26.11.1945
Efri deild: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eins og tekið er fram í frv. á þskj. 21, er það flutt samkv. ósk hæstv. samgmrh. og flutt af sjútvn. þessarar hv. d. Við framsögu, þegar málið var flutt hér í d., var þess getið, að n. hefði ekki haft tækifæri til að athuga málið gaumgæfilega og óskaði því eftir, að það kæmi aftur til n. til athugunar, og hefur sú athugun nú farið fram. N. hefur haldið um þetta mál ekki minna en 8 fundi og rætt það ýtarlega frá öllum hliðum. Það kom strax í ljós, þótt lítið væri breytt út af frá núverandi hafnarl., að það var ýmislegt, sem þurfti að samræma, þegar þessi l. komu öll í einn lagabálk.

Þetta frv., eins og það kemur fram á þskj. 21, er samið af mþn. í sjávarútvegsmálum, og ber brýna nauðsyn til þess, að málið nái fram að ganga á þessu þingi, til þess að fyrirbyggja allan þann fjölda af lendingar- og hafnarbótafrv., sem drífur að á hverju þingi. Þess er því að vænta, að þessu máli verði hraðað svo, að það geti fengið afgreiðslu áður en þessu þingi er lokið. Sjútvn. hefur gert nokkrar breyt. á frv. eins og sést á þskj. 193, en þó er þetta meira til lagfæringar og samræmingar en að það séu raunverulegar efnisbreytingar.

Skal ég nú fara nokkrum orðum um hverja breyt. fyrir sig. Fyrsta breyt., sem kannske er veigamest, er það, að n. leggur til, að aðeins séu hafðir 2 flokkar í staðinn fyrir 3 í frv. Fyrsti flokkur í hafnarl. er þannig, að ríkissjóður leggur fram 1/3, í 2. flokki 2/5 og í 3. flokki ½. Nú skiptist þetta á sínum tíma þannig, að 1/3 var aðeins ætlaður kaupstöðum. Alþ. sjálft hefur brotið þessa reglu og farið inn á að veita kaupstöðum 2/5, þ. e. Akranesi, Neskaupstað og Ólafsfirði. Að vísu hefur verið veitt 2/5 til þessara staða áður en þeir urðu kaupstaðir, en síðan hefur farið fram hækkun og hlutfallið látið halda sér eins og það var áður. N. telur ekki rétt að binda framlagið við það, hvort staðurinn er kaupstaður eða eitthvað annað, það sé um svo fáa staði að ræða, að það sé rétt að hafa aðeins 2 flokka og halda sig við 2/5, enda munar þetta ríkissjóð ekki miklu, þótt farið verði inn á þá leið, og alls engu, ef samþ. verða aðrar brtt., sem n. leggur til, að verði samþ. í sambandi við þetta frv. Með þessum till. raskast að sjálfsögðu einnig flokkunin nokkuð frá frv., eins og sést hér á 2. gr. Þar er bætt við undir a-lið öllum þeim höfnum, sem voru undir b-lið í frv., og nokkrum öðrum höfnum, sem fluttar hafa verið til úr c-lið frv., og skal ég koma að þeim. Borgarnes er flutt úr c-lið frv., þar sem það átti að fá helming, yfir í flokk, sem ætlazt er til, að fái 2/5. N. lítur svo á, að ef Borgarnes ætti að takast upp í helmingsframlag, þá ætti einnig að taka marga aðra staði, sem nú eru flokkaðir undir a-lið á þskj. 193, svo sem ýmsa staði á Vesturlandi og Austurlandi, og telur, að það mundi verða til þess, að þeir menn, sem gæta hagsmuna þessara staða, gerðu till. um að færa þessa staði inn á helmingsflokkinn, auk þess sem í Borgarnesi mun vera búið að gera svo mikið að hafnarbótum, að ekki er ástæða til þess, að það fari upp í þennan flokk. Það er sama með Hólmavík. N. getur ekki fallizt á, að sérstök ástæða sé til að hafa Hólmavík í lendingarbótaflokki, heldur flytur hana upp í a-flokk á þskj. 193, því að þar mun vera um líka aðstöðu að ræða og hjá fleiri höfnum, sem settar hafa verið í þennan flokk, en voru í b-flokki frv. á þskj. 21. Þriðji staðurinn er Höfn í Hornafirði. Hann er í frv. í flokki lendingarbóta. Sjútvn. álítur, að hann eigi einnig að fara í a-flokk í frv., eins og ætlazt er til, að það verði, með tilliti til þess, að hér er um stórvægilegar framkvæmdir að ræða, og telur, að þær framkvæmdir verði ekki gerðar með venjulegum ákvæðum um lendingarbætur, heldur verði að gera sérstakar ráðstafanir til slíkra framkvæmda, og þar til það sé gert, eigi þessi höfn að vera í þeim flokki. Hið sama er að segja um Ingólfsfjörð á Ströndum. Um hann munu raunverulega engin l. vera til, eins og er, en þar er komin upp hafskipabryggja, að vísu í einkaeign, en ekki er búizt við, að þar þurfi sérstök átök til að koma upp hafnarmannvirkjum. Þess vegna er eðlilegt, að hann verði einnig settur í a-flokk. Það hefði einnig verið raunverulega rétt að setja Þorlákshöfn í þennan flokk, en hún er eins og stendur nú í lendingarbótal., og það þótti ekki rétt að færa hana þaðan að svo stöddu, fyrr en vitað væri, hvað yrði gert um þann stað, enda kemur það af sjálfu sér, ef síðasta till. n. verður samþ., eins og lagt er til í þessu nál. Það hafa hins vegar verið teknar upp í þennan flokk allar þær till., sem liggja fyrir nú á Alþ. frá hinum ýmsu þm., eins og þeir hafa flokkað þær sjálfir í frv. sínum. Þó vil ég geta þess, að síðan frv. kom úr n., hefur verið minnzt á það við mig, að það þyrfti að bæta inn í b-lið einni höfn, Salthólmavík, og mun n. taka þetta til athugunar fyrir 3. umr. Ég vil minnast á það, áður en ég fer lengra út í þetta mál, að við 1. gr. er ætlazt til, að komi brtt. undir a-lið, en þetta er aðeins umritun á orðalagi, sem breytir ekki í neinu efni sjálfs frv. B-liður er ætlazt til að breytist þannig, að það sé ekki gert að skilyrði við lántöku, að lán sé tekið gegnum Landsbankann, vegna þess að reynslan hefur sýnt, að erlend fyrirtæki hafa byggt hér hafnir og lánað til þess fé, en hafa miðað viðskipti sín við aðra banka en Landsbankann. Ef það er bundið í l., að þessi viðskipti skuli fara gegnum Landsbankann, yrði að greiða honum aukakostnað fyrir að vera milliliður. Þetta er óþarfa milliliður, þegar þannig stendur á. N. hefur því lagt til, að þessu verði breytt þannig, að ef slík lán eru tekin erlendis, skuli það gert í samráði við ráðuneytið, og er óheimilt að leita eftir slíku láni, nema samþykki ráðuneytisins komi til. En það er þess vegna, að þetta hefur komið inn, að fyrr á tímum mun það hafa skeð, að einstaklingar hafi leitað eftir lánum og félög, með ábyrgð ríkissjóðs, og er það óþægilegt og óviðeigandi, og hygg ég, að ef þessi brtt. yrði samþ., þá nái það tilgangi sínum, án þess að íþyngja í útgjöldum viðkomandi höfnum. Við a-lið er ætlazt til, að bætt sé þurrkvíum, krönum og innsiglingarmerkjum. Það eru þessi þrjú verkfæri, sem ætlazt er til, að styrkur nái til. Það er sjálfsagt, að styrkur nái til þurrkvía. Hefur það verið sett inn í hafnarl. fyrir Reykjavík, að hann skuli ná til þurrkvía, og þá er einnig sjálfsagt, að hann nái til krana, sem eru mikið notaðir við hafnarmannvirki. Við skulum hugsa okkur, að eitthvert hafnarmannvirki láti vinna fyrir eina millj. kr., þá er eðlilegt, að það mætti nota þetta fé, bæði lánið og styrkinn, til þess að kaupa fyrir verkfæri, sem nota á við bygginguna, og mundi það að sjálfsögðu gera bygginguna miklu ódýrari. Svo eru innsiglingarmerki, meðal annars á hafnargarða, sem er sjálfsagt, að styrkurinn nái einnig til. Ef, höfnin lætur gera slík innsiglingarmerki, er sjálfsagt, að ríkissjóður byggi þau eins og hverja aðra vita.

Svo er hér einnig nýr liður við 2. gr., svo hljóðandi: „Fari heildarkostnaðaráætlun lendingarbóta, sem hér eftir verða gerðar á einhverjum stað, yfir 800 þús. kr., skal staðurinn teljast, að svo miklu leyti sem þar er umfram, til hafnar undir A-lið þessarar gr. og fá eftir það styrk og ábyrgð samkv. því.“ Þetta er nýmæli og afar mikil efnisbreyting. Sannleikurinn er sá, að þegar samþ. hafa verið hér á Alþ. 1. um lendingarbætur, þá var það raunverulegu ætlunin að hjálpa smærri stöðum, sem ekki gátu undir neinum kringumstæðum byggt sig upp nema með stórkostlegri hjálp. Enda hefur það sýnt sig, að urmull af stöðum úti á landi er kominn undir þennan lagabálk. Nú var það aldrei ætlun Alþ. á þeim tíma, sem þetta kom inn, að hægt væri að byggja slíka staði upp, ef það kostaði milljónir. Það hlýtur að falla undir annað en lendingarbætur, það hlýtur að falla undir flokk mála, sem heitir hafnargerðir. Þess vegna hefur n. viljað láta takmarka þetta við vissa upphæð og hefur orðið sammála um að setja inn upphæðina 800 þús. kr., og á það við, að allt mannvirkið kosti 800 þús. kr., en ekki aðeins sá hluti, sem ríkissjóður leggur fram. N. hefur einnig orðið sammála um, að þetta skuli reiknað frá þeim tíma, er l. ganga í gildi, þar sem ekki er eðlilegt að láta l. verka aftur fyrir sig. Verði þessi gr. samþ., þá veltur kannske ekki mikið á því, hvernig flokkunin er gerð milli þessara tveggja flokka, a. m. k. ekki svo mjög á því, þó að ekki séu fyrir fram gerð stærri mannvirki en lendingarbótaflokkur gerir ráð fyrir, vegna þess að það takmarkast af sjálfu sér við þessa upphæð. Verði hins vegar ekki samþ. þessi till. n., hefur það mikla þýðingu, hvort höfn er í flokki lendingarbóta eða í hafnargerðaflokki.

Þá er hér brtt. við 9. gr., þannig að það er gert ráð fyrir því, að það megi taka árleg gjöld af hafnarmannvirkjum, „ef þau standa á lóðum hafnar- eða lendingarbótasjóðs eða njóta hlunninda af hafnargerðinni.“ En það eru til töluvert margir staðir, þar sem einstaklingar eiga bryggjur og önnur hafnarmannvirki enn þá. Hefur því þótt rétt að setja hér inn, að þetta ætti að gera framvegis, ef þau standa á lóðum hafnarinnar eða lendingarbótasjóðs. Hins vegar þykir n. ekki rétt, að leyft verði að taka gjöld af hafnarmannvirkjum einstaklinga, ef þau standa ekki á lóð hafnarinnar og njóta ekki neinna hlunninda af þeim framkvæmdum, sem höfnin hefur látið gera. Fyrir það er þessi brtt. komin inn. — Svo er gert ráð fyrir, að einnig við þessa gr. komi tvær nýjar málsgr., önnur þannig, að af hafnarmannvirkjum einstaklinga eða félaga megi engin önnur gjöld taka í hafnar- eða lendingarbótasjóð, án samþykkis hlutaðeiganda, en náist ekki slíkt samþykki, sé aðila skylt að láta mannvirkin af hendi samkv. ákvæðum 4. gr. þessara l. Reynslan hefur sýnt það, að hörð átök eru á milli hafnarsjóðs og einstaklinga, sem eiga hafnarmannvirki. Á Patreksfirði er t. d. eina hafnarmannvirkið í einstaklingseign. Þegar það var fyrst ákveðið í hafnarl., að hafnarsjóði væri heimilt að taka hafnargjöld af þeim mönnum, sem áttu mannvirki, þá komu mótmæli fram frá eigendum, þar eð gjöld þessi hefðu orðið um 30–40 þús. kr. Stjórnarráðið breytti svo löggjöfinni í þessu atriði vegna mótmælanna. N. taldi, að ef ekki væri hægt að ná samkomulagi, skyldu einstaklingar láta mannvirkin af hendi. Með samþykkt þessarar gr. er reynt að þræða milliveg. 2. liður hér leyfir að innheimta gjöld, þegar byrjað er á mannvirki, og er það eins og í öðrum lögum.

Í 14. gr. stendur: „Við lok hvers reikningsárs og eigi síðar en fyrir lok febrúarmánaðar ár hvert, skal gera reikning yfir tekjur og gjöld og efnahagsreikning hafnar- og lendingarbótasjóðs á sérstök eyðublöð, er ráðuneytið lætur gera fyrir hafnar- og lendingarbótasjóði.“ Hér er farið fram á, að halda skuli reikning alltaf, en ekki einu sinni á ári.

Aftan við 14. gr., þar sem sagt er, að tekjur og gjöld hafnarsjóðs skuli færast á sérstök eyðublöð, komi: Reikningana skal endurskoða og úrskurða á sama hátt og reikning hlutaðeigandi bæjar- og sveitarsjóðs, og skal jafnan senda ráðuneytinu afrit af reikningunum. Þannig getur rn. fylgzt með fjárhag hvers hafnar- og lendingarbótasjóðs um allt landið, og er þetta nauðsynlegt til þess að ákveða framlög til mannvirkja. Ætlazt er til, að aftan við 14. gr. komi ný gr., sem verði 15. gr., og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú eru eignir og tekjur hafnar- eða lendingarbótasjóðs svo miklar, að þær geta að dómi ráðuneytisins staðið undir nauðsynlegum framkvæmdum nýrra hafnarmannvirkja, auk rekstrargjalda, og ber þá ríkissjóði ekki að greiða styrk til framkvæmdanna né ábyrgjast lán til þeirra.“

Ég get hugsað, að mönnum finnist við fyrsta lestur þessarar gr., að hér sé ekki farið inn á rétta braut, en við nánari athugun er þetta rétt. Það er alltaf skilyrði til hafnar- og lendingarbóta, að ráðuneytið samþ. mannvirkin. Ef hafnarsjóðir þurfa ekki að leita til ríkissjóðs um fé, þá mun fjvn. ekki fara að veita fé til þeirra né heldur, ef framkvæmdir eru óþarfar. Þá má benda á það, að hér í Reykjavík hefur Alþ. ekki séð sér fært að styrkja höfnina, vegna þess að það telur, að hún hafi svo miklar tekjur, að hún þurfi ekki á opinberu framlagi að halda. Og margir staðir munu í framtíðinni geta staðið undir sér, og er þá ekki rétt að veita þeim lán.

Ég vil í þessu sambandi aftur vitna til þess, að ríkisstj. hefur gefið upp, að nú sé unnið fyrir um 11 millj. kr. að hafnarframkvæmdum, og á þessu ári eru kröfur um 16 millj. kr. Þörfin er mjög mikil. Þetta markast bæði af þörfinni og svo því, að hafnirnar eru prýðileg fjárhagsleg fyrirtæki, þegar búið er að koma þeim upp, og hefur reynslan sýnt það.

Ég vil svo að lokum benda á það, að sjútvn, hefur farið fram á eitt nýmæli í sambandi við 2. gr., nefnilega það, að Elliðaárvogur verði gerður að sérstakri höfn, en hann er í hafnarlandi Reykjavíkur, en n. vill gera þetta vegna þess, að þessi staður hefur verið ákveðinn af Alþ. sem skipasmíðastöð og þurrkví, og sérstakt framlag er veitt til þeirra mannvirkja. Ef hafnarl. fyrir Reykjavík verða felld úr gildi, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá er einnig burt felld skylda ríkisins um 2/6 hluta framlag til hafnarmannvirkja.

Ég tel hins vegar rétt, að Elliðaárvogur fái framlag, vegna þess, að sá staður kemur ekki til með að fá neinar tekjur í náinni framtíð. Ef þetta yrði samþ., þá mundu framkvæmdir þarna komast í gang, en þá yrði um leið að skipa sérstaka hafnarstjórn og bókhald, og sé ég ekkert á móti því. Nú hefur fram komið beiðni um tveggja millj. kr. framlag til Elliðaárvogs móti þriggja millj. kr. framlagi frá Skipanaust h/f.

Ég hef þá skýrt brtt., sem sjútvn. hefur gert við frv., og vonast ég til, að. hv. deild fallist á till. og málinu verði hraðað úr d., svo að hægt verði að semja heildarl. um hafnargerðir og lendingarbætur.