11.12.1945
Neðri deild: 51. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Jón Pálmason) :

Þm. hafa nú hlustað á ræður tveggja andstæðinga till. okkar hv. 1. landsk. á þskj. 197. Mér komu ekki á óvart þessi ummæli, því að andstæðingarnir vilja reka þetta sem stórpólitískt mál, og er öllum ljóst, að því er beint gegn ríkisstj. Ef þessir menn telja þetta mál heppilegt til þess að vera eitt aðalkosningamál og telja það jafnframt vera okkur til svo mikillar hneisu eins og fram hefur komið, þá ættu þeir að geta unað vel við sinn hlut. Þetta mál hefur verið túlkað rangt. Andstæðingarnir hafa reynt að nota það sem árás á ríkisstj. og persónulegar árásir á mig, og með þessu ætla þeir að gera tilraun til að auka fylgi sitt í sveitunum, en sveitafólkið lætur ekki blekkjast af slíku. Bændur kæra sig ekkert um að leggja fram stórfé á móti hagsmunum sínum og móti þeirri stefnu, sem þeir fylgja. Það er ekki meining okkar, að Búnaðarbankinn eigi að ráða nokkru um, hvernig fé búnaðarmálasjóðs er varið. Það á að gerast nákvæmlega eftir skýrslum, sem berast frá búnaðarsamböndunum. Það má að vísu deila um, hvort úthluta eigi úr búnaðarmálasjóði eftir framlögum eða eftir höfðatölu. Ég tel réttara að skipta eftir framlögum eða því, sem borgað er, því að þeir, sem mest leggja fram, eiga að fá mest. Þau héruð, sem minnst munu fá eftir þessari till., selja ekki mjólk og þurfa þar af leiðandi ekki að gjalda veltuskatt af sinni mjólkurframleiðslu. Ég tel því ekki rétt, að þessi skattur, sem mjólkurhéruðin þannig greiða, gangi til annarra héraða. Það má segja, að ég sé ekki góður fulltrúi fyrir mitt hérað með þessari stefnu, en ég tel þessa stefnu rétta, og þess vegna fylgi ég henni.

Hv. 2. þm. Skagf. talaði um, að langt væri gengið, þar sem enginn eyrir af búnaðarmálasjóði væri ætlaður til sameiginlegra þarfa bændanna. Þetta er algerlega út í hött, því að féð fer allt til sameiginlegra þarfa. Allir bændur eru í búnaðarsamböndum, og samböndin verja fénu til nauðsynlegra starfa fyrir félagsmenn sína, og án efa er þeim bezt kunnugt, hvar skórinn kreppir að.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að þessi till. okkar væri vantraust á Búnaðarfél. Íslands og búnaðarþing. Það er nokkuð til í þessu. Upp á síðkastið hefur búnaðarþing hagað sér eins og nokkurs konar aukaþing Framsfl. og unnið að því að gera ríkisstj. tortryggilega. Þegar stofnun sem þessi fer að haga sér þannig, er ekki eðlilegt, að henni sé falið meira vald en þörf er á. Hv. þm. sagði, að flestir bændur nema ég væru sammála um nauðsyn þess að byggja yfir Búnaðarfélagið. En ég er líka á þeirri skoðun. En til skrifstofubyggingar verður ríkissjóður að leggja fé, en ekki búnaðarmálasjóður. En byggingin, sem hv. þm. er hér að minnast á, var ekki aðeins skrifstofubygging, heldur líka gistihús fyrir 100 manns með tilheyrandi sölum. Í slíkt vilja þessir unnendur bændanna leggja búnaðarmálasjóð, sem fyrirsjáanlegt er, að verður ekki nema eins og krækiber í tunnu til slíkra nota, þó að hann væri allur lagður í þetta fyrirtæki næstu ár.

Þá hefur verið haldið fram, að þessi till. sé sérstaklega fram borin til þess að kippa fótunum undan stéttarsambandi bænda. Þetta er misskilningur. Hv. 2. þm. Skagf. var að tala um, að búnaðarsamböndin ættu að bera hvert annars byrðar. Þetta er að miklu leyti rétt. Öll þau sambönd, sem borga til Búnaðarfél. Íslands, fá styrki frá því til ýmissa þarfa, og því skipulagi þarf ekki að breyta, og því óþarfi að hamra á því, að gengið sé á rétt sambandanna á hinum dreifðu svæðum.

Hv. þm. (JS) talaði um, að það væri óeðlilegt, að valdið til að skipta fénu kæmi frá Alþ., það ætti að koma frá bændunum sjálfum. Þetta er álitamál. Sannleikurinn er sá, að þessir peningar eru teknir með valdi, og þá finnst mér ekki óeðlilegt, þó að Alþ. úthluti þessum peningum milli félagssamtakanna eftir því, sem þau hafa lagt fram.

Hv. 10. landsk. þm. var með dylgjur í minn garð, sagði meðal annars, að nál. væri mér til minnkunar. Það verður hver og einn að hafa sína skoðun á því, en ég tek mér ekki nærri, þó að hv. þm. telji það eiga að vera á annan veg. — Þá var þessi sami hv. þm. að tala um, að með þessu væri grundvellinum steypt undan fyrirtækinu, sem stofnað var til í fyrra. Þetta er fjarstæða. Það, sem hér er um að ræða, er aðeins, hvort bændur eigi að fá hið umrædda fé til eigin þarfa heima í héruðunum eða Búnaðarfél. Ísl. og búnaðarþing eigi að nota það til einhverra annarra þarfa. Varðandi rökstudda dagskrá hv. 10. landsk., að vísa málinu heim í héruðin til álits og umsagnar, eða til þess að þau segðu um það, hvort þau vildu féð eða ekki, þá get ég vel gengizt inn á að bæta við till. mína, að þeim félögum, sem ekki vilja féð, sé heimilt að skila því aftur. (PO: Finnst ekki hv. þm. A.-Húnv. hann sé búinn að gera bændum nóga smán, þó að hann bæti ekki gráu ofan á svart?) Slíkri fjarstæðu hirði ég ekki að svara.

Ég sé svo ekki ástæðu til að tala fleira um þetta að sinni, en eftir því, sem mér virðist anda við hjá hv. flm. og jafnvel fleirum, sem að þessu frv. standa, þá get ég búizt við því, að umr. verði eitthvað frekari um málið síðar.