29.11.1945
Efri deild: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

21. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Eg mun snúa mér að því, sem hæstv. samgmrh. ræddi um. Í sambandi við þessa nýju gr. okkar lýsti ég yfir því áður á fundi, að ég mundi taka til greina aths. hv. 6. þm. Reykv. um þetta atriði. Og ég lýsti yfir því, að mér þætti vænt um, ef menn rækju sig á einhver sérstök fyrirmæli í gildandi l., er snertu þetta, þá væri n. látin vita. Ég tók fram, að mþn. hefði ekki borið sig saman við öll l., sem felld verða úr gildi. Eg lýsti yfir fyrir hönd n., að ég mundi taka til baka brtt., er varðar lið 5 við 14. gr., vegna þess að mér hafði verið bent á í umr., að það þyrfti að athuga þetta nánar. Og ég bar mig saman við hæstv. ráðh. um orðabreyt. við þessa gr., sem er nýmæli í l. Ég geri ráð fyrir, að það flýti fyrir málinu, að brtt. var tekin til baka til 3. umr. Ég býst við, að hæstv. samgmrh. fallist á, að þetta sé rétt meðferð málsins.

Ég vildi ræða sérstaklega það, sem varðar Húsavík. Fyrir fjvn. liggur atriði varðandi það mál. Ef hæstv. ráðh. liti svo á, kæmi til mála, að n. tæki það til athugunar, hvort ekki ætti að setja sérstök ákvæði í frv. viðvíkjandi því. Það liggur fyrir beiðni frá Húsavík um stórkostlegan stuðning til viðhalds hafnarmannvirkja. Ég skil hvorki núgildandi hafnarl. né þetta frv., sem liggur fyrir, þannig, að þau heimili, að styrkur sé veittur til viðhalds hafnarmannvirkja. Ef hafnarsjóður Reykjavíkur hefði á sínum tíma farið fram á fé til að gera við gamla hafnargarðinn vegna eðlilegs slits, þá hefði ekki verið tekið vel í þá beiðni. Ég tel, að ríkissjóði komi ekki við viðhald hafnarmannvirkja á Húsavík, sem búið er að byggja fyrir löngu síðan. Það verður að gera þessi ákvæði skýr í hafnarl., sem eiga að gilda fyrir allt landið.

Hv. 6. þm. Reykv. var þungorður í minn garð. En það stafar af því, að hann hélt það vera mín orð, sem ég flutti hér í d. við fyrri umr. um þetta mál, en ég tók þó skýrt fram, að það væri skrif annars manns, en ekki mín orð. Hefði hann tekið rétt eftir, hvernig ég fór með það mál, hefði hann getað sparað sér mikið af því, sem hann sagði. Ég mótmæli því, að ég hafi á þessum stað eða annars staðar gert ítrekaðar árásir á bæjarstj. Reykjavíkur eða Reykjavík. Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á, að ég tel það ekki fjandskap að hafa persónulega barizt fyrir því, að Reykjavík væri hækkuð upp úr 1/3 upp í 2/5. Ég held það sé öllu snúið við, ef kalla á það fjandskap. Og ég barðist fyrir því, að Elliðaárvogur væri tekinn upp sem sérstakur staður. Og samgmrh. hefur réttilega bent á, að það er algert nýmæli. Það er óvíst, að þetta sé í samræmi við anda l., en það er bókstaflega gert til þess að létta fyrir Reykjavík. Ég sé ekki, að það sé af fjandskap við Reykjavík, ef þetta ákvæði er sett. Og þótt það verði ekki samþ., þá tel ég líklegt, að mikið hægara sé fyrir Reykjavík að fá mótstöðulaust fjárframlag til Elliðaárvogs, ef hann er sérstök höfn. Eins og ég hef bent á, liggur það á valdi ráðh. og Alþ. að veita engan styrk, ef álitið er, að skilyrði séu fyrir hendi, að héraðið geti annazt þetta sjálft. Hv. 6. þm. Reykv. er maðurinn, sem færði málið inn á þessa braut, en ekki ég. Við fyrri umr. var hann að fárast yfir því, að 2 millj. væru ekki mikið upp í 70 millj. Það gaf mér tilefni til að benda á, að þessi áætlun væri sett fram til að tefja fyrir Elliðaárvoginum. Öðruvísi get ég ekki skilið tölurnar. Ég vil reiðilaust spyrja hv. 6. þm. Reykv., hvað hann haldi, að hefði orðið um þessar 400 þús. krónur, sem Reykjavíkurbær hefur fengið til sinna hafnarmannvirkja, ef þá hefði verið sett inn í þingið áætlun um, að Reykjavíkurhöfn ætti að kosta eins margar millj. og hún kostar í dag. Ég sé því ekki annað en það megi fyllilega byrja á Elliðaárvogi með þessa upphæð.

Ég vil benda á, að hv. 6. þm. Reykv. hafði það ranglega eftir, að fjvn. hefði gert tilraun til að leggja til, að samþ. væri 2 millj. kr. styrkur til einstakra manna til þess að gera hafnarmannvirki þarna innfrá, sem ætlazt er til, að Reykjavíkurbær geri undir þeim l., sem samþ. voru 1943. Ef þessir menn gætu gert það, þá gæti Reykjavíkurbær það einnig, sem hefur fyrirheit um 2 millj. kr. fjárframlag og hefur auk þess heimild til að taka 3 millj. kr. lán. Ég skil ekki, hvernig hv. 6. þm. Reykv. getur skilið þetta sem fjandskap. Og ég undrast, að hv. 6. þm. Reykv. skuli taka málið upp á þessum grundvelli. En ég vil segja það fyrir mig, að ég hefði ekki viljað taka upp baráttu fyrir þessu. Ef ég hefði aftur á móti tekið upp fulla baráttu fyrir málinu hér í Reykjavík, væri það á öðru stigi. En ég er ekki í hafnarstj. og ekki heldur í bæjarstj. og hef því ekki haft afskipti af málinu. En ég veit, að sannleikurinn mun koma í ljós á sínum tíma, og hv. 6. þm. Reykv. og fleiri, sem nú eru á móti málinu, munu iðrast synda sinna. Hitt er svo annað mál, að borgarstjórinn, hv. 6. þm. Reykv., hefur talið sér skyldara að hlýða frekar rödd þess manns, sem bera á ábyrgð þessa máls gagnvart honum, og er ég ekki að lá honum það, því að hann er talinn hafa meira vit á málinu en ég og hann til samans. Hitt mun svo tíminn leiða í ljós, að það hefur verið rangt að fara eftir þeim till. Ég hef leyfi til að halda það. Mun ég svo ekki halda uppi frekari deilum um þetta atriði.