28.02.1946
Neðri deild: 77. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

32. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. 1. minni hl. (Jón Pálmason) :

Ég geri ráð fyrir, að það þýði næsta lítið að halda uppi þrætum um þetta frv. Það hefur þegar verið rætt við tvær umr. og einnig í blöðum, og eru örlög þess ráðin. En út af ræðu hv. þm. Mýr. þykir mér skylt að segja nokkur orð.

Það er óvenjulegt, að flm. mála leggi áherzlu á að fella þau frv. Þó eru flm. þessa frv. að tala á móti því og tefja það. Ræða hv. þm. Mýr. var öllu fremur lík kosningaræðu en þingræðu. Hann lét í það skína, að ég hefði flutt brtt. fyrir kommúnista. Þetta er ekki rétt, ég flutti hana fyrir ríkisstj. alla. Í sambandi við hinn almenna veltuskatt þótti ríkisstj. óviðfelldið, að samtímis því að leggja veltuskatt á þessar vörur, þá væru landbúnaðarvörur undanþegnar veltuskatti. Með tilliti til þessa flutti ég þessa brtt. fyrir ríkisstj. Mér þótti efamál, hvort ætti að knýja þetta fram, en raddir voru uppi um það, og vann ég þetta til.

Það er nú búið að gera þetta mál að pólitísku árásarmáli á viðkomandi ráðh. og ekki öðruvísi hægt að taka það en grímuklætt vantraust á hann. Sama ákvæði og hér er um að ræða var sett inn í búnaðarfélagslög og fjárlög í stjórnartíð Hermanns Jónassonar. Þá þótti öllum framsóknarmönnum það sjálfsagt, þótt þeir setji sig nú upp á móti.

Svo var að skilja á hv. þm. Mýr., að samkomulag hefði náðst um, hvernig ráðstafa ætti fénu, á fundi Búnaðarfélagsins. En svo var ekki. Níu fulltrúar greiddu atkv. á móti að leggja fé í hótelbyggingu, og urðu um þetta harðar deilur. Hér snýst ágreiningurinn um það, hvort betra sé að verja þessum skatti til húsbygginga í Reykjavík eða skipta fénu á milli búnaðarfélaganna. Að halda því fram, að hér sé um hefndarráðstafanir á hendur bændum að ræða, er vitleysa. Deilan er um það, hvernig þessu fé er bezt varið.

Deilan um þetta frv. er vakin af flm. þess, og mér hefði ekki dottið í hug að svara, ef ekki hefði komið fram greinilegt vantraust á þann ráðh., sem ég fylgi. Ég skal ekki blanda mér í þær deilur, er fjalla um, hvað hótelið muni kosta. En það voru 2–3 atriði, sem komu fram hjá flm. þessa frv., þeim hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Mýr., sem eru á þá leið, að þeir mæla gegn frv. á þeim grundvelli, að skipting fjárins væri óréttmæt. Þeim finnst það furða, að Búnaðarbankanum skuli vera falið að skipta fénu. En í raun og veru er það ekki annað en útreikningur, sem bankanum er falið.

Þá er hitt, að búnaðarsamböndin fari að rifast um, hvað mikið fé skuli fara til hvers manns, sagt út í hött. Búnaðarsamböndin eru það illa sett, að ekki hafa þau getað haft einn launaðan starfsmann til að vinna að málum sinum. Það er gefið mál, að búnaðarfélögin þurfa á meira fé að halda en hingað til, vegna hinnar miklu vélavinnu í stórum stíl, sem framundan er.

Að síðustu þetta: Það ætti ekki að skipta fénu eftir sömu hlutföllum og borgað var inn í sjóðinn. Þegar um t. d. veltuskatt er að ræða af landbúnaðarvörum, þá kemur mest á þá, sem mest framleiða. Jöfnuðurinn verður að koma gegnum ríkisstjórnina. — Ég sé svo ekki ástæðu til að vera að fjölyrða meira um þetta. Atkv. verða nú að skera úr.