti að gilda sama um hina staðina, að hér er komið svo margt fólk, að ef ekki verða gerðar frekari ráðstafanir en fram að þessu, þá er viðbúið, að vandræði skapist, þegar veltutími sá, sem stríðinu er samfara, líður hjá. Ég er ekki í vafa um það, að farsælasta leiðin er að ljúka við fullkomna bátahöfn hér í staðinn fyrir að taka upp þá stefnu, sem ráðgert er í þessu frv. Ég hef látið þá skoðun uppi á öðrum vettvangi, þegar þetta frv. var til undirbúnings, en hún fékk ekki neinn hljómgrunn þar, og ég geri ekki ráð fyrir, að hún fái hljómgrunn hér. Ég ætla ekki heldur að hefja um þetta deilur. Ég geri ráð fyrir, að frv. gangi örugglega fram, og út af fyrir sig hef ég ekki löngun til að leggja stein í götu þess. En ég vil láta þessa rödd koma fram hér. Ég álít, að hér sé verið að misstíga sig og byrjað á öfugum enda. Út af fyrir sig er æskilegt að fá höfn þarna suður frá, en þó liggur meira á því að búa atvinnulífinu skilyrði til vaxtar á þeim stöðum, sem fólkið dvelur á í tugþúsundum nú þegar. Þess vegna held ég það væri nær að leggja kapp á það með ríkisframlögum og ábyrgð að ljúka við hafnarmannvirki í Reykjavík en taka upp þá stefnu, sem hér er í þessu frv. Og manni sýnist sama einnig um það hafnarfrv., sem afgr. var hér á dögunum, þar sem ætlun manna var að útiloka Reykjavík frá þátttöku í styrkjum samkv. því frv. Það getur skeð, að það mælist vel fyrir í bili, en áreiðanlegt er, að hér er verið á rangri braut. Og væntanlega átta menn sig áður en miklu fé er varið til lítils gagns, ekki aðeins þarna, heldur á öðrum útkjálkastöðum, en fólkið aftur á móti látið vera án nægilegra framkvæmda þar, sem meiri hluti þess hefur nú þegar safnazt saman.